Vikan


Vikan - 27.06.1940, Blaðsíða 7

Vikan - 27.06.1940, Blaðsíða 7
VIKAN, nr. 26, 1940 7 A SKILNAÐARSTUND. Framh. af bls. 4. ast, Inga? spurði hann, og svo hélt hann áfram án viðstöðu: — Þú tortryggir mig. Þú treystir mér aldrei. — Treysti ég þér aldrei? — Já, ég sagði það. Ef þú treystir mér, þá mundir þú þora að setjast hér við hlið mína. — Hvers vegna ætti ég ekki að þora það ? Þú baðst mig bara að koma eitthvað út að labba. — Ég bað þig um það, já. Ég hélt, að þú mundir vilja gera það, því að á morgun fer ég burtu. Og nú var stöðug og vaxandi óánægja í rödd hans, er hann hélt áfram: — Mér líst ekki á þessa sambúð okkar, Inga. Við höfum aðeins þekkst um tveggja mánaða skeið og þó endar hver samveru- stund okkar nú orðið með óánægju. Ekki einu sinni á þessari skilnaðarstund okkar getum við verið sátt. Hún var orðin alvarleg á svip og sagði nú með hægð: — Er það mér að kenna, Kalli? — Já, það er þér að kenna. Hann sagði þetta ákveðið og kalt, en hún lét það hvergi á sig fá og fiktaði við hríslukvistinn sinn. Hann gat ekki að því gert, að bylgjur réttlátrar reiði flæddu yfir brjóst hans. Hversu langt var ekki frá því, að hann hefði nokkurt vald yfir þessum kvenmanni? Það var svo langt, að hvert ásökunarorð hans virtist enganveginn geta sært hana, heldur sneri eggjum sífellt inn að hans eigin hjarta. En nú bjóst hann til atlögu. Þarna stóð hún, svo ung og sak- laus, með laufgaðan hríslukvist upp við andlit sitt. Hún hélt á kápunni sinni á öðrum handleggnum og fagrar og mjúkar línur líkama hennar komu skýrt í ljós gegnum þunnan sumarkjólinn. Ekki aðeins hún sjálf, hið bjarta hörund um háls og 'arma, blá augu, nettir og vel skapaðir fót- leggir, heldur einnig föt hennar og allt, sem henni tilheyrði. Já, meira að segja þessir nettu, brúnu götuskór hennar þarna í grænu grasinu, allt þetta var fyllt slík- um töfrum, að reiði hans gat enga útrás fengið, en hvarft inn til sjálfs hans. Það var hann, sem var bugaður. Það var hún, sem var sterk. Hann laut höfði og andvarpaði dapur- lega. — Kalli minn, hvað er að þér? spurði hún, tók sér sæti við hlið hans og strauk blíðlega um þykka, nýklippta og ljósa hárið hans. En það var ekkert að honum, sagði hann. Hann bara elskaði hana svo mikið. Hún var eina gleði hans í lífinu. Já, fyrir hann var hún lífið sjáláft. — Ég er oft að hugsa um það, Inga, vegna hvers þú munir hafa svona mikið vald yfir mér. — Hefi ég það? spurði hún glöð. — Já, þú veizt það, Inga. Strax eftir að ég fór að kynnast þér, þá fann ég að ég mundi aldrei geta orðið hamingjusamur án þín. Ég hefi aldrei fundið það áður gagnvart nokkurri stúlku. — Kalli minn, ætli þér finnist þetta ekki bara núna? spurði hún, en heitur straum- ur sæilar gleði fór um sál hennar fyrir orð hans. En hann hélt áfram að vera dapur og kvaðst vita þetta alveg fyrir víst. Síðan hallaði hann höfðinu upp að barmi hennar og sagði: — Ég veit að það er ekki karlmannlegt, en mér leiðist svo að þurfa að fara frá þér. Leiðist hvernig ég er; leiðist allt. Aumingja Kalli, ósköp hlaut hann að eiga bágt! Og hann hafði aldrei sagt henni þetta! — Kalli, þú mátt ekki segja þetta. — Jú, ég veit, að ég er ekki nógu góður. Ekki eins góður og þú. Ég vildi að ég væri eins og þú. Mér leiðist að ég skuli þrá það, sem þú ekki þráir. Þess vegna veit ég, að ég er ekki góður. Hann sagði þetta allt með hvíldum, en þessi orð hans megnuðu þó ekki að segja allt. Það var eitthvað eftir, eitthvað, sem hann gat ekki sagt og svo algjörlega var hann á valdi tilfinninga sinna, að hann tók að kenna í brjósti um sjálfan sig. Orðin höfðu yfirgefið hann, einstæðingsskapur- inn fyllti brjóst hans. Hann laut höfði — — og grét. Það er kannske óviðfeldið að sjá full- orðinn karlmann gráta, en tár þessa stóra barns spegluðu í sér svo mikla ástúð og einlægni til hennar, sem