Samvinnan


Samvinnan - 01.02.1954, Blaðsíða 23

Samvinnan - 01.02.1954, Blaðsíða 23
FLUG LINDBERGS (Frawh. af bls. 15) Seinna frétti ég, hvað skeð hafði. Enda þótt menn væru svartsýnir á endalok flugs míns, höfðu frönsk yfirvöld gert ráðstafanir til þess, að mér yrðu veittar móttökur á flugvellinum. Varðmönnum var fjölgað við völlinn, og þegar það fréttist, að vélin hefði sézt yfir Englandi, tóku bifreiðar í þúsundatali að streyma frá París út á flug- völlinn. Voru þá tveir herflokkar sendir út af örkinni til viðbótar við það lögreglulið, sem fyrir var. Þegar mannfjöldinn braut niður girðingar og þusti út á flugvöllinn, urðu allar þessar ráðstafanir að engu. Her- menn og lögregla urðu að láta undan síga fyrir ofurmagni fjöldans. Tveir franskir flugmenn, Detro^mt og Delage, stóðu í þvögunni ekki allfjarri mér. Delage þreif í hand- legg Detroyat og hrópaði: „Komdu, þeir kæfa hann!“ Detroyat, sem var maður hávaxinn og klæddur ein- kennisbúningi, tókst að þröngva þeim sem báru mig á öxlum sér ti! hlýðni við sig. Þegar ég loks stóð á eigin fót- um, var illt að greina einkennisbúning minn í myrkrinu, og fyrr en varði hvarf ég í mannhafið. Meðan þetta skeði hafði flughúfan mín hafnað með einhverjum hætti á höfði amerísks fréttaritara. Einhver benti á hann og sagði: „Þarna er Lindberg!“ Múgurinn lagði fréttamanninn í einelti, en lét mig í friði. Þessir nýju vinir mínir ýttu mér inn í lítið herbergi í einum skálanum, en áður slökktu þeir flest ljós, til þess að mannfjöldinn kæmi síður auga á mig. Síðan spurðu þeir, hvort ég væri svangur eða þyrstur. Ef til vill þyrfti ég á læknishjálp að halda. Langaði mig til að leggjast fyrir? Ég þyrfti aðeins að segja, hvers ég óskaði, og gjör- völl franska þjóðin væri reiðubúin að uppfylla óskir mínar. Mig langaði ekki til að leggjast fyrir, og ég hafði ekki minnstu þörf fyrir læknishjálp; en ég hafði miklar áhyggj- ur út af flugvélinni, enda þótt mér væri sagt, að allt, sem í mannlegu valdi stæði, væri gert til þess að forða henni frá spjöllum. Ég spurði þá, með hvaða hætti ég gæti komizt gegnum útlendingaeftirlitið og vegabréfaskoðunina. Af þessu hafði ég nokkrar áhyggjur, þar sem mér hafði láðst að afla mér vegabréfsáletrunar, áður en ég lagði af stað að heiman. Ég hlaut ekki annað svar en bros og hlátrasköll. Ég afréð að bíða rólegur og sjá, hvað sæti. Detroyat fór nú út til þess að skyggnast um eftir ein- hverjum yfirmanni úr hernum. I mannþrönginni hitti hann Weiss majór í 34. flugsveit. Majórinn trúði því ekki, að ég sæti í myrkrinu inni í flugskála. „Það getur ekki verið,“ sagði hann, „ég horfði á fagnandi mannfjöldann bera Lindberg á höndum sér til hinnar opinberu mót- tökunefndar.“ Sennilega hefur hann séð fréttamanninn með húfuna mína, sem áður getur, en þrátt fyrir andmæli og mótspyrnu var hann borinn til ameríska sendiherr- ans, áður en mistökin komu í ljós. Weiss majór krafðist þess, að ég yrði fluttur í skrif- stofu hans í stöðvum flughersins þar við völlinn, en ekki hafði ég setið þar lengi, þegar amerískar raddir bárust mér til e^^rna, og einhver sagði, að ameríski sendiherrann biði fyrir utan. Andartaki síðar opnuðust dyr, og ég var kynntur fyrir Myron T. Herrick. Fjmr en varði fylltist skrifstofan af fólki. Herrick sendiherra vildi, að ég kæmi strax með sér til sendiherrabústaðarins og dveldist þar um nóttina. Ég krafðist þess, að ég fengi áður að sjá flugvélina mína. Ég vissi þá ekki, að frönsk yfirvöld höfðu ætlað sér að gera við allar skemmdir, áður en ég sæi hana aftur. Ég ók í bifreið Delage með flugmönnunum tveim út að flugskýlinu, þar sem vélinni hafði verið komið fyrir. Mér hraus hugur við, þegar ég sá, hvernig hún var útlits. Stór- ar flyksur höfðu verið rifnar af striganum um belg vélar- innar, og einhver safnarinn hafði ekki látið sig muna um að brjóta smurningsstút af sjálfum hreyflinum. En þó að vélin liti illa út, var ekki um neinar alvarlegar skemmd- ir að ræða. Við ætluðum að hitta Herrick sendiherra aftur, svo að ég gæti fylgzt með honum til Parísar, en fylgdarmenn mínir gátu þá hvergi fundið hann. Eftir stundarfjórðungs leit gáfust þeir upp og ákváðu að aka mér sjálfir til sendi- ráðsins. Þegar við komum inn í borgina, stöðvaði Delage bif- reiðina á stóru, hringmynduðu torgi. Á því miðju gnæfði stór steinbogi við himin; var hann skreyttur höggmynd- um og umvafinn mildri birtu. Vinir mínir leiddu mig und- ir bogann, og ég staðnæmdist hljóður við gröf óþekkta hermannsins, þar sem hinn eilífi eldur brennur. Þeir vildu, að sigurboginn yrði fyrsti áfanginn á leið minni inn í París. Við komum til sendiráðsins löngu á undan Herrick sendiherra. Klukkan var orðin þrjú eftir miðnætti, þegar hann kom heim. Þá hafði álitlegur hópur fréttamanna safnazt saman á götunni framan við sendiráðið. Sendi- herrann stakk upp á því, að þeim yrði boðið inn og að ég svaraði nokkrum spurningum varðandi flugið, og var það gert. Þegar ég gekk til náða, slógu klukkurnar á Signubökk- um 4:15. Þá hafði ég ekki sofið í 63 klukkustundir. Þegar ég vaknaði seinni hluta næsta dags, dálítið stirð- ur, en endurnærður af hvíldinni, beið mín veröld, sem hefði ekki verið annarlegri, þó að ég hefði lent á annarri stjörnu. Móttökurnar á Bourget-flugvelli voru aðeins svipur þess, sem á eftir fór. Fátækleg orð megna ekki að lýsa þakklæti mínu fyrir þá höfðinglegu rausn, sem ég varð aðnjótandi. Ég gæti skrifað mikið um það, sem fyrir mig bar í Evr- ópu, um heimkomu mína til Bandaríkjanna og þakklæti mitt til Evrópumanna og Ianda minna, en það er önnur saga. ENDIR. 23

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.