Heima er bezt - 01.12.1964, Side 42
HEIMA_____________
BEZT BÓKAHILLAN
Dr. Valtýr segir frá. Reykjavík 1964. Bókfellsútgáfan.
Hér birtist 5. bindið af íslenzkum sendibréfum, sem Finnur Sig-
mundsson gefur út, og eru það bréf dr. Valtýs Guðmundssonar til
móður hans og stjúpa. Bréfin ná yfir nær 50 ára skeið, eða frá því
hann er að hefja skólagöngu og þar til fyrir andlát hans 1927. Þótt
þetta séu fjölskyldubréf, þá fjalla þau þó að miklum meiri hluta
um almenn mál og viðhorf bréfritarans til þeirra. Mynd höfundar
verður furðu skýr af bréfum þessum, því að hann kemur þar til
dyranna eins og hann er klæddur. Lesandinn kynnist bjartsýni
hans og stórhug, en þó umfram allt hinum brennandi áhuga hans
að verða ættjörð sinni að gagni. Ég efast um, að vér kynnumst
mörgum mönnum, sem gæddir eru einlægari ættjarðarást en þeirri,
sem fram kemur í bréfum dr. Valtýs, og það eru meira en orðin
tóm, hann er vakinn og sofinn að leggja fram gáfur sínar og krafta,
til þess að koma hugsjónum sínum fram. Og hann á samtímis þann
metnað, að ætla sér sjálfur umsjón framkvæmdanna. Hann hófst til
manndóms og mennta af eigin ramleik, og treysti vissulega sér bet-
ur en öðrum mönnum til afreka fyrir land sitt og þjóð. Vafalítið
hefur dr. Valtýr missýnst um ýmsa hluti, en meira er þó vert um
framsýni hans og skarpskyggni. Hitt er og jafnvíst, að enginn ís-
lendingur fyrr né síðar hefur verið misskilinn jafn hrapallega eða
níddur og rægður á svívirðilegri hátt, og það liggur við, að enn sé
svo gert, þótt hann hafi legið áratugi í gröfinni. Bréfasafn þetta
ætti að leiða menn til réttari skilnings og sanngjarnara mats á
starfi og persónu dr. Valtýs, og tími er kominn til, að mönnum
skiljist að hann var einn af fremstu brautryðjendunum til sjálf-
stæðis vors í byrjun þessarar aldar. Forlag og útgefandi eiga þakkir
skildar fyrir þessa bók, sem vonandi verður upphaf nýrrar sagna-
ritunar um sjálfstæðisbaráttu vora.
Hannes Pétursson: Steingrímur Thorsteinsson. Reykja-
vík 1964. Menningarsjóður.
Það er ekki vonum fyrr, að rituð sé bók um Steingrím skáld
Thorsteinsson. Um áratuga skeið var hann eitt vinsælasta ijóðskáld
þjóðarinnar og mótaði vissulega ljóðsmekk hennar. Kvæði hans
voru sungin um land allt og stökur hans og spakmæli lifðu á vör-
um þjóðarinnar, jafnframt því sem hann auðgaði íslenzkar bók-
menntir að þýðingum, sem seint munu gleymast, svo sem Þúsund
og ein nótt, og ævintýri Andersens. En nú hefur fyrnzt yfir minn-
ingu skáldsins. Bók þessi ýtir að vfsu við mönnum, en engu að síð-
ur mun mikill hluti ljóða hans gleymast öðrum en bókmennta-
fræðingum, en nokkrar eru þær perlur í ljóðagerð Steingríms, sem
ódauðlegar eru, og þjóðin má ekki glata án þess að bíða tjón á sálu
sinni. í bók þessari rekur Hannes Pétursson ævi skáldsins og gerir
grein fyrir skáldskap hans, þróun og umhverfi. Er verkið unnið af
alúð og skilningi og má vera til fyrirmyndar um góð vinnubrögð.
