Heima er bezt - 01.11.1958, Síða 19

Heima er bezt - 01.11.1958, Síða 19
Fram að því gosi hefur þjóðleiðin legið yfir Arnar- stakksheiði. Talið er, að ekki hafi verið minna en 20 faðma dýpi þar sem nú er þurr sandur. Þegar slík býsn gerast sem þessi, er að vonum litið á það sem hina mestu eyðileggingu, eins og það vitanlega er. En það ber ekki allt upp á sama daginn. An efa hefur undirlendið undir Eyjafjöllum myndazt undir svipuðum kringumstæðum, þó að langt sé um liðið. Þess sjást glöggt merki, að sjór hefur þar leikið um rætur fjalla. Sama mun gerast austur þar. Einhvern tíma mun Katla þreytast á áhlaupum sín- um. Og þá taka hin græðandi öfl náttúrunnar við og hjálpa mannshendinni til að gera Mýrdalssand aftur að grónu nytjalandi, miklu stærra en nokkru sinni áður. Jafn stórfellt sköpunarverk verður ekki gert án umbrota og eyðileggingar, sem á einhverjum hlýtur að bitna. Nú skulum við líta betur á Höfðann. Það, sem að framan greinir, bendir til þess, að margar stoðir hafi runnið undir blómlegan búskap í Hjörleifs- höfða á blómaskeiði hans. Einnig hefur þar alltaf verið mikill trjáreki. Án efa hefur Höfðinn verið stórbýli áður en land hans tók að eyðast. Bærinn stóð sunnan í hæð vestan undir Höfðanum norðarlega, og lágu tún og engjar vestur og norður af honum, en beitarland óþrjótandi á sléttlendinu alla leið til Hafurseyjar. En þar var skóglendi, sem leifar eru eftir af enn þann dag í dag, þrátt fyrir illa meðferð af völdum náttúruafla og af mannanna hendi. Austur af Höfðanum mun hann hafa átt land þangað, sem Blauta- kvísl er nú, en það mun hafa eyðzt miklu fyrr, eins og áður er að vikið. Auk þess hefur alltaf verið ágætt beit- arland í Höfðanum sjálfum vetur og sumar. Það bendir margt til þess, að miklir landkostir hafi verið á þessum slóðum og aðrar nytjar, svo sem reki og fiskveiðar, áður en eyðileggingin dundi yfir. Þegar Höfðabrekka fór af 1660, var þar tvíbýli, og hafði ann- ar bóndinn tólf en hinn þrettán kýr auk sauðfénaðar og hrossa, sem hafði verið afar margt. Þegar bæinn tók af í Hjörleifshöfða 1721, voru þar sex kýr, tvö naut og tveir kálfar, og voru þó hjónin, sem þar voru, nýbyrjuð að búa. En eins og að framan er sagt um landkosti, hefur bústofninn aðallega verið sauðfé. Er því fullvíst, að þar hefur verið allstórt bú. Það má merkilegt heita, hvað Höfðinn varðist lengi ágangi Kötluhlaupanna. Hefur Hafursey efalaust átt mikinn þátt í því, þar sem svo virðist, sem öll fyrri hlaupin hafi átt upptök sín í austur- eða norðurhluta jökulsins. Hefur hún því löngum bægt þeim austur á bóginn, þegar þau skullu á henni. Það er eklti fyrr en sextíu árum eftir að Höfðabrekku tekur af, að bærinn í Hjörleifshöfða verður fyrir hlaupinu, eða árið 1721. Og er Mýrdalssandur þar með orðinn að einni evði- mörk, eins og hann er enn þann dag í dag, að undan- skildum Bólhraunum, sem voru nokkru lengur í byggð, eða til ársins 1823, en í gosi, sem þá varð, eyðilagðist land þeirrar jarðar með öllu. Verður nú nokkuð sagt frá hlaupinu 1721, sem tók af bæinn í Hjörleifshöfða eins og áður greinir. Ár 1721, þann 11. maí, kl. 9 um morguninn, kom