Heima er bezt - 01.11.1958, Qupperneq 2
Pjóáareining
Nú um tveggja mánaða skeið höfum vér íslendingar
í fyrsta sinn í sögu vorri átt í stríði við erlent ríki. Leik-
ur sá er harla ójafn. Annars vegar eitt mesta stórveldi
heimsins, grátt fyrir járnum og með gnótt fjár, en hins
vegar eitt fámennasta ríki jarðarinnar, vopnlaust og fé-
lítið. Ekki eru málaefni síður ólík, þar sem annars vegar
er smáþjóð, sem halda vill fast um náttúrleg réttindi sín
til tryggingar lífsafkomu sinni, en hins vegar stórveldið,
sem berst fyrir þeim rétti einum, sem það hefur sjálft
skapað sér með aldagömlu ofríki. Ekki verður því móti
mælt, að þótt vér íslendingar eigum að jafnaði formæl-
endur fáa á erlendum vettvangi, þá hefur samhugur með
málstað vorum víða komið fram. Svo mikil réttlætis-
kennd lifir meðal þjóðanna. xMönnum hefur blöskrað,
hversu ójafn leikurinn er, og þeir hafa skilið þá afstöðu
íslendinga, að þeir séu að berjast fyrir réttlætismáli, sem
auk þess að vera lífsnauðsyn þjóðarinnar, stangast ekki
við nokkur alþjóðalög eða reglur nema vilja hins sterk-
ari aðila.
Svo einkennilega vildi til, að sá, er þetta ritar, var
staddur vestan hafs, bæði þegar Bretar og Frakkar gerðu
hina vopnuðu árás á Súez fyrir tveimur árum og nú, er
Bretar tóku að vernda lögbrot fiskimanna sinna með
vopnavaldi á íslandsmiðum og jafnvel knýja þá til lög-
brota. Viðbrögð almennings vestra voru að mörgu leyti
lík í báðum tilfellum. Menn voru í senn hneykslaðir og
undrandi og fóru ekki dult með andúð sína á atferli
Breta. Ósjálfrátt varð mönnum að spyrja, hvar nú væri
hið fræga „gentleman“-hugtak Bretans, sem hann er
kunnur fyrir. Gat það samræmzt því, að stjórn heims-
veldisins léti sér sæma fyrir sakir hagsmuna fámenns
hóps þegna sinna, að ráðast með vopnavaldi á lífsaf-
komu vinveittrar smáþjóðar? Það eru fleiri en oss grun-
ar víða um lönd, sem skilja, hversu fiskveiðar Breta við
ísland eru lítilvægur þáttur í þjóðarbúskap þeirra hjá
því, sem fiskveiðar eru fyrir oss Islendinga, ef aðeins er
frá þessum hlutum skýrt á réttan hátt. Og nær öll þau
blöð, er ég sá vestan hafs, skýrðu furðurétt frá mála-
vöxtum.
En hver eru nú viðhorf vor sjálfra til þessara mála?
Naumast mun finnast sá íslendingur, sem hefur samúð
með framferði Breta hér við land, þótt menn ef til vill
líti misjöfnum augum á alla málavöxtu í heild. Flestir
munu gera sér fyllilega ljóst, hversu verndun fiskimið-
anna fyrir ofveiði er lífsnauðsynleg tilveru og frelsi
þjóðarinnar. Slíkt er auðskilið mál, þegar sú staðreynd
er athuguð, að yfir 90% af öllum útflutningsverðmæt-
um vorum eru fiskafurðir, og að vér erum flestum þjóð-
um fremur háðir utanríkisverzlun sakir einhæfrar fram-
leiðslu og mikilla þarfa á erlendum vamingi til upp-
byggingar og viðhalds mannvirkjum og framkvæmdum,
sem aðrar þjóðir hafa löngu lokið. Það er ófrávíkjanleg
staðreynd, að tilvera vor sem frjálsrar menningarþjóðar
hvílir fremur öðru á því, að unnt sé að tryggja sjávar-
útveginn, því að því má ekki gleyma, að peningarnir
eru afl þeirra hluta, sem gera skal.
A öðm leytinu má minnast þess, að sá hlutur, sem oss
verður skammtaður í áliti og virðingu annarra þjóða, fer
mjög eftir því, hversu vér komum fram á alþjóðavett-
vangi, og að vér höldum á málum vorum út á við, bæði
þessu og öðrum, með virðuleik og festu.
Með því að hafa þetta hugfast, þá ætti það að vera
Ijóst hverjum manni og ekki sízt þeim, sem með for-
ystu fara á einhverju sviði, að í þessu máli verður þjóðin
öll að vera einhuga og breyta eftir því. Landhelgisdeilan
við Breta er hafin yfir allt dægurþras og pólitíska tog-
streitu, og það gengur landráðum næst að gefa nokkurt
tilefni þess, að unnt sé að segja að sundurlyndi ríki á
meðal Islendinga í þessu máli, þótt einhver flokkur gæti
af pólitískum ástæðum reynt að auka sér fylgi á ein-
hverri sérstöðu. Þetta er mál allrar þjóðarinnar, og þar
liggur við sæmd hennar og tilvera að hvergi verði fundin
veila eða blettur í framkomu vor sjálfra. Einhugur í orði
og verki ásamt virðulegri, drengilegri framkomu er nú
sterkasta vopnið, sem vér eigum í þessari baráttu. Vér
vinnum ekki á með illyrðum og fruntalegri framkomu
við andstæðinginn, þótt hann ætti það skilið. En hitt
mætti hann finna, að samskipti vor við hann séu öll eftir
reglum kaldrar kurteisi, en ekkert þar fram yfir.
Þess var fyrr getið, að vér ættum samhug að mæta
víðar en oss grunar. Þann samhug verðum vér að efla
og glæða. SÍS hefur þegar riðið myndarlega á vaðið með
bréfaskriftum til viðskiptavina sinna víða um lönd. Slíkt
hið sama ætti hver og einn að reyna, sem viðskipti hef-
ur við erlendar þjóðir, og á það jafnt við um einstakl-
inga sem félög. Ríkisstjórn vor, erlendir sendimenn og
364 Heima er bezt