Heima er bezt - 01.01.1965, Side 35

Heima er bezt - 01.01.1965, Side 35
fætur og býður föður sínum góða nótt. Síðan gengur hann hljóðlega frant úr svefnherbergi hans, en Þorgrím- ur hagræðir sér á koddanum og varpar öndinni létt í djúpum friði. XV Birtir í lofti Sumarkvöldið færist hljóðlega yfir. Svanhildur situr enn í hvamminum Iitla og hugleiðir síðustu samræðurn- ar við Þorgrím. Hún trúir því naumast, enn, að hennar fullkomna frelsi sé raunveruleiki, sú yfirlýsing Þorgríms kom svo fyrirvaralaust og óvænt. En hún er þess full- viss, að hann var með réttu ráði og talaði við hana í hreinni alvöru. Hvað hefir komið fyrir manninn, sem valdið hefir slíkri gerbreytingu á honum? Hvað hefir getað orsakað þvílík straumhvörf í fyrirætlunum hans? Liggur ekki við, að það hljóti að vera eitthvað nærri því yfirnáttúrlegt? Eða . . . hjartað tekur snöggan kipp í barmi Svanhildar. Skyldi sonur hans standa þar að baki, að einhverju leyti . . . ? Þessi hugsun gagntekur Svanhildi alveg ósjálfrátt. En hvað gæti Trausta hafa gengið til þess að vilja frelsa hana frá giftingarheitinu við föður hans? Fannst hon- um hún kannski ekki vera nógu hæf til þess að skipa húsfreyjusætið á Fremra-Núpi? Eða hafði hann svo ríka samúð með æsku hennar, að hann vilji frelsa hana frá því að giftast svo gömlum manni sem faðir hans er? Frá því hún fyrst kynntist Trausta, hefir henni fund- ist öll framkoma hans bera vitni um drengskap og sið- fágun, sem vakið hefir hjá henni aðdáun og virðingu fyrir honum. Og skýr endurminning frá heimkomu Trausta síðastliðið vor streymir nú ljóslifandi fram í vitund bústýrunnar ungu og hrífur hana á vald sitt. Fyrir hugarsjónum sínum sér hún ókunnan ferða- mann með bakpoka spenntan um axlir koma rösklega gangandi heim að Fremra-Núpi. Hann knýr dyra, og það verður hennar hlutskipti að taka á móti honum. Hún sér hann skýrt í endurminningunni, þar sem hann stendur á hlaðinu, ungur og glæsilegur í björtu skini vorsólarinnar, og heilsar henni í fyrsta sinni. En hann reyndist ekki vera neinn sölumaður, heldur einkasonur húsbóndans, Þorgríms hreppstjóra. Og með honum kemur framandi blær, nýr lífsstraumur inn á heimilið. Hann verður þegar í vitund hennar eins og kóngssonur í fallegu ævintýri, er kemur heirn í ríki föður síns eftir að hafa aflað sér fjár og frama í ókunnu landi, albúinn að taka við ríki og völdum. En sjálf verður hún í því ævintýri umkomulaus stúlka í álögum, sem beðið hefir eftir konungssyninum til að leysa hana úr álagafjötr- unum. Og í fallega ævintýrinu frelsar konungssonur- inn góði og glæsilegi að lokum umkomulausu stúlkuna úr álögunum og gerir hana síðan að drottningu sinni í ríkinu, sem hann tekur að erfðum af föður sínum. En slíkt og þvílíkt gerist aðeins í fallegum ævintýrum á landi óraunveruleikans. Þessháttar getur ekki gerzt raunverulega á sveitabæ heima á Islandi. Og Svanhildur getur ekki varist örlitlu dapurlegu brosi yfir þessu ævin- týralega hugmyndaflugi sínu. Og hún er fyrir löngu hætt að lesa slík ævintýri . . . Sól er hnigin að viði, og kvöldið er kyrrt og hljótt. En Svanhildur veitir umhverfi sínu litla athygli. Nýjar og nýjar hugsanir streyma stöðugt fram í vitund henn- ar og fylla hugann. — Hvað skyldu foreldrar hennar segja, þegar þeim verður ljóst, að Þorgrímur hefir al- gerlega hætt við að kvænast henni? Það verður þeim sennilega nokkuð sár vonbrigði, þar sem þau sóttu það mál svo fast við hana að giftast honum. En Svanhildur finnur enga sök hjá sér á því, að svona hefir farið. Hún var ákveðin í því að fórna sér algerlega fyrir þau, hvað sem það kostaði hana, og meira gat hún ekki látið í té. En það var Þorgrímur sjálfur, sem batt svo óvænt enda á hjúskaparsamning þeirra. Svanhildur telur nú saman vikurnar, sem hún hefir lofað Þorgrími að vera bústýra hjá honum, og henni finnst það ekki vera ýkja langur tími, sem hún á eftir að vera á Fremra-Núpi. En hvað verður svo um fram- tíð hennar, það er mikilvægasta spurningin, og jafn- framt sú viðkvæmasta. En Svanhildur fær ekki ráðrúm til þess að hugleiða það málefni frekar, því rösklegt fótatak berst skyndilega að eyrum hennar, og maður gengur í hvamminn, þangað sem hún situr. Hún lítur snöggt á komumann, og nafn hans sprettur ósjálfrátt af vörum hennar: Trausti! Trausti nemur staðar hjá henni og segir kurteislega: — Fyrirgefðu, Svanhildur! Geri ég þér ónæði með komu minni hingað? — Nei, þú gerir mér ekkert ónæði, ég er á förum héðan úr hvamminum. Hún ætlar þegar að rísa á fætur, en Trausti lítur á hana og segir hlýtt, en þó festulega: — Má ég tefja þig örlítið, Svanhildur? Mig Iangar til að mega ræða dálítið við þig núna, einmitt á þessum stað, fyrst ég var svo heppinn að fylgjast með ferðum þínum hingað í kvöld. Eða ertu kannski mjög tíma- bundin? — Nei, ekki svo mjög. Hún situr kyrr, og hann setzt við hliðina á henni. Nokkur andartök ríkir djúp þögn, en síðan segir Trausti þýtt og alvarlega: — Ég var að koma frá því að ræða við föður minn um mikilsvarðandi málefni, sem snertir okkur bæði, Svanhildur. Hefir þú ekki einnig talað við hann í kvöld? — Jú. , — Og hann segist hafa gefið þér fullt frelsi frá gift- ingarloforði þínu við hann. — Já, hann gerði það í kvöld. En mér finnst ég enga sök eiga á því, að svona fór, ég ætlaði ekki að bregðast því loforði mínu. — Nei, þú ætlaðir algerlega að fórna þér og framtíð þinni fyrir aðra. — Það hafa víst margir orðið að gera fyrr og síðar. Heima er bezt 31

x

Heima er bezt

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.