Heima er bezt - 01.03.1987, Síða 29
Þegar hér var komið, var leitað til hreppsnefndar um
framfærslu til handa stúlkunni og barni hennar. Eftir tals-
vert vafstur og rekagátt fór svo, að hún var dæmd til
heimilis hjá bónda einum vel bjargálna, en heldur þótti
hann vínhneigður og svolafenginn í orðum á vegum
Bakkusar.
Bóndi kom sjálfur að sækja þetta tildæmda fólk sitt og
var þá dálítið ör af víni. Verð ég aldrei svo gamall, að ég
gleymi orðum, sem hann viðhafði þarna í baðstofunni að
stúlkunni áheyrandi, rétt þegar þau voru að leggja af stað.
Hann sagði, að það eina rétta, sem gera ætti við þessa
hreppsómaga, er í engu kynnu fótum sínum forráð, eins og
hann orðaði það, væri að stytta þá um höfuðið. (Þarna
hafði hann þó önnur orð við sömu merkingar, er ég vil ekki
nota). Aumingja stúlkan, sem var undir þessum kringum-
stæðum að kveðja kunnugt skyldfólk og æskuheimili að
kalla mátti, og var því viðkvæm og bljúg í lund, brast í grát.
Lá við, að ég, 5 ára óvitinn, færi líka að tárast, svo vor-
kenndi ég henni, því ég skildi, að hún átti eitthvað bágt á
þessari stundu. Varð nú bóndi dálítið blíðari í máli, er hann
sá hvílíkt óhapp hann hafði unnið með hinum svívirðilegu
ógætnisorðum sínum.
Skömmu eftir að stúlkan kom í nýju vistina, missti hún
son sinn, en um það bil ári síðar var hún orðin tengdadóttir
bóndans, sem áður grætti hana með þjösnaskap sínum. Er
nú lifandi margt fólk, sem eru afkomendur þessarar um-
komulausu stúlku. Þekki ég það allt sem dugandi og vel
gert í alla staði. Tel ég vafasamt. hvort betur hefði verið séð
fyrir afkomendum bónda, þó hann hefði eignast aðra
tengdadóttur handa syni sínum. Hann vissi og, að hún var af
góðu fólki komin og mun hafa sætt sig vel við hana, þegar
hann kynntist henni.
Hér að framan minntist ég í fáum orðum á Bjarna
Mandal, sem þegar hér var komið, mun hafa verið á sex-
tugsaldri. Hann var um margt sérstæður maður bæði í
skoðunum og háttum. Langar mig því til að geta hans
lítilsháttar nánar.
Ekki er mér kunn ætt Bjarna, en dótturdóttir hans Ásdís
Sigurðardóttir frá Berunesi hefir sagt mér, að hann væri
ættaður af Berufirði og fæddur á Berufjarðarströnd. Hugði
ég eigi, að svo mundi, en trúi því þó. Ekki batt hann bagga
sína í heimahögum, en fór víða á ungdómsárum sínum.
Lenti hann þá til Noregs og dvaldist vetrarlangt í Mandal
og tók sér upp frá því viðurnefnið.
Bjarni var mikill að vallarsýn, hár og þrekinn, en þó
flatvaxinn, stórleitur og kinnbeinin mikil, nefið stórt og
hafið að framan, augun stálgrá og nokkuð hörkuleg, en þó
dálítið glettin, hárið gulleitt, en skegg rautt, fremur munn-
stór og svipur allur einbeittur. Þegar ég man eftir honum,
var hann orðinn mikið sköllóttur og bar þá jafnan heima
rauða prjónahúfu (strympu), að heita mátti nótt og dag.
Hann var þá og orðinn lotinn mjög í herðum og hnjám, en
þó hvikur á fæti.
Aldrei hafði Bjarni verið mjög starfsamur að sögn
manna, því hann var talinn að eðlisfari þungur til vinnu, en
hann var mjög verklaginn, smiður góður, jafnt á tré og
málma og einnig smíðaði hann reiðfæri, hnakka og söðla,
að öllu leyti og fórst það prýðilega úr hendi.