svo mikill jarðskjálfti hér á Höfðabrekku og víða hér um Mýrdalinn, að menn þorðu ekki að vera inni í hús- um. Þessi jarðskjálfti fannst austur í Lóni og öllum sveitum þar á milli. Fannst hann og út til Rangárvalla. Þann sama dag, kl. 9 eftir miðdag, heyrðust dynkir með stórbrestum. Kom þá ógurlegur mökkur upp úr Mýrdalsjökli. Upp úr Kötlugjá kl. 2 eftir miðdag kom vatnsflóð, sem fór strax yfir allan sandinn með stórkost- legri jakaferð, allt frá Höfðabrekku til Álftavers. Líka hljóp það í Hólmsá og Leirá og gjörði strax Álftaver- inu stórskaða. Jakaferðin var svo mikil, að hvergi sást yfir á sjónum hér fram af Höfðabrekku. Sumir jakarn- ir stóðu botn á 20 faðma djúpi. Voru þeir þar fastir eftir hlaupið, svo menn gátu mælt dýpið kringum þá. Mikið af jökunum sást suður við Reykjanes og nokkuð komst upp í Olfusá. Þetta vatnsflóð varð svo mikið næstum í fjóra daga, að það fór upp undir neðstu hamra á öllu Höfðabrekku- landi nema á Núpum. Það tók burt allt graslendi um Norðursund og Glámshvamma, allar brekkur úr Sel- fjalli að norðan, sem þó voru yfir 20 faðma háar. Einnig skemmdi það Seldal. Hraðinn á hlaupinu var svo mikill, þegar það kom í sjóinn, að bárurnar gengu yfir allar fjörur í Mýrdal og undir Eyjafjöllum. Líka braut það marga hjalla í Vestmannaeyjum. Það gekk upp á land í Þorlákshöfn. Út með Víkurhömrum var svo mikið kast á vatninu, að það fyllti gilið fyrir vestan Suður- Vík, svo að Norðurbænum var varla óhætt, og spillti þar bæði túnum og engjum. Teinæring og áttæring, sem stóðu við Víkurldett, braut að mestu, og þeir menn, sem fóru að bjarga skipunum, komust í mesta lífsháska. Þann 12. fyllti það sundin milli Fagradals og Höfða- brekkuháls með svo miklu jakaflugi inn í sundin, að þau fylltust gjörsamlega, svo að áin, sem þar rennur, náði ekki framrás í tuttugu dægur. Stíflaðist allt fvrir innan, og lónið varð svo mikið, að það flóði heim allar traðirnar og allt heim að bænum í Kerlingardal. Var Hallgrímur Magnússon, sem þá bjó einn á öllum Kerl- ingardalnum, farinn að flytja búshlutina úr bænum, þegar áin náði framrás undir hrönnina á sandinum. ----í þessu hlaupi tók af bæinn í Fljörleifshöfða með mestallri eign bóndans þar. Hann var sjálfur við Höfða- brekkukirkju, en konan var ein heima. Var hún að lesa húslesturinn, þegar hlaupið flóði fram af sandinum. Smalamaður var heima. Sá hann þá til hlaupsins, er honum varð gengið út. Hann gekk inn aftur og sagði konunni, hvað um var að vera. Sinnti hún því lítið, en las sem áður. Gekk hann þá út aftur og sá, að vatnið var þá rétt komið að bænum. Fór hann þá sem snarast inn aftur, greip barnsvöggu, sem stóð við hné konunn- ar, og hljóp með hana. Hætti hún þá að lesa, en það var um seinan, því að hún náði aðeins einum smjöröskjum og einum fiski út um búrsgluggann, því að búrið stóð að sögn hærra en hin bæjarhúsin. Líka hafði hún gripið eitthvað af rúmfötum undir hönd sér, þegar hún hljóp út. Komust þau upp í helli, sem heitir Kálfaból. Höfð- ust þau þar við meðan hlaupið stóð yfir. Heima er bezt 381

x

Heima er bezt

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.