Vikan


Vikan - 18.02.1960, Blaðsíða 12

Vikan - 18.02.1960, Blaðsíða 12
ESANDI góður, hefur þú nokkurn tíma séð ástina? Sjálfsagt finnst þér þetta furðuleg spurning, en ef þú hefðir séð ungu stúlkuna með Ijósa hárið og bláu stjörnuaugun og háa, myndarlega piltinn með hörunds- dökka, karlmannlega andlitið, þar sem þau sátu saman á grasbalanum á fögrum sumardegi, þá hefði sú sýn fullvissað þig um, að einmitt þarna væri ástin, -— jafnvel þótt þú sért einn af þeim, sem segir, að ástin sé ekkert annað en leiðinlegt viðkvæmnisbull, og lítilsvirðir um leið tilfinningar mannanna. En ástin er margvísleg. Hún getur verið göfug og fórnfús, og hún getur líka verið svikul og óvægin. Hún getur ráðið örlögum mannanna. Hún getur gert manninn unaðslega hamingjusaman, en hún getur einnig kollvarpað lífi hans. En sleppum þvi. Ef þú lítur aftur til hennar, stúlkunnar, sem situr á gras- balanum, þá heldurðu kannski, að hún sé að virða fyrir sér sóleyjarnar, sem vaxa við fætur hennar, vegna þess að hún horfir á þær djúpt hugsandi. Og ef til vill heldur þú, að pilturinn sé að hlusta eftir ómi frá söng fugl- anna, þvi að hann beinir augum sinum til himins og svipurinn ber vitni eftirvæntingu. En svo er ekki. Hugur þeirra snýst um allt annað og þeim mikilsverðara en saklaus blóm og fagran fuglasöng. Þau eru að hugsa um kveðjustundina, sem er að renna upp. Þungt andvarp leið frá vörum stúlk- unnar. „Heilt ár,“ sagði hún lágt. „Vertu ekki svona hnuggin, ástin mín. Hvað er eitt ár móts við þá löngu og yndislegu ævi, sem við eigum fram undan?“ Hugsaðu þér, Salóme, við getum eytt allri ævinni saman. Reyndu að skilja mig,“ bætti hann við. „Auðvitað tek ég það nærri mér að vera án þín þennan tima, en ég get ekki látið þetta tækifæri ganga mér úr greipum. Á einu ári get ég orðið vel efnaður, ef allt gengur vel, fyrir utan það, hvað ég læri mikið á þessu. Vertu viss, þegar ég kem til baka, fæ ég tilboð frá öllum dagblöðum bæjar- ins um ljósmyndarastöðu." Hún sagði ekkert, en í innstu hugarfylgsnum hennar bjó söguhetjan, sem hún hafði fyrir stuttu lesið um. Þessi söguhetja var ung stúlka, sem hafði beðið unnusta síns, þar til dauðinn hafði miskunnað sig yfir hana og frelsað hana frá svikulum mönnum og grimmum örlögum. Henni varð litið framan í andlit unga mannsins, sem sat við hliðina á henni í grasinu Nei, ég er kjáni, sem læt hugmyndaflugið hlaupa með mig í gönur, hugsaði hún. Þetta andlit gat aðeins borið merki heiðarleikans. Hún lagði handleggina um háls- inn á honum og kyssti hann á ennið. „Fyrirgefðu mér, hvað ég er eigingjörn," hvíslaði hún. „Þetta eina ár óx mér svo í augum, að mér fannst það sem heil eilífð. E'n auðvitað er það bara kjánaskapur að láta svona.“ Ástúðin, sem skein úr augum hans, var endurgoldin með brennheitum kossi. Þau stóðu á fætur, og hann hélt utan um hana, er þau gengu eftir grasbalanum og heim að húsinu „Við verðum að kveðjast núna, Salóme,“ sagði hann, „þvi að tíminn er svo naumur. Það eru ekki nema aðeins þrír klukkutimar, þangað til skipið fer frá bryggju." „Bíddu augnablik, Hreinn," bað hún. Röddin var óvenju-óstyrk. Hún hljóp inn í húsið, og þegar hún kom aftur, hélt hún á litlu umslagi úr seilófan- pappír, sem hún rétti honum. „Hafðu hann, lokkinn úr hárinu minu.“ Hún brosti dálítið vandræðalega í gegnum tárin, sem glitruðu eins og tvær litlar perlur í augum hennar. Hann tók hana í fangið og kyssti hana. „Þakka þér fyrir, Salóme," sagði hann svo lágt, að varla heyrðist. „Og vertu sæl, elsku litla stúlkan mín.