Heima er bezt - 01.11.1970, Page 34

Heima er bezt - 01.11.1970, Page 34
Rósa Þorsteinsdóttir: Hulinn harmur. Rvík 1970. Örn og Örlygur. Enn bætist nýr höfundur í hóp íslenzkra skáldkvenna, og er líkleg til að vinna vinsældir lesenda. Sagan Hulinn harmur er sveitasaga, sem gerist um síðustu aldamót, og er umhverfið skaft- fellskt, enda er höfundur ættuð þaðan. Ekki verður sagt, að um stórviðburði sé að ræða í sögunni, hörð átök eða djúpt kafað í mannleg örlög. En höfundur gjörþekkir sögusvið sitt, og þau at- vik, er fyrir kunna að koma í daglegu og fábreyttu lífi sveita- fólksins fyrr á öldinni og kannske enn. Mikill þáttur sögunnar er ástamál, þar sem annars vegar er ríkur stórbóndi en hins vegar umkomulítil unglingsstúlka, dóttir kotbónda, rétt komin af barns- aldri. En þótt óvænlega horfi um skeið, verður sigurinn þó hennar megin. Frásögnin er lipur og létt, laus við óþarfar málalengingar og smekkleysur. Höfundur hefur gott tungutak og kann vel með íslenzkt alþýðumál að fara og á býsnamikinn orðaforða. Ýmsar góðar þjóðlífslýsingar eru í bókinni, og höfundur kann vel að fara með viðkvæm málefni á hispurslausan hátt. William Heinesen: Vonin blið. Rvík 1970. Helgafell. Það vakti athygli, er færeyski rithöfundurinn William Heine- sen hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir nokkru, en gagnrýni sætti þá, að hann skyldi ekki njóta þeirra einn, en þeim var skipt milli hans og sænsks rithöfundar. Engan, sem lesið hefir þessa bók, mun furða á þeirri gagnrýni. Vonin blíð gerist í Fær- eyjum á 17. öld, þegar stjórnarfar þar var hið versta, og þjóðin kreppt og kúguð af gjörspilltu, erlendu embættismannavaldi og hneppt í fjötra fáfræði og hjátrúar. Atburðarás sögunnar er stór- brotin, þótt lesandanum hljóti að blöskra margt, sem gerist, og furða sig á mannvonzkunni annars vegar og vesaldómnum hins vegar. Persónur sögunnar margslungnar og margar þeirra stórar í sniðum, í illu eða góðu. Þótt mjög beri á dökku hliðunum, er margt þar skemmtilegt, en hæst af öllum rís sögumaðurinn, Peder Börresen, prestur, breyzkur og gallaður, og veikur sem reyr í aðra röndina, en stórbrotinn og þrekmikill þegar mest reynir á. Þótt sagan sé nokkuð langdregin á stundum, munu fáir sleppa henni fyrr en henni er lokið. Þýðendur eru Magnús Jochumsson og Elías Mar, og hefir þeim vel tekizt að láta málblæinn falla að efni og tíma sögunnar. Lawrence E. Lamb: Hjartað og gæzla þess. Rvík 1970. Almenna bókafélagið. Hjartasjúkdómar, einkum kransæðakvillar og æðakölkun, eru alvarlegt viðfangsefni í flestum menningarlöndum, og það svo, að t. d. í Bandaríkjunum deyja fleiri af völdum þessara sjúkdóma •en öllum öðrum dánarorsokum samanlagt. Og einnig hér á landi er sagt, að 44% dánarorsaka megi rekja til æðakölkunar. Það er því sízt að undra, þótt læknar leitizt við að finna ráð og kenna fólki þau, gegn þessum vágesti, sem unnt virðist að verjast, en torvelt að lækna, þegar hann hefir komið sér fyrir. Bók þessi ijallar, eins og nafnið bendir til, um hjartað sjálft og hversu þess skuli gætt. Erú þar á öðru leitinu greinargóðar lýsingar á gerð hjartans og