Samvinnan - 01.12.1986, Side 57
Gunnar Karlsson:
Um samvinnuhugmynd
og kaupfélagsnafn
í 3.-4. hefti Samvinnunnar 1986 víkur
Andrés Kristjánsson nokkrum orðum
að grein sem ég skrifaði um Aldarsögu
Kaupfélags Þingeyinga eftir hann fyrir
rúmum þremur árum. Ég má til með
að biðja blaðið að birta stutta athuga-
semd við mál hans.
Að vísu verður mér svarafátt þegar
Andrés heldur að ég hafi fundið að því
að hann skrifaði ekki „járnbenta sagn-
fræði með öllum sínum lestrarhöml-
um“ sem þar á ofan skyldi vera „kaf-
færð . . . í sjálfskönnunum." Þó að ég
skilji þessi orð engan veginn til fulls get
ég ekki betur séð en hann sé þar að ala
á fordómum gegn fræðigreininni sagn-
fræði. Ég væri alveg til í að ræða tak-
markanir hennar og annmarka mál-
efnalega, við Andrés eða hvern sem
væri. En svona óljósar dylgjur er engin
leið að ræða. Svo er það ekki einu sinni
rétt hjá Andrési að ég hafi fundið að
því að hann skrifaði ekki fræðilegar en
hann gerir. Ég fann einkum að tveim-
ur atriðum tiltölulega almenns eðlis í
bók hans. Annað var það að áður
margskrifuð saga af fyrirrennurum og
aðdraganda Kaupfélags Þingeyinga
væri rakin óþarflega nákvæmlega, án
þess að margt nýtt kæmi fram. Hitt var
það að starfssaga Kaupfélagsins sjálfs
risi of sjaldan upp úr því að vera starfs-
skýrsla. Hvorugt hefði þurft að hindra
hann í að „koma á blað aðgengilegri og
sannri sögu“, þvert á móti.
Við Andrés erum ósammála um
hvers vegna beri að miða upphaf sam-
vinnuhreyfingarinnar á Islandi við
stofnun Kaupfélags Þingeyinga, og
kann nú einhverjum að finnast að það
standi á litlu, úr því að hvorugur okkar
vill hrinda félaginu úr þeim heiðurs-
sessi sem það hefur hlotið í þjóðarsög-
unni. Samt er ágreiningur okkar ekki
alveg þýðingarlaus, og báðir viljum við
skrifa sanna sögu. Andrés segir að
Kaupfélagið sé fyrsta samvinnufélagið
af því að það var fyrst verslunarfélaga
„reist á öllum þeim þremur eða fjórum
meginstoðum, sem hvert heilsteypt
samvinnufélag í þessari viðfangsgrein
verður að hafa . . . en þeirstuðlarvoru
og eru fyrst og fremst samvinnumeð-
ferð stofn- og rekstrarfjár, sannvirðis-
reglan, sjálfsábyrgðin, og félagsaðild
að samvinnuhætti ísamræmi við það. “
Nú mætti deila um hvort Kaupfélag
Þingeyinga hafði öll þessi einkenni í
upphafi. Ekki er tóm til að ræða það
hér, enda er það aukaatriði í þessu
sambandi. Hitt skiptir meira máli að
það er engan veginn sjálfsagt að ein-
mitt þessi atriði og engin önnur skuli
teljast meginstoðir samvinnufélags-
skapar. Þegar þau eru kölluð „fullgild-
ur samvinnustakkur“, eins og Andrés
gerir, þá er sá stakkur klæðskerasaum-
aður handa Kaupfélagi Þingeyinga,
eins og menn halda (ranglega eða
réttilega) að það hafi verið. Þá setja
þeir til dæmis ekki fyrir sig að Kaupfé-
lagið var skipulagt sem hlutafélag. Það
gaf út hlutabréf og félagsmenn höfðu
viðskiptarétt í hlutfalli við hlutafjár-
eign, þó að atkvæðisréttur færi ekki
eftir henni. Ég get vel fallist á að þetta
sé aukaatriði, en skyldi ekki mega
segja það sama um eitthvað af því sem
gerir eldri verslunarfélög minna sam-
vinnufélagsleg en Kaupfélag Þingey-
inga?
Þá er það kaupfélagsnafnið. Ég
drap á það í greininni um bók Andrés-
ar (og Sveinn Skorri Höskuldsson
sýndi nánar fram á það í 5.-6. hefti
Samvinnunnar 1985) að orðið kaupfé-
lag var til í íslensku sem samnafn löngu
áður en Kaupfélag Þingeyinga varð til.
Það virðist hafa merkt nokkurn veginn
það sama og verslunarfélag, og líklega
hefur það verið myndað sem hliðstæða
orðsins kaupmaður: Einstaklingur
sem.rak verslun var kaupmaður, félag
sem rak verslun var kaupfélag. Því
taldi ég að Andrés hefði ranglega eign-
að frumkvöðlum Kaupfélags Þingey-
inga tilbúning orðsins.
Nú segir Andrés að ég hafi misskilið
sig um þetta. Hann hafi aldrei verið að
tala um hver hefði búið til orðið, að-
eins hverjum hafi dottið í hug að nota
það í nafn félagsins. „Sitt er nú hvað
orð og nafn!“ segir hann og setur á sig
talsverðan snúð. Sé það rétt að ég hafi
misskilið Andrés hafði ég sannarlega
ástæðu til þess. Fyrst er nú það að
merkingarmunur orðanna orð og nafn
er fjarri því eins alger og hann lætur.
Sum orð eru nöfn, öll nöfn eru orð,
segja málfræðingar mér. Svo var tæp-
ast von að mér dytti í hug að Andrés
færi að skrifa að minnsta kosti blað-
síðu (74 og 78-79) um ekki frumlegri
hugmynd en að setja alþekkt samnafn
í nafn á félagi. Ekki man ég til þess að
nokkurs manns hafi verið minnst fyrir
að kalla búnaðarfélögin búnaðarfélög,
kvenfélögin kvenfélög, verkalýðsfé-
lögin verkalýðsfélög, ungmennafélög-
in ungmennafélög.
Raunar er ég ekki alveg sannfærður
um að misskilningurinn sé eingöngu
minn. „Menn finna fjandakornið varla
annað en það sem til er fyrir“, segir
Andrés í grein sinni í Samvinnunni. En
menn finna ekki upp það sem er til
fyrir, svo að þeir viti, og í Aldarsögu
Kaupfélags Þingeyinga (74) segir að
verið geti að nafnið sé „sameiginleg
uppfinning“ þriggja manna eða fleiri.
Ég held að Andrés komist ekki undan
því að hann hafi valdið mér og öðrum
lesendum nokkrum „lestrarhömlum“
með því að taka svona óljóst til orða,
þótt hann ætlaði sér annað. ♦
57