Heima er bezt - 01.12.1964, Blaðsíða 41

Heima er bezt - 01.12.1964, Blaðsíða 41
— Ertu ekki læs? spurði Hallfríður brosandi. — Jú, en ég trúi þessu bara ekki, að ég eigi hana ein! — Jú, alein, og meir að segja pelann líka, og farðu nú til Ömrnu og fáðu mjólk handa henni, því nú á ég eng- an dropa framar, hvorki handa henni né þér eða sjálfri mér. Hanna kyssti hana marga kossa og rauk svo öll tárvot út að leita að Hinrik. Hann sat inni í skemmu og tind- aði hrífu. Hanna rauk upp um hálsinn á honum, en henni var of mikið niðri fyrir til að korna upp nokkru orði, hún bara háskældi. — Ó, Hinrik minn, það er svo leiðinlegt, að þið skul- ið vera að fara, en mér þykir svo vænt um hana Hörpu! stamaði hún loksins. — Hérna, hafðu þetta þér til gamans í sumar, anginn litli, sagði Hinrik og rétti henni hrífuna. Svo tók hann upp stóra bládropótta vasaklútinn sinn og snýtti sér stóra og mikla hreppstjórasnýtu, eins og Afi kallaði það. Hinrik hafði nefnilega einu sinni verið hreppstjóri. — Ehe! sagði hann svo. — Farðu nú heim til Ömmu, heillin góð, og segðu henni að bráðum komi karlsauðurinn að sníkja sér tíu dropa hjá henni, og segðu henni að spara nú ekki kúm- enið! — Já, já, ég skal sjá um, að það verði nóg kúmen í því, sagði telpan alls hugar fegin að geta gert eitthvað fyrir gamla manninn. — — Amma, Afi. Hann Hinrik gaf mér kúmen og vill fá hrífu með miklu kaffi, hrópaði hún, þegar hún kom inn í eldhúsið í Koti. Svo fór hún að hlæja. — Nei, hann vill fá kaffi með miklu kúmeni, og hann gaf mér hrífu. — Það er naumast, að þú sért óðamála, barn, sagði amma, en nú ferð þú að koma þér í rúmið. Hanna fékk mjólk í pelann hjá ömmu og fór út að gefa litla lambinu sínu. Það var nú ekki erfitt, en það var erfiðara að finna góðan stað fyrir það að sofa í. En þá komu Hallfríður og Hinrik ofan frá Fellsenda, svo hún mátti til að hlaupa á móti þeim og leiða þau inn í bæinn. Hallfríður hélt á bláum kistli undir hendinni. í aug- um Hönnu Maríu var þessi kistill fullur af undrum og ævintýrum, jafnvel gulli og gersemum. Stöku sinnum hafði Hallfríður lofað henni að sjá það, sem í honum var. Nú var hún með kistilinn með sér, myndi hún biðja ömmu að geyma hann fyrir sig, eða ætlaði hún að gefa ömmu hann eða henni sjálfri? Hanna þorði varla að hugsa þessa hugsun til enda, hún eldroðnaði og varð vandræðaleg. Þegar inn kom, fékk Hinrik henni gömlu bókina Þús- und og eina nótt og sagði, að hún gæti dundað við hana á kvöldin, þegar veturinn kæmi. Hanna gleymdi öllu í kringum sig, hún settist upp í horn í rúminu sínu og fór að lesa bókina, kannski ekki í þúsundasta og fyrsta sinn, en þá að minnsta kosti í hundraðasta. Gömlu hjónin röbbuðu saman yfir kaffinu, en Hanna sá hvorki né heyrði. Hún tók ekki einu sinni eftir, þegar þau buðu góða nótt og fóru, hún las og las og var kom- in langt inn í ævintýralöndin, þegar hún allt í einu skellti aftur bókinni og hentist fram á gólf. — Hvar á hún Harpa að sofa? kallaði hún hástöfum. Afi hrökk í kút. Hann hafði lagt sig upp í rúmið sitt og var byrjaður að draga ýsur. Nú varð hann að gera svo vel og rísa á fætur og fara með Hönnu til að útbúa ból handa lambinu. — Nú dugir engin leti, nú er mikið að gera, sagði Hanna hróðug og dró afa sinn út í skemmu. Þau fundu engan kassa, sem Hönnu líkaði, en að lokum kom afi með gamalt mjólkurtrog og sagði, að það væri tilvalið í lítið lambaból. Hanna sótti hreinan poka og lét í botn- inn á troginu, svo sótti hún Hörpu, sem ekki kunni að meta, hve mikið var fyrir henni haft og var með mestu óþægð. Hún vildi alls elcki vera góða lambið og fara að lulla, hvernig sem Eíanna lét hana í trogið, hún bara spratt strax á fætur og vildi fara að ólmast við Neró, sem lá fram á lappir sínar og fylgdist með af áhuga. Afi labbaði sig inn í bæ og bauð góða nótt, um leið og hann fór út úr dyrunum. Hann sagðist ekki sjá ann- að, en Hanna yrði að sofa þarna í skemmunni líka! Nú varð Hanna María reið. Hvern skollann gat lamb- ið fundið að því að sofa í þessu fína trogi. Neró horfði öfundaraugum á Hörpu. Aldrei hafði verið haft svona mikið við hann, það þótti alveg sjálf- sagt, að hann fyndi sér stað til að sofa á sjálfur. Hann stóð upp og geispaði, lambskömmin mátti víst eiga sig með alla sína óþægð. Nú tók Hanna það til bragðs að leggja lambið rétt einu sinni enn niður í trogið og setja svo hlemm yfir, og þar ofan á settist hún sjálf. — Svona, nú skulum við sjá, hver verður að láta und- an, tautaði hún og hreyfði sig hvergi, hvernig sem lamb- ið jarmaði og brauzt um. Það gat ekki staðið upp, en að öðru leyti fór ágætlega um það. — Me—me—e—e, nöldraði lambið, — ég vil ekki sofa hér, ég vil ekki sofa hér, heyrirðu það, Hanna María! — En Hanna lét sem hún heyrði ekki kveinstafi þess, hún varð þó að ala lambið upp, of mikið eftirlæti var ekki hollt, það sagði amma. Því sat hún nú þarna á lokinu og hóf upp raust sína. Fyrst söng hún allar þær vísur, sem hún kunni um lömb og kindur, síðan um hesta og hunda, og að lokum allt, sem í hug hennar kom, vers og veraldleg Ijóð jöfnum höndum. Loks varð söngurinn lægri, og að lokum dó hann út í smá muldri, og þegar afi kom út nokkru seinna, stein- svaf litla telpan á stóra keraldshlemmnum, en niðri í troginu lá lítil snjóhvít gimbur glaðvakandi og beið þess eins að sleppa úr þessari myrkra-prísund. Afi tók telpuna í fangið, ýtti hlemmnum til hliðar, svo lambið var frjálst, bauð Neró góða nótt og bar Hönnu Maríu inn í rúmið sitt, þar sem amma afklæddi hana og þvoði, án þess að hún rumskaði. (Framhald.) Heima er bezt 469

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.