blóðkerfisins og allri starfsemi þess, en hins vegar frá því skýrt, hversu kölkunin hagar sér, og það sem menn telja sig vita um orsakir kölkunarinnar og hvernig megi verjast henni. Það er vitanlega á færi læknisfróðra manna einna að dæma um rétt- mæti þeirra kenninga, sem hér eru settar fram, en allt er efni bók- arinnar athyglisvert og þörf áminning til hvers og eins að gefa gaum hinni aðsteðjandi hættu og láta ekki skeika að sköpuðu en verjast eftir megni. Að vísu eru öll þessi fræði miðuð við að- stæður í Bandaríkjunum, og óvíst að alls staðar eigi hið sama við, þar sem um ólíka lífshætti og umhverfi er að ræða, og um ýmsar kenningar hennar mun deilt. En það sem mestu máli skiptir er, að hér er um að ræða alvöruorð, sem vert er að hlýða á, og viðvaranir þær, sem hér eru fram settar, geta áreiðanlega losað marga undan þjáningum og dauða fyrir aldur fram. Framsetning öll er skýr og auðskilin á góðu máli. Þýðandi er Þorsteinn Þor- steinsson. Halldór Laxness: Innansveitarkronika. Rvík 1970. Helga- fell. Hér hefir Nóbelsskáldið snúið sér beint til sveitar sinnar og segir af sinni alkunnu fyndni og stílleikni frá atburðum og átök- um, sem urðu annars vegar þegar kirkja var flutt frá Mosfelli og síðan endurreist nú fyrir nokkru. Er vafasamt, hvort hann hefir nokkru sinni farið meira á kostum máls og stíls, og það einkum vegna jress, að hér er ekki verið að leita uppi afkáraleg orð eða setningar, sumt af erlendum toga, eins og í Kristnihaldinu, held- ur er það mál Mosfellinganna hafið upp í æðra veldi í penna skáldsins. Ekki mun þó bók þessi auka miklu við skáldfrægð Lax- ness, en skemmtilestur er hún góður, og ýmsar persónur hennar sérstæðar og festast í minni, svo sem Olafur á Hrísbrú og hin karlæga kona hans, eða Guðrún Jónsdóttir og hin óskiljanlega villa hennar. E. J. Stardal: fslandssaga. Rvík 1970. ísafoldarprent- smiðja. Lengi hefir söguþjóðina skort handhæga kennslubók í sögu sinni. Nokkrar hafa að vísu verið skrifaðar og notaðar jafnvel áratugum saman, en þeim, sem kennt hafa, hefir borið saman um, að þeim væri öllum meira eða minna ábótavant. Ekki býst ég þó við, að þessi bók leysi allan þann vanda, enda hótt höfundur fari að ýmsu leyti nýjar leiðir. Þannig skipar hagsaga þjóðarinnar meira rúm en í hinum eldri ágripum og er slíkt mjög til bóta, en persónusaga hefir rýrnað að sama skapi. Mun það að vísu nokkuð orka tvímælis, hvort ekki sé full þörf að halda á loft sögu og sérkennum ágætismanna þjóðarinnar fyrr og síðar. Hygg ég a. m. k. að fátt sé betur fallið til að að skapa áhuga á sögu lands- ins meðal unglinga og vekja hjá þeim heilbrigða ættjarðarást og þjóðarmetnaö. Viða er farið hratt yfir sögu sem vænta má og virðist nokkuð handahófskennt, hvað höfundur tekur með og hverju hann sleppir. Nokkrar minni háttar villur hefi ég rekizt á við hraðan lestur, og dómar höfundar um menn og málefni geta orkað tvímælis. En reynslan ein fær skorið úr um, hvort þessi kennslubók fái leyst hinar eldri af hólmi. En gaman hefði ég haft af að kenna hana einn vetur. St. Std. 418 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.