Spegillinn - 01.03.1967, Blaðsíða 4
FÓGETARAUNIR
Andvarp um Óguðlegan Uppsteit
gegn Ríkisins löglegum yfirboðurum,
óheyrilegar getsakir og orðasvakk
og Óvinarins slægleg hrekkjabrögð.
FURÐU erfitt er fógetans líf,
fátt er þar jafnan um hlé og hlíf,
af honum stendur ótti.
Skuldaþrjótunum skelk í sál
skýtur hann við hvert klögumál,
þá gagnar ei grátur né flótti.
LÖGBROTIN stundar lýðurinn,
lýgur og stelur þorparinn
og tollana tregur greiðir,
brúkar ósvífinn rövl og raus,
reyndar með öllu ærulaus
og sannleikans móral meiðir.
FÓGETANS skylda skýr er þá
skuldaþrjóta að krefja og flá,
það eru lög í landi;
en uppreisnargjarn er almúginn
og yfirvöldunum gagnsnúinn,
vóndslegur er sá vandi.
UPP skal þá hefja sorgarsögn
sem ég hef að í höndum gögn,
grátleg er svoddan saga;
af henni máttu sál.mín sjá
hve syndin freklega leitar á
og andskotinn alla daga.
KÁRI heitir einn hefðarmann,
heilmikið bókasafn átti hann,
(sem biskupinn blessaður keypti)
trúaður piltur, sem tekur ei staup,
en stundaði umfangsrík bílakaup,
það honum um síðir steypti.
FÓGETINN við hann vantalað
víst átti (sagan hermir ei hvað)
of horskur í hlaðið renndi,
frítt með sér hafði fylgdarlið,
og fulltrúa snjallan sér við hlið,
hygg ég þar hofmóðs kenndi.
RÖSKLEGA ganga garpar inn,
gneypur var fyrir húsbóndinn
þjáður af braski og basli.
Svo ætlar fógeti að setja rétt,
en síðar aksjón verður sett
yfir alls konar druslum og drasli.
YFIRVÖLDUNUM virðing ber,
en voða dreissugur lýðurinn er,
sú hér sannaðist kenning.
Sá Vondi Kára eyru í
óhroða hvíslar og skaðræði því,
sem tortímir móral og menning.
KÁRI olli þeim sviða og sút,
er sentist hann beint um dyrnar út
og hurðinni skarplega skellir,
læsir bæði með loku og slá,
lögregluna kallar svo á
og frekan dóm á sig fellir.
DREITIR hann inni laganna lið,
í langan hálftíma doka þeir við
í dýflissu dimmu kafi.
Fá þeir að prófa fangavist,
já, einu sinni allt er fyrst,
— sér grefur gröf þótt grafi.
LÖGREGLAN kemur og leysir þá,
Kára hlustar klögumál á,
þau voru nú svona oh svona.
Kærir hann síðan fyrst og fremst
fógetann. — Ekki um sættir semst,
sem löggan var þó að vona.
MARGUR bresturinn mæðir oss:
syndin freistar með sætan koss,
en heilagur sannleiki hitt er,
að ekkert hressir svo heilsuna,
hreinsar taugar og heilsuna
og magnaður morgunbitter.
OG hví skyldi ekki yfirvald
örþreytt leita á Bacci vald
í mygluðu málastappi?
Breiskur gái hver bróðir að sér
áður en steininum fleygja fer.
— Úr flöskunni flýgur tappi.
ILLMÆLI Kára ekki par
áhrif hefur á löggurnar,
hans er ei prúður prettur.
Friðhelgur reyndist fógetinn,
fráleitt honum að stinga inn,
hann er jú svo hátt settur.
Af þessu máttu, sál mín, sjá,
að svoddan lærdóm draga má
af atviki eins og þessu:
Að illt er að móðga yfirvöld,
yfirbót gerðu strax í kvöld,
og gakk þú á morgun til messu.
Doktor juris honoris causa.
4 S p e g i 11 i n n