“ Hann langaði til að segja eitthvað meira, eitthvað fallegt og hughreystandi, en kökkurinn í hálsinum á honum kæfði niður hljóðið, áður en það var komið fram á varir honum. Það var eins og hann sliti sig frá henni, og hann hljóp í burtu og stanzaði ekki til að veifa henni, fyrr en hann var kominn svo langt, að hún gat ekki séð tárin, sem höfðu þrengt sér út óboðin og streymdu nú niður kinnar hans. Hún veifaði á móti, en í huganum bað hún leiðarljósið að leiða hann aftur til sin. •---O----- Hann sat í litlu herbergi. Að honum undanskildum var ekki annað þar inni en dívan, lítið náttborð, ferhyrndur spegill og handlaug, skrifborð og stóllinn, sem hann sat á. Það vantaði á hann annan arminn Kona húsvarð- arins hafði sagt honum, að fyrri leigjandi hefði verið drykkfelldur, og hún lét það fylgja sögunni, að þegar hann hefði komið heim á nóttunni, þá hafði hann látið barsmiðina bitna á saklausum húsgögnunum. „Það eru ekki ýkjur,“ sagði hún. „Ég heyrði hann oft og iðulega skamma stólinn þann arna. Ég og maðurinn minn höfðum hugsað okkur að láta setja nýja arma á hann, en við vissum ekki, nema næsti leigjandi yrði eins, og þá hefði það verið til lítils. En við höfum auðsjáanlega verið heppin í þetta skipti, og ég sé ekki neitt því til fyrirstöðu, að það verði farið að gera hér ofurlítið vist- legra en það er.“ Hreinn hafði hlustað áhugalaus á konuna, meðan hún lét móðan mása. Honum fannst herbergið hreint ekkert óvistlegt. Það var að sjálfsögðu frekar fátæklegt og einmanalegt, en það var einmitt það, sem hann hafði viljað þá. Hann hafði notið einverunnar og einskis frekar óskað en fá að sitja einn heima í kvöldrökkrinu að loknum vinnudegi og látið sig dreyma um Salóme og framtíðina. En þegar hann fór að kynnast vinnufélögum sínum og heyrði þá ræða um næturklúbba og ástarævintýri, sem stundum litu út fyrir að vera nokkuð vafasöm að hans áliti, en óneitanlega spennandi, þá fór að vaxa hjá honum forvitniskennd, sem seinna varð að sterkri löngun til að sjá og njóta þess, er fram fór innan hinna steinsteyptu veggja sam- kvæmissalanna. „Jæja, drengur, h.vernig lízt þér á umhverfið?" John, vinnufélagi Hreins, sat andspænis honum við borð í stórum veitinga- og danssal. Áður en Hreinn hafði yfirgefið herbergið sitt um kvöldið, hafði hann verið fullur eftirvæntingar og tilhlökkunar. -Hann hafði brosað, þegar honum datt í hug, að hann væri eins og fjórtán ára gamall skólastrákur, sem færi í fyrsta skipti á skóladansleik. En hann varð fyrir vonbrigðum. Umhverfið, eins og félagi hans orðaði það, var alls ekki eftir hans höfði. „Hér getur maður fengið allt, sem maður óskar sér helzt,“ hélt John áfram, — „fallegar stúlkur, gott vín og góða þjónustu, ekki sízt ef maður laumar nokkrum skildingum að þjónunum sem aukaþóknun." Andlit hans ljómaði af ánægju. „Svona nú, littu í kringum þig, maður, og leggðu þenn- an eymdar-fýlusvip þinn á hilluna. Ég gæti hugsað, að þú værir nýbúinn að missa einhverja gamla og vellríka frænku, sem hefði gleymt að koma nafninu þínu fyrir í erfðaskránni." Hann hló dátt af þessari lítilfjörlegu fyndni sinni. Hreinn svaraði ekki. Honum fannst þetta óþverrastaður. Skvaldrið í gest- unum og glasaglamrið fór í taugarnar á honum. Reykjarsvælan var svo mikil, að hann sveið í augun. Hann tók ekki eftir því, að ungu stúlkurnar, sem gengu fram hjá honum, horfðu á hann ástleitnu augnaráði, að minnsta kosti lét hann ekki á því bera, að hann tæki eftir því. „Ég kann ekki við mig hérna,“ sagði hann þurrlega. „Kanntu ekki við þig?“ át John gremjulega eftir honum. „Ég var að segja þér að líta í kringum þig. Sjáðu dömurnar, sem ganga fram hjá þér. Sérðu ekki, að þær horfa á þig eins og þú sért Don Juan endurborinn Svo ætla ég að ráðleggja þér að gæða Þér á drykknum, og vittu svo til, hvort þú færð ekki annað viðhorf til lífsins. Það ætlast enginn til, að þú skemmtir þér hér með skraufþurrar kverkar. Hreinn fór að ráði hans. Hann drakk úr glasinu, fékk sér annað og aftur annað. Og svo sannarlega varð viðhorfið betra. Hann hætti að taka eftir reykjarsvælunni, glasaglamrið varð aðeins þægilegt suð fyrir eyrum hans, og hann hefði ekkert haft á móti Því, þótt gestirnir tækju sig til og syngju allir hver i kapp við annan. Bros stúlknanna fór að falla honum mjög vel í geð. „Heyrðu, sjáð'ana þessa þarna.“ John hnippti í handlegginn á honum. „Hverja, maður? Um hverja ertu að tala?“ „Þessa, sem stendur þarna við dyrnar.“ Hreinn leit við, og frá daufu ljósinu við dyrnar sá hann þá yndislegustu konumynd, er hann hafði nokkurn tima augum litið.

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.