Heima er bezt - 01.03.1987, Qupperneq 11
Askell og Sigurbjörg horfa saman af sjónarhœð yfir lanclið.
Af söngferðum til Siglufjarðar og . . .
— Starfsemi kirkjukóranna efldist mjög, þegar Kirkju-
kórasamband Eyjafjarðarprófastsdæmis var stofnað árið
1950. Þáverandi söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar, Sigurður
Birkis, átti mestan þátt í stofnun þess. Var ég formaður
sambandsins um alllangt skeið. Það er mér minnisstætt, að
á fyrstu árum þess var efnt til söngmóts á Siglufirði.
Leigðum við þá strandferðaskipið Esju fyrir 25 þúsund
krónur og auglýstum ferðir með henni milli Akureyrar og
Siglufjarðar. En þátttaka varð ótrúlega mikil. Að sjálfsögðu
voru kirkjukórarnir margir og þeim fylgdi fjöldi fólks. Við'
lögðum af stað að morgunlagi í blæjalogni og hita og það
veður hélst alla leiðina. Sigling út Eyjafjörð á slíkum degi
verður öllum ógleymanleg. Það var hátíðlegt, þegar lagt var
að bryggju á Siglufirði. Lúðrasveit staðarins lék og bæjar-
stjórinn, Jón Kjartansson, flutti ræðu og bauð okkur vel-
komin, en kirkjukór Siglufjarðarkirkju söng. Þá svöruðu
gestirnir með söng og þakkarorðum. Þetta var vel heppnuð
og skemmtileg ferð í alla staði og það sem meira var, út-
gerðin borgaði sig, því ágóði af ferðinni var 10 til 12 þúsund
krónur og gekk sú upphæð til starfsemi sambandsins.
. . . til Svíþjóðar
— Áður en við ljúkum þessu spjalli, verðum við að staldra
við aðra ferð, sem þú tókst þátt í, en þá á ég við söngferð
Kantötukórs Akureyrar árið 1951. Að vísu hefur verið
greint lítillega frá þessari för i þætti, sem Jónas Thordarson
ritaði um Björgvin Guðmundsson í Heima er bezt í nóv-
ember s.l. —
— Jú, það hefur nú verið greint frá þeirri ferð víðar og
m.a. all ítarlega í bókinni um Jóa Konn og söngvini hans.
En tildrög ferðarinnar voru þau, að Kantötukórnum á
Akureyri var boðið að taka þátt í samnorrænni sönghátíð,
sem haldin var í Stokkhólmi dagana 12.-17. júní. Sem
kunnugt er, þá stofnaði Björgvin Guðmundsson tónskáld
þennan kór, sem lengi setti svip á tónlistarlífið hér á Akur-
eyri. Og eins og vænta mátti hafði kórinn aðallega flutt hin
miklu tónverk Björgvins. Og nú var ákveðið að flytja
Strengleika, óratoriu við ljóð Guðmundar Guðmundsson-
ar, undir stjórn tónskáldsins. í minn hlut kom að æfa og
stjórna flutningi á íslenskum sönglögum. Var þá gert ráð
fyrir að kórarnir, sem þarna kæmu fram, reyndu með sér í
söngkeppni. Lögin, sem Kantötukórinn flutti í keppninni,
voru: „Forðum tíð einn brjótur brands“, í raddsetningu
Róberts A. Ottósonar, „Keisari nokkur mætur mann“, í
raddsetningu Sigfúsar Einarssonar og „Meyjarmissir“, sem
Karl O. Runólfsson raddsetti. Þessi keppni fór fram í
Konserthúsinu við Kóngsgötu í Stokkhólmi, í sal, sem
rúmaði 2000 manns og var þéttskipaður. Þetta var einhver
mesta lífsreynsla, sem ég hefi komist í um dagana. Og satt
að segja bjóst ég alls ekki við því, að við myndum komast á
blað. Eftir sönginn sat dómnefnd lengi á rökstólum, en í
henni sátu fulltrúar frá öllum Norðurlöndum. Fyrir íslands
hönd sat Haraldur Sigurðsson píanóleikari í nefndinni. Ég
/ Slokkhólmi 1951. Áskell tekur við verðlaunum eftirsöngvakeppni
norrœnna kóra.
man, að meðan dómnefndin var að störfum, sýndi flokkur
æskufólks úr Dölunum þjóðdansa á blómum prýddu svið-
inu. Og svo komu úrslitin. IOGT kórinn í Stokkhólmi hlaut
fyrstu verðlaun og Kantötukór Akureyrar önnur verðlaun.
Þetta var ógleymanleg stund og fögnuður okkar íslendinga
var mikill. Ég hefði viljað rifja upp þessa ógleymanlegu för
um Danmörku, Svíþjóð og Noreg, en þá held ég að við
þyrftum meira rými, en tímarit getur veitt.
Mér dylst ekki, þegar ég lít yfir farinn veg, að ég á ótal
margt að þakka. Ánægjustundirnar, sem flestar eru
bundnar við tónlist, eru eins og ljómandi perlur á festi. Ég
er þakklátur fyrir samstarf við gott fólk, sem gaman hefði
verið að telja hér upp. En helst ber mér að þakka það lán,
að hafa eignast góðan lífsförunaut og að okkur skyldi
auðnast að sjá hóp barna vaxa og dafna.
Heima er bezt 83