Bjarni var á yngri árum sínum annálað karlmenni að
burðum og svo mikill slagsmálamaður, að enn lifa í minni
manna margar sögur um hann af því tagi. Ekki var hann þó
talinn áreitinn við menn, en þoldi engum minnsta ójöfnuð,
enda þá allajafna illa fyrir kallaður, því oft var hann við
skál og var bæði vín- og kvennamaður. Mun Bakkus ef til
vill hafa átt sinn þátt í því, að eigi varð meira úr honum en
raun varð á, þvi gáfur hafði hann í besta lagi.
Ekki var það lítilmennum hent, að lenda í höndum
Bjarna, er hann reiddist, því þá var hann eigi neitt góð-
menni. Utan víns og geðbrigða, var hann hversdagsgæfur
og barngóður með afbrigðum.
Bjarni átti sér lítinn kofa að bæjarbaki á Berunesi og bjó
í honum. Þar setti hann upp söðla og hnakka og smíðaði
ýmislegt úr tré. Smiðju átti hann örstutt frá og smíðaði þar
járn og kopar.
Nokkuð þótti okkur krökkunum hann kveistinn, ef við
höfðum hátt kringum kofa hans og stríddum honum með
því meira, en hóflegt var. Hótaði hann okkur ýmsu, ef hann
næði til okkar, svo við vorum hálfhrædd við hann. Ef hann
gat handsamað eitthvert okkar, var refsingin sú, að hann
fór með sökudólginn inn í kofa sinn og gaf honum alls kyns
sælgæti s.s. kandís, rúsínur, fíkjur eða eitthvað annað gott,
sem ekki var daglega í höndum barna á þessum árum.
Bjarna var illa við Dani og taldi þá sitja á hlut íslendinga
meira en hóflegt væri. reyndist mjög uppsigað við þá og
stóð í slagsmálum við þá, þegar færi gafst. Set ég eina sögu
um það efni til gamans.
Eitt sinn á blómaskeiði Bjarna kom danskt vöruskip til
Eskifjarðar sem oftar. Á því var háseti einn, risi að vexti og
afarmenni að kröftum, var hann og slagsmálamaður hinn
mesti, áleitinn og að öllu hinn versti viðskiptis. Hafði hann
leikið staðarbúa þarna mjög grátt, og voru menn orðnir
hræddir við hann, og undu illa við.
Svo bar við eitt sinn, er dólgur þessi var staddur í versl-
unarbúðinni ásamt nokkrum íslendingum og reyndi að
egna til ófriðar, að Bjarni kom þar inn. Vatt kaupmaður sér
þegar að honum og bað hann setja niður rosta þessa manns,
ef hann teldi sig færan til. Tók Bjarni því vel, kvaðst þó fyrst
þurfa einhverja hressingu. Rétti hann þá Bjarna pelamál
fullt af brennivíni, en hann tæmdi það í einum teyg.
Meðan þessu fór fram lét sá danski dæluna ganga um
löðurmennsku íslendinga og sagði, að þeir, sem þarna væru,
mættu allir koma, hann skyldi slá þá alla niður.
Þegar hér var komið, vatt Bjarni sér eins og örskot fram á
gólfið, sópaði höfuðfati sínu með annarri hendinni af höfði
sér (en sá var ætíð vani hans, er hann stóð í slagsmálum),
staðnæmdist fyrir framan hinn danska mann og mælti:
„Kom. Her har du en Islænder“. Hinn brá við skjótt og sló
til Bjarna, sem vék sér eldsnöggt undan högginu, greip
andstæðing sinn hinum öruggu „skallatökum“ sínum og
sló hann niður með höfðinu, svo hann féll á gólfið og lá þar
í blóði sínu. Bjarni stóð kyrr og beið þess, að hinn stæði
upp. Spurði hann, hvort hann vildi reyna aftur, en hann
Heimaerbezt 101