Afturelding - 01.04.1981, Blaðsíða 22
+
Páll Lúthersson
kristniboði kveðja
Páll var fæddur á Eskifirði 20. október árið 1926. En
þar bjuggu foreldrar hans, þau hjónin Arnbjörg
Pálsdóttir frá Veturhúsum og Lúther Guðnason
oddviti á Eskifirði. Þegar Páll var sex ára andaðist
móðir hans. Börnin voru þá orðin fimm, en tvö dóu
í frumbernsku. Þrjú komust upp, Páll, Unnur og
Sverrir.
Reynsla æskuáranna hafði sterk áhrif á Pál og
mótaði mikið líf hans. Hann var alla tíð auðmjúkur
og tilbúinn til hjálpar lítilmagna fólki og þeirra er
við bág kjör áttu að búa. Komu þeir eiginleikar
hans mjög fram í kristniboðinu og störfum hans þar.
Þorbjörg og Páll móðurforeldrar hans tóku dótt-
ursoninn að sér. Páll var næmur og skýr til bókar-
innar. Hann var líka laginn til handarinnar og
hamhleypa til allra verka. Ferðamaður var hann
duglegur og dróg sig ekki frá vetrarferðum um
heiðar landsins, þegar aðrir sátu heima.
Ungur nam Páll klæðskeraiðn og lauk námi, með
lofsamlegum vitnisburði. Um tíma hafði hann
mikið umleikis á þeim vettvangi og var markaður
hans allt landið.
Áhugamál Páls og hugsjónir voru á vettvangi
trúboðs og Kristniboðsmála. Þar var hann stórtæk-
ur og afkastamikill. Vann eins og maður er hafði
takmarkaðan tíma. Uppskeran þurfti að komast í
hús. Óveðursský nálguðust.
Þau komu 25. maí s.l. er hann að loknu dagsverki
var á heimleið og keyrði fram á þilaðan bíl. Páll stóð
fyrir framan bílinn og var að hjálpa óskildu og
óþekktu þeldökku fólki. Það voru bræður hans og
systur og vinir. Þar og þá dundi dimman yfir. Páll
var allur hér í heimi. Hann var viðbúinn og Andi
hans og sál fóru heim til Drottins. Jarðneskar leifar
hans komu heim og var hann kvaddur með virðingu
og þökk að viðstöddum 400 manns. Biskup landsins
kvaddi mikilvirkan starfsmann í guðsríki. Einnig
fluttu ávörp Daníel Óskarsson oddamaður Hjálp-
ræðishersins á íslandi, Tryggvi Lie frá Noregi, full-
trúi Norska kristniboðsins, meðal Hvítasunnu-
manna og Óskar Gíslason úr Eyjum, sem flutti
kveðjur frá Betel, en þar var Páll meðlimur um
mörg ár. Einnig tók til máls fyrir hönd barna Páls
heitins, Ingimar Pálsson. Undirritaður flutti ævi-
ágrip og jarðsöng. Kirkjukór Fíladelfíu söng,
stjórnandi var Árni Arinbjarnarson.
Aftureldingu er skylt og kært að minnast Páls.
Um mörg ár var hann framkvæmdastjóri Blaða- og
bókaútgáfu Fíladelfíu og sá þá um útgáfu þessa
blaðs bæði með fjárhag og annað. Páll lagði dugnað
sinn og metnað í að hafa blaðið sem læsilegast og
fjölbreytast. Oft var kostur þröngur, en Páll hafði
ráð undir hverju rifi. Spor hans og verk fyrir blaðið,
verða metin og vegin af Drottni allsherjar. Menn
gátu ekki talið þau eða metið. Þetta var unnið í þögn
hins trúaða manns.
I einkalífi sínu hlaut Páll þá gæfu að kvænast og
eiga Aðalbjörgu Ingólfsdóttur frá Vopnafirði. Börn
þeirra urðu 7 og hafa öll komist til manns. Aðal-
björg bjó manni sínum fagurt og gott heimili. Það
var Páli vé og skjól. Því oft blés á móti og þurfti að
klífa þrítugan hamarinn til að koma málunum í
höfn. Páll mátti reikna með því sem vísu að Aðal-
björg stæði alltaf heils hugar við hlið hans, elskuleg,
hrein og uppörvandi. Þó svo heilsufar hennar leyfði
ekki veru með honum í Afríku, þá vann hún sitt
verk fyrir kristniboðið, svo um munaði.
Nú þegar Páll er kvaddur hér í blaðinu, þá vil ég
þakka honum liðin samstarfsár og vinskap. Oft fór
Páll hratt yfir, svo erfitt var bæði fyrir mig og aðra
að fylgja honum. Tilgangur hans miðaðist ávallt við
að vinna menn og konur fyrir guðsríki. í fullri orku
og af mannkærleika, þá stóð hann í miðri önn,
þegar kallið kom. Síðustu orðin er hann handskrif-
aði til vina sinna hér heima voru „Dauði ég óttast
eigi,/ afl þitt né valdið gilt./ í Kristí krafti ég segi./
Kom þú sæll þegar þú vilt.“
Slíkra er gott að minnast.
Ritstjórinn.