Vikan - 29.10.1992, Síða 11
Frá vettvangi banaslyssins sem segir frá í
greininni. Þarna kom berlega í Ijós hiö mikla
andlega álag sem hvílir á slökkviliðsmönn-
um sem geta átt von á hvers konar björgun-
arstarfi sem er, upp á hvern einasta dag. Og
engin sálarbrynja er svo þykk að í gegnum
hana smjúgi ekki atburðir sem þessi.
Við sátum inni á kaffistofunni eftir æfinguna,
skrásetjarinn og Guðmundur slökkviliðsmað-
ur, þegar gula Ijósið kviknaði og vælið fór í
gang. Umferðarslys. Tækjabíll. Klippur. Litla
blaðamannshjartað tók nokkra krampakennda
kippi við þetta og heilinn sendi boð til fótanna
um tafarlausar aðgerðir. Vælinu fylgdi rödd í
kallkerfinu sem sagði bíl átta að drífa sig af
stað. Guðmundur tók lífinu af stakri ró, sagði
þann bíl vera uppi í Árbæjarstöð en um var að
ræða árekstur uppi á Suðurlandsvegi. Neyð-
arbíllinn var einnig sendur á vettvang og eins
og af einhverri innbyggðri eðlisvísun stóð
Guðmundur á fætur og sagði betra að kanna
hvað væri á seyði.
Á leiðinni niður hittum við Helga Scheving
þar sem hann æddi út úr fjarskiptaherberginu.
- Við skulum fara í þetta líka, sagði hann og
virtist vera að taka ákvörðunina í þessum töl-
uðum orðum. Neyðarhringing var sett i gang
og upp úr leikfimisalnum komu fáklæddir
slökkviliðsmenn sem einu sinni sem oftar
þennan dag ætluðu að hefja æfingu. Þar með
fór dælubíll eitt með klippurnar í alvarlegasta
slys dagsins. Og það var eins og menn fyndu
það á sér að á döfinni væru björgunaraðgerðir
sem enginn vill lenda í.
Á innan við einni mínútu frá því að útkallið
barst vorum við lagðir af stað upp á Suður-
landsveg. Þetta var án þess að menn vissu
um umfang slyssins eða um hve alvarlega á-
verka var að ræða. Og áður en við lögðum af
stað hafði þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar
verið gert viðvart. Þegar til kom taldi Helgi að-
stoðar hennar ekki þörf þar sem þrír sjúkrabíl-
ar komu mjög skjótt á staðinn, þar á meðal
neyðarbíllinn með lækni.
SKIPULAGT i NEYÐARAKSTRI
Á leiðinni upp eftir lögðu menn, áhyggjufullir,
á ráðin samkvæmt þeim upplýsingum sem
bárust i gegnum talstöð frá þeim björgunar-
mönnum sem þegar voru komnir á staðinn frá
Árbæjarstöðinni. Strax og þeir voru komnir
þangað var Ijóst að um mikið slys var að
ræða og samkvæmt upplýsingum, sem bárust
bfl eitt þegar hann var á leiðinni upp eftir,
mátti gera ráð fyrir að mikið þyrfti að „klippa"
eins og það er kallað þegar skera þarf bíla í
sundur til að ná þeim slösuðu. Þetta varð til
þess að brúnin þyngdist mjög á mönnum í
bílnum og spennan jókst meðan þeir reyndu
að gera sér aðstæður í hugarlund.
Helgi lagði gróflega á ráðin með mönnum
sínum, ákvað hver myndi gera hvað og reikn-
aði með að áhöfn bíls átta, sem búinn er
klippum, væri byrjuð að klippa. - Þetta lítur
víst mjög illa út, sagði Helgi þegar hann hafði
fengið upplýsingar á leiðinni og ökumenn bíla,
sem ekki stönsuðu eða drógu mikið úr ferð,
fengu að heyra það, í hálfum hljóðum þó. -
Þeir hægja ekki einu sinni á sér! Þarna kom
berlega í Ijós hversu mikilvægt það er að öku-
maður neyðarbifreiðar geti verið viss um að
aðrir ökumenn viti af honum og best er ef þeir
víkja almennilega úr vegi og stansi þá helst.
Álagið á ökumanninum er gífurlegt og það
er hreint ótrúlegt hversu yfirvegaður Sigurður
bílstjóri virtist vera á leiðinni þrátt fyrir að hann
væri að keyra þennan sautján tonna trukk í
þungri síðdegisumferð á leið í slys sem hljóð-
aði upp á líf og dauða.
ÞÖGN - ANDKÖF - VIÐBRÖGD
Þegar vettvangurinn kom undan beygjunni
varð andartaks þögn í bílnum meðan menn
voru að átta sig. Þessir þrautþjálfuðu slökkvi-
liðsmenn tóku andköf. Slík aðkoma smýgur í
gegnum hvaða sálarvörn sem er. Sigurður
hafði ekki stöðvað bílinn þegar þeir Helgi,
Kristján og Örvar voru stokknir út úr honum,
sárþjáðu fólki til aðstoðar. Þegar varð Ijóst að
kona á vettvangi var mikið slösuð og maður
klemmdur fastur í bifreið meðvitundarlaus, ef
ekki látinn. Það dró óveðursský tilfinninganna
yfir þennan hóp björgunarmanna sem örfáum |
mínútum áður var við æfingar.
Þetta var mjög sorglegur og erfiður atburð-
ur og dæmigerður um hið gífurlega álag sem I
fylgir þessari starfsgrein. Líkamlegar ofraunir
jafnt sem andlegar hljóta að vinna smám
saman á þeim sem þarna starfa. Og þetta
mátti sjá á mannskapnum á leiðinni úr slysinu
þar sem menn reyndu að klóra sig í gegnum
tilfinningarnar með því að huga að bílum og
tækjum, að gera klárt fyrir næsta útkall, sem |
allt eins hefði getað orðið í bakaleiðinni.
Raunar var slökkviliðið kallað út meðan I
mestur hluti mannaflans sinnti banaslysinu.
Þar var um bruna að ræða og fóru allir af
stöðinni sem vettlingi gátu valdið, auk þess
sem heil vakt, sextán menn, var kölluð út. Til
allrar hamingju fengu slökkviliðsmennirnir að
koma á stöðina þar sem rædd voru viðbrögð
við slysinu, bæði þeirra sjálfra og þeirra sem
voru á vettvangi. Tildrög og ástæður slyssins
voru hugleiddar og menn reyndu að gera sér í
hugarlund hve alvarleg meiðsli þeirra slösuðu
voru. íslensk umferðarmenning hlaut einnig |
sinn skerf í umræðunni.
En þrátt fyrir að flestar hliðar umferðar og I
öryggis væru reifaðar tókst engum sem þarna
var staddur að finna svar við hinni yfirnáttúru-
legu gátu: Af hverju þarf þetta að gerast? Yfir
vaktinni lá drunginn sem mara allt þar til
menn sneru til síns heima. Og hver veit nema
morgundagurinn beri ( skauti sér aðra svona
harmsögu úr íslenskri umferð? Slökkviliðs-
mennirnir á B-vakt geta ekki annað en hrist
höfuðið, álútir, ráðalausir. Þessari erfiðu vakt
Vikunnar í slökkviliðinu er lokið. Þeir koma |
hins vegar aftur á morgun.