Heima er bezt - 01.12.1972, Blaðsíða 12
var það meint, að ekki skipti lengur máli um hann.
Margir þeirra, er þá töluðu þannig, eru nú vitanlega
stignir yfir sama þröskuldinn sem hann, en ég efa, að
hinir, sem enn eru eftir, mundu nú dirfast að endurtaka
orð sín. Og er nokkurt það kvæði í Hvömmum, sem
við nú vildum út þaðan fyrir þessa sök? Því trúi ég
ekki. En úr því að ég minntist á Einar, skal ég bæta
því við, að líklega er Árni Eylands í sumum kvæðum
sínum skyldastur honum af öllum okkar skáldum, en
þó aldrei torskilinn, eins og Einar er svo oft. Skáldjöfur
þessi hafði ástríðufulla ást á ættjörðinni. Og enginn sá,
er les ljóðabækur Árna Eylands, getur rekið sjálfan sig
úr vitni um það, að honum er í þessu á sama hátt farið.
En nú skulum við snöggvast líta á nokkur kvæði
Árna, og þá fyrst einhver þeirra, er beinlínis snúast um
ættjörðina og þjóðina, með þeim verkefnum, sem knýja
á til þess að efla menningu hennar og velfarnað. Mörg
slík kvæði yrkir hann þegar á námsárum sínum í Noregi.
Þau sýna ljóst hve átthagaböndin eru sterk og hve brenn-
andi löngun hann hefir þegar á æskuskeiði haft til þess
að verða að liði. Eðlilega eru það æskustöðvarnar, sem
alla tíð hafa togað hann fastast til sín, og þráfaldlega
hlýtur hann að hafa tekið undir með Símoni: „Ó, hve
fagurt er að sjá ofan í Skagafjörðinn,“ þegar hann kom
úr fjarlægð og sá heimabyggðina breiðast út fyrir aug-
um sér. Enn er langt til heimferðar frá Noregi er hann
kveður þannig á Þorláksmessu:
Vötn og haga vefur mjöll,
vindar naga börðin,
hugann draga Huldu-fjöll
heim í Skagafjörðinn.
í kvæði, sem hann yrkir ári síðar, kemst hann þannig
að orði:
Nú vil ég heim þegar vorar
og vellirnir grænka á ný,
og lömbin í högum sér leika
og lóurnar kveða við ský.
Nú vil ég heim þegar vorar,
ég veit, að mín bíða þar
örendar æskuvonir
og andskotans þúfurnar.
Vitanlega skildi hann það rétt, að margar mundu
æskuvonirnar dæmdar til dauða. Aldrei hefir nokkur
ungur hugsjónamaður lifað það, að sjá nema lítinn
hluta vona sinna fá uppfyllingu. En þarna er það þegar
ljóst, hvað fyrir honum vakti: að rækta landið. Varla
hefir hann, þegar hann kvað þetta, órað fyrir því, hve
geysimiklu honum átti að auðnast að fá ágengt í þessu
efni, þó að margar hafi framkvæmdirnar orðið ófull-
komnari en æskilegast hefði verið, sökum þess, að hann
stjórnaði þeim ekki, heldur aðrir.
Um það bil hálfum fjórða áratugi síðar, þá þaul-
reyndur maður og búinn að sjá mörgu öðruvísi fram
farið en skyldi, er tröllatrú hans á íslenzku gróðrarmold-
inni þó enn óbuguð, og á öndverðu vori kveður hann
svo:
Nú bíður mold í mjallarhjúpi,
hún man hin liðnu vor,
hún bíður þess, að daggir drjúpi
og dauðans græði spor.
Hún bíður þess, að sólin signi
sumarblóm við lambhúsvegg,
hún bíður þess, að bráðum rigni
og brekkugróður rísi á legg.
Hún bíður þess ég fari á fætur
og fari að brýna reku og gref.
Hún að sér aldrei hæða lætur,
hún vekur mig, ef fast ég sef.
En vinni ég henni verkaglaður,
mér veitist bæði ró og trú,
þá verð ég betri og meiri maður,
moldarþengill og lífsins hjú.
Með ótal tilbreytingum heldur þetta skáld linnulaust
uppi lofsöng sínum um moldina (sem of lítið er af í
okkar hrjóstruga hraunlandi), en vitanlega aðeins fyrir
það, að hún fæðir af sér gróðurinn. En það er einmitt
hann, sem Árni vill verja lífi sínu og starfskröftum til
að kalla fram úr djúpi hennar. Það má því nærri geta,
að ekki muni hann sparari á lofsönginn um sjálfan
gróðurinn, sem honum er alla tíð ljóst, að ekki fæst nema
fyrir erfiði og dygga þjónustu. Sem dæmi um þetta
skulum við taka eitt kvæði heilt, sökum þess, að það er
svo stutt:
Nú er vor um vegu alla,
vor á ferð um norðurheim,
til mín sunna og sumar kalla
að syngja og vinna höndum tveim.
Ég er ungur, æskuglaður,
ætla að rækta land, er kól,
ég er vorsins verkamaður,
vinna skal með lífi og sól.
Mitt er landið, mín er önnin
mörg að hefja Grettistök,
láta björk, er bruddi tönnin,
breiða lim um húsaþök.
Hér skal neyta vits og vilja,
verkaþreks og trúarbrags,
til að móta, til að skilja
tíðasöng hins nýja dags.
En ekki er honum nóg að yrkja um gróður almennt
án nokkurrar skilgreiningar. Hann verður líka að yrkja
um tegundirnar. Sem dæmi þar um má nefna gullfallegt
kvæði um svo yfirlætislausa jurt sem mehnn, er halda
mun áfram að gegna ómetanlegu hlutverki í viðhaldi
og endurnýjun gróðurríkis landsins. Það kvæði hefst
þannig:
Undragrasið okkar fósturjarðar
aldrei gleymist barni Skagafjarðar,
melurinn við braut í svörtum sandi,
sönnun guðs um ást á þessu landi.
412 Heima er bezt