Heima er bezt - 01.01.1965, Qupperneq 46
því, sem vel er gert í bók þessari, sem vissulega á eftir að verða
klassiskt verk í íslenzkri ævisagnaritun.
Páll V. G. Kolka: Úr myndabók læknis. Reykjavík 1964.
Setiærg.
Löngu er það kunnugt, að Páll Kolka er meðal ritfærustu manna
þjóðarinnar. Og á fáa betur hlustað, þegar hann hefur upp raust
sína í útvarpi, eða skrifar greinar í blöð og tímarit. í bók þessa
hefir hann safnað ýmsum greinum, minningaþáttum, útvarpser-
indum, blaðagreinum, ræðum og nokkrum ljóðum. Flest hefir ver-
ið prentað áður, en hefir drukknað eins og fleira í haugum dag-
blaðanna. Víða er komið við, og efnið fjölþætt, og alls staðar er
höfundur ómyrkur í máli, og vís til að skapa sér andstæðinga, en
alltaf vekjandi til hugsunar um menn og málefni. Hin skarpa
hugsun höfundar og hispurslausa hreinskilni gerir greinarnar sér-
staklega ánægjulegan lestur, og þó einkum það, að hann hefir
alltaf eitthvað jákvætt að segja. Þessvegna eru jafnvel ýmsar smá-
greinar hans eða ræðustúfar, sem í upphafi var gert fyrir atvik
líðandi stundar, merkilegar og verðar geymslu. Endurminninga-
kaflarnir bregða upp merkilegum menningarsögulegum myndum,
þættir hans um einstaka menn hlýlegir og glöggar mannlýsingar.
Það er trúa mín, að þessar myndir úr reynslubók Páls Kolka
verði býsna langlxfar og því betur metnar, sem lengra líður, en
slíkt er einkenni góðra bóka.
Bemharð Stefánsson: Endurminningar, siðara bindi.
Akureyri og Reykjavík 1964. Kvöldvökuútgáfan.
Margir hafa beðið með nokkurri eftirvæntingu eftir síðara bindi
af endurminningum Bernharðs, og nú er það komið á markaðinn.
En þótt margt sé vel um það eins og hið fyrra, er það samt ekki
jafnoki þess. Smáatriðin taka of mikið rúm, og þegar sagt er frá
hinum stærri aburðum finnst lesandanum að eitthvað vanti i
frásögnina, enda þótt höfundur segi hvaxrvetna frá af hreinskilni
og hispursleysi. Hin góðlátlega kfmni er minni en áður, og sums
staðar verður vart nokkurrar beiskju, sem stingur lesandann. En
allt um þetta er bókin læsileg, og hún lýsir vel höfundi sínum,
hinum gætna og góðviljaða drengskaparmanni, sem samferðamenn
hans þekkja bezt.
Friðrik Wislöff: Heillar mig Spánn. Reykjavík 1964.
Leiftur h.f.
Þetta er ferðasaga frá Spáni, en inn í hana vefur höfundur þátt-
um úr sögu Spánar á liðnum öldum. Margt hefir höfundur séð
og lýsir því skýrt og skilmerkilega, svo sem nautaatinu, sem er
spennandi lýsing. Verður lesandinn drjúgum fróðari um Spán og
Spánverja að loknum lestri. Sagnfræðikaflamir eru hinir fróðleg-
ustu, og þar minnst á ýmsa hluti, sem annars liggja i láginni í
sagnfræðiritum. Nokkrar myndir prýða bókina. Þýðandi er Bene-
dikt Amkellsson.
Pandelis Prevelakis: Sól dauðans. Reykjavík 1964. fsa-
foldarprentsmiðja h.f.
Þetta er nýgrísk skáldsaga, og er höfundur hennar talinn einn
af fremstu nútímahöfundum Grikkja, en þýðandinn er Sigurður
A. Magnússon, og þýðir hann söguna beint úr frummálinu, og er
það oss nokkur nýjung. Enda þótt sagan lýsi fólki, sem býr langt
frá oss og er oss fjarlægt í hugsuaarhætti og þjóðfélagshættir allir
harla ólíkir því, sem við þekkjum til, þá er sagan girnileg til fróð-
leiks, vegna þess að vér kynnumst þar fólkinu bæði á ytra og
innra borði, ef svo mætti að orði kveða. Leitast er við að skilja og
skýra sálarlíf þess og viðbrögð. Auk þessa flytur bókin boðskap
friðar og mannúðar, þótt hún sé blóði drifin, sakir illra örlaga
og aldagamalla venja.
Sigurður Herlufsen: Dáleiðsla, huglækningar, segul-
lækningar. Reykjavík 1964. ísafoldarprentsmiðja h.f.
Lítil bók um nýstárlegt og íhugunarvert efni, sem fátt hefir
verið skrifað um áður á íslenzku. Víst er þó, bæði af hérlendri
reynslu og annars staðar að, að lækningar gerast og hafa gerzt,
bæði við dáleiðslu og eftir öðrum andlegum leiðum. í því efni
þýðir ekki að berja höfði við steininn og kalla slíkt hjátrú og
hindurvitni, enda þótt þessar lækningar séu ekki almáttugar frem-
ur en aðrir læknisdómar. Höfundur ritar bók sína í því skyni að
vega á móti fordómum og gefa mönnum nokkra innsýn í, hvers
eðlis andlegar lækningar eru og hvers má af þeim vænta. Flytur
bókin margt fróðlegt í því efni, þótt maður hefði kosið að vita
meira og að dýpra væri kafað. Sums staðar virðist sem höfundur
naumast hafi fullt vald á efninu, til þess að ná þeim tilgangi, sem
hann ætlast til. Málið á bókinni hefði mátt vera betra. Engu að
síður er bókin forvitnileg, og á það skilið að vera lesin og tekin
til íhugunar.
'st. Std.
Feðgarnir á Fremra-Núpi
Framhald af bls. 32. ——--------------------------
grímur er gerbreyttur maður, nýsköpun í því sem rétt-
látt er. Og ekkert gleður gamla prestinn meira en að
finna slíka grósku í sálum sóknarbarna sinna.
Áður en séra Jón kveður Þorgrím, segir hann með
hlýrri alvöru:
— Þessi ferð mín að Fremra-Núpi í kvöld er einhver
sú ánægjuríkasta, sem ég hef farið á löngum embættis-
ferli mínum.
Þorgrímur brosir mildilega. — Sjálfur hef ég aldrei
lifað ánægjulegra kvöld en að þessu sinni, séra Jón.
— Og þannig mun framtíð þín verða, hliðstæð því,
Þorgrímur minn. Og vertu nú blessaður og sæll!
— Vertu sæll, séra Jón, og þakka þér fyrir komuna
að Fremra-Núpi í kvöld.
Síðan stígur prestur á bak reiðhesti sínum og ríður
greitt af stað heim á leið. En Þorgrímur gengur upp í
Núpinn fyrir ofan bæ sinn og dvelur þar um stund í
kvöldkyrrðinni.
Úr Núpnum sér Þorgrímur vítt yfir óðal sitt, og
aldrei hefur það borið tignari svip en einmitt nú í aug-
um hans. Vorið breiðir gróskuríka fegurð lífsins yfir
allt, eins langt og auga eygir. En það er einnig gróska
í sál gamla mannsins. Hugur hans eygir nú í bjartri
framtíð lítinn Þorgrím Traustason, sem hann leiðir við
hönd sér heima á Fremra-Núpi og veitir afa sínum
barnslega gleði í ellinni. Og Þorgrímur brosir glaður
við hlýjum geislum kvöldsólarinnar.
ENDIR.
42 Heima er bezt