hafði orsakað þau, að hún hvarf til hans af allri þrá hjartans og blessaði hann. — Kalli, ég hefi aldrei skilið fyrr, hversu góður þú ert. Lítill skógarþröstur flaug yfir og sett- ist á hríslu skammt frá. Enginn vindblær heyrðist fara um skóginn, náttfallið sett- ist á grasið og laufið í hinum milda friði þeirrar vornætur, sem aðeins hefir þann ókost að takmarkast af degi. Áður en varði var sólin komin upp. Þau höfðu breitt yfir sig kápurnar og nú smugu fyrstu geislar morgunsólarinn- ar niður í lautina til þeirra gegnum dögg- vott laufið. Hann svaf. Hún reis upp við olnboga og horfði á hann. Hann lá með lokuð augu og á enni hans hafði fallið lítill daggar- dropi frá einhverju laufblaðinu, tindraði eins og lítil perla í sólargeislanum, gufaði upp og hvarf. — Kalli! sagði hún lágt. Kalli! Svo kyssti hún léttan koss á enni hans. Hann opnaði augun og leit á hana f jar- rænt og án skilnings, svo áttaði hann sig, fór niður í vasa sinn, leit á úrið, teygði út handleggina og geispaði. Hún horfði á hann brosandi og fleygði sér því næst í faðm hans og vafði hann örmum með ofsa. Hann endurgalt naum- lega ástaratlot hennar, varðþröngtumand- ardráttinn og reyndi að losa sig með hægð. — Ó, Kalli, þú mátt ekki fara. Þú mátt ekki fara! andvarpaði hún. En nú var það hann, sem var sterkur. — Svona Inga mín. Svona, nú verðum við að koma. Hann losaði sig úr armlög- um hennar og reis á fætur. Og þá var það hún, sem grét. — Góða Inga, þú verður að harka af þér, sagði hann og leiddist, hve ístöðulaus hún var. Hún lá þarna í geislum morgunsólar- innar, en hinn kvenlegi vöxtur hennar, bogadregnar línur mjaðma og barms, er komu svo vel í Ijós, þegar hún lá svona á hliðinni, og höfðu haft svo töfrandi áhrif á hann í gærkveldi, höfðu nú engin áhrif á hann meir. Hann mundi eftir því núna, að hann þurfti að sækja brúna samfestinginn sinn til hennar Önnu gömlu. — Við megum ómögulega vera að þessu, sagði hann, — ég fer kl. 10 og hefi svo mörgu að sinna áður. Hún svaraði þessu alls ekkert og hélt áfram að liggja og gráta. — Inga mín, hvað er að þér manneskja? Ekkert svar. Jú, þar leit hún upp, andlit hennar var orðið rautt og þrútið og í hörund þess höfðu hin grænu strá jarðar- innar markað spor sín. Honum fannst hún jafnvel ekkert lagleg lengur og var í stand- andi vandræðum með hana. — Af hverju viltu ekki vera góður við mig? stundi hún. — Er ég kannske vondur? spurði hann. Ekki svaraði hún því neinu. Það ætlaði að fara að fjúka í hann yfir þessu öllu saman, en þá stóð hún á fætur og dustaði föt sín. Kápuna sína lét hún liggja, en hann tók hana upp og fékk henni. Þá bugaðist hún á nýjan leik, féll upp að öxl hans og grét. Mér þykir svo leiðinlegt að skilja við þig, stundi hún, en þessi orð hennar færðu honum enga gleði. Honum fannst hún klessuleg og líkami hennar svo þungur og máttlaus. Hann var vita ráða- laus. — Ég má alls ekki vera að þessu lengur, sagði hann. — Nei, nei, við skulum koma, en Kalh má ég treysta því alveg fyrir víst að þér þyki vænt um mig? — Já, þú mátt það, sagði hann og reyndi af fremsta megni að leggja sann- færingarhreim í röddina. Hún brosti til hans og sagði: — Ég ætla að reyna að láta mig dreyma þig á hverri nóttu. En hann veitti því ekki athygli. Honum hafði einmitt dottið í hug, að olíufötin hans voru enn hjá honum Óla gamla, sem bar í þau fyrir hann. Hún bað hann að leiða sig niður á götuslóðana, og er þau lögðu af stað, sagði hún: — En hve veðrið hefir verið gott í nótt. Mér finnst að náttúran hafi viljað hjálpa okkur til að gera þessa skilnaðarstund okk- ar sem Ijúfasta. En hann heyrði ekki, hvað hún sagði. Hann var að hugsa um, hvort köflótti tref- illinn hans hefði nú annars verið með föt- unum, sem hann lét niður í ferðatöskuna sína í gær.

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.