Fróðleikur er mikill í bókinni, dómar hófsamlegir og efnið borið
fram á lystilegan hátt. Sums staðar virðist mér þó höf. gera hlut
Steingríms fullmikinn, og einkum þó er kemur til skáldskapar
hans. Og ekki felli ég mig alls kostar við ályktanir hans um við-
skipti Steingríms og Matthíasar. Matthías skýrir sjálfur frá vinsiit-
um þeirra, og er allsendis ósennilegt, að fjármálaóreiða frá hans
hendi hafi átt þar á nokkra sök, þótt Steingrímur virðist hafa trú-
að að svo væri. Mikill fengur er að bók þessari, og hefði hún eða
önnur slík átt að vera löngu út komin. Vandað er til bókarinnar
að ytri gerð. En ekki fellur sú fyrirhöfn í minn smekk. Brotið er
leiðinlegt, og þarflaust að hafa það svona, þá mættu og myndir
vera betur prentaðar.
Snæbjöm Jónsson: Misvindi. Reykjavík 1964. ísafoldar-
prentsmiðja h.f.
Greinar Snæbjarnar Jónssonar eru ætíð hressandi lestur. Hann
er svo hreinskilinn og hispurslaus í aðfinnslum sínum að því, sem
honum þykir miður fara og í að hrósa því, sem honum þykir lofs-
vert. Þótt menn séu honum ósammála, finna þeir hinn hressandi
gust af máii hans. Fyrri hluti bókar þessarar eru ritgerðir um ýmis
efni, margt þeirra harðar ádeilur, en allar læsilegar og sumar stór-
góðar. Beztar þykja mér þó Undur dulheima og íslenzk blaða-
mennzka. Hin fyrri þeirra fjallar um efni sem enginn getur látið
afskiptalaust og ræðir það af hófsemd og meiri skilningi en vér
eigum að venjast. Þá grein eiga menn að lesa og lesa oft. Síðari
hluti bókarinnar eru greinar um ýmsa menn, sem höfundur hefur
minnzt látinna og lifandi. Hafa þær margt til síns ágætis en þó
fremur öðru þá óvanalegu hlýju og ræktarsemi, sem þar lýsir af
hverri blaðsíðu. Beztar þeirra þykja mér greinarnar um þá ísa-
foldarfeðga, Björn og Ólaf, enda þótt greinin um dr. Jón Stefáns-
son sé ef til vill snjallasta mannlýsingin. Um Sn. J. hafa oft verið
skiptar skoðanir. En hvað sem þeim líður, er þessi bók ein þeirra,
sem menn lesa sér til ávinnings. Frágangurinn, brot og letur er
fallegt og mætti vera öðrum til fyrirmyndar.
fslenzkar ljósmæður, III. Akureyri 1964. Kvöldvöku-
útgáfan.
Með þessu bindi lýkur ljósmæðraþáttum þeim, sem Sveinn Vík-
ingur hefur búið til prentunar fyrir Kvöldvökuútgáfuna. Það
flytur 33 þætti, og er þá þáttatalan öll um 100. Þetta bindi er um
flest líkt hinum fyrri, nema öllu meira er þar af minningum ljós-
mæðranna sjálfra, og er það vissulega til bóta, því að við það verð-
ur fjölbreytnin meiri og meiri persónublær á þáttunum. Annars
verður ekki sagt, að nokkrir þáttanna skeri sig sérstaklega úr sem
frásögn eða mannlýsing. En þeir eru aliir læsilegir, og sem heild
gefur ritið góða mynd af einum þætti í baráttusögu þjóðarinnar
fyrir daglegu lífi. Þættirnir eru fagur vitnisburður um fórnfúst
starf, sem unnið er til líknar og nytsemdar, án þess að spyrja um
laun, og auk þess bregða þeir upp myndum úr þjóðiífinu, sem
virðast svo óendanlega fjarlægar oss nú en eru af atburðum og
umhverfi, sem samtímamenn muna enn. Þetta allt skapar ritsafn-
inu virðulegan sess meðal þeirra bóka, sem fjalla um íslenzkt þjóð-
líf og persónusögu, þótt ekki sé þar flogið á vængjum skáldlegs
hugarflugs.
470 Heima er bezt