Samvinnan


Samvinnan - 01.04.1958, Blaðsíða 3

Samvinnan - 01.04.1958, Blaðsíða 3
SAMVINNAN Hverjir eiga að greiða stóreignaskattinn? Stóreignaskattur hefur nýlega verið lagður á landsfólk- ið, öðru sinni á tæpum áratug. Er að vonum mikið um þessa ráðstöfun rætt og sterklega á hana deilt, svo og þá, sem að skattlagningu þessari standa. Kennir þar margra grasa, og er ekki alltaf farið með staðreyndir af ná- kvæmni. Samvinnufélögin hafa allmjög verið dregin inn í um- ræður um stóreignaskattinn. Hafa valdamikil öfl í þjóð- félaginu haldið því fram um þetta mál eins og flest skattamál, að samvinnufélögin njóti hlunninda þjóðinni í heild til óþurftar. Þess vegna er rétt að gera skatt þenn- an nokkuð að umræðuefni í Samvinnunni. Algengt er að heyra, að samvinnufélögin borgi engan stóreignaskatt, en félög einstaklinga greiði hann nær all- an. Slík fullyrðing byggist annað tveggja á fáfræði um eðli skattsins eða vísvitandi rangfærslum. Sannleikur- inn er sá, að stóreignaskatturinn er alls ekki lagður á félög, hvorki einkafyrirtæki, hlutafélög, sameignarfélög né samvinnufélög. Skatturinn er lagður á einstaklinga, sem eiga skuldlausar eignir meiri en eina milljón króna. Þessa höfuðreglu verða allir að skilja, sem láta sig þetta mál nokkru varða. Þessi sama regla gilti nákvæm- lega eins um fyrri stóreignaskattinn, og hafa því allir stjórnmálaflokkar þjóðarinnar nú eða í fyrra sinnið samþykkt regluna. A A V V Af hverju er þessi regla notuð og samþykkt af öllum flokkum? Sterkar röksemdir mæla með því, að leggja skattinn á einstaklinga en ekki félög. Segjum svo, að einstaklingur eigi fimm fyrirtæki, og skuldlaus eign hvers þeirra um sig sé t. d. 990 000 krónur — innan við milljónina, sem skatturinn miðast við. Þá mundi ekkert félaganna skylt til að greiða stóreignaskatt, af því að ekkert þeirra á skuldlausa milljón. En eigandinn, sem persónulega á í þessum fimm félögum, 4,9 milljón króna skuldlausa eign, greiðir heldur engan stóreignaskatt. Síðan gæti verið til annað félag, sem 100 menn ættu saman, og ætti skuld- lausa eign 1 100 000 krónur. Þetta félag mundi verða að greiða stóreignaskatt. Þar með mundu 100 menn, sem eiga 11 000 kr. hver, greiða stóreignaskatt, en einn mað- ur, sem á 4,9 milljónir, ekkert greiða! Slíkt getur að sjálfsögðu ekki gengið. Vonandi sýnir þetta dæmi, hvers vegna það er hvorki skynsamlegt né réttlátt að leggja stóreignaskatt á fyrir- tæki. Þetta er ein höfuðástæðan til þess, að allir flokkar alþingis hafa valið hina leiðina, að láta skipta eignum fyrirtækja milli eigenda þeirra, og leggja síðan skattinn á einstaklingana. Allir hljóta að vera sammála þingflokkunum fjórum um það, að réttlátt sé að leggja stóreignaskatt á þá ein- staklinga í þjóðfélaginu, sem stórar eignir eiga, ef til slíks skatts er gripið á annað borð. Eða vill nokkur and- mæla þeirri kenningu? Sé lítið um andmæli gegn þessari grundvallarreglu stóreignaskattsins, verða menn að sætta sig við rökrétta afleiðingu reglunnar. Hún er sú, að það eru einstakling- arnir, sem eiga einkafélögin, er hafa reynzt eigendur hinna stóru eigna, og þeim hefur því verið gert að greiða skattinn. Hins vegar eru það ekki auðmenn landsins, sem eiga samvinnufélögin. Af rúmlega 30 000 félagsmönnum þeirra eru innan við 100 milljónamæringar í krónum dagsins í dag, hinir eiga ekki stóreignir, og því er ekki hægt að leggja á þá stóreignaskatt. Þeir, sem mest berjast gegn stóreignaskattinum, vita þetta allt mætavel. Þeir treysta sér ekki til að ræða mál- ið á þessum sjálfsagða grundvelli. Af því að auðmenn- irnir láta yfirleitt fyrirtækin greiða fyrir sig skattinn, er málinu snúið við og alltaf talað eins og fyrirtækin séu skattlögð. Síðan er bent á, að fyrirtæki einstaklinganna verði að greiða, en samvinnufélögin greiði ekki. Stóreignaskatturinn er milljónamæringaskattur, lagð- ur á einstaklinga. Þess vegna getur enginn sanngjarn maður ætlazt til þess, að hann sé Iagður á alþýðu manna í landinu, sem ekki á milljón eða neitt nálægt því. Af þessum sökum mótmæla samvinnumenn þeirri rógs- herferð, sem hafin er til þess að sverta samvinnufélögin að tilefnislausu og beina athygli landsmanna frá þeim höfuðstaðreyndum málsins, sem hér hefur verið bent á. V V Af hverju er stóreignaskattur yfirleitt lagður á? Af hverju er þjóðfélagið að „refsa“ duglegum einstaklingum, sem hafa komizt yfir eignir? Svarið er mjög skýrt og einfalt. Vegna hinnar öru dýr- tíðar undanfarin ár hafa allar eignir hækkað óeðlilega mikið í verði, án þess að nokkuð sé til þeirrar eignaaukn- ingar unnið. Þjóðfélagið hefur ekki ráð á því að láta hóp einstaklinga hagnazt þannig á erfiðleikum heildarinnar. Þess vegna verða milljónamæringarnir að skila aftur nokkrum hluta hinna vaxandi eigna, en munu þó flestir verða betur stæðir eftir greiðslu skattsins en það alþýðu- fólk í samvinnufélögunum, sem skriffinnar auðvaldsins heimta, að greiði þennan skatt. SAMVINNAN 3

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.