Kirkjuritið - 01.06.1959, Síða 40
Séra Gísli Brynjólfsson prófastur
fimmtugur.
Þegar ég sá það í blaði þann 23.
júní síðastl., að séra Gísli Brynjólfs-
son ætti fimmtugsafmæli þann dag,
komu margar minningar í hug minn,
allt frá bernskuárum. Ég man hinn
íhugula og athugula menntaskóla-
svein, dreng, en þó eiginlega full-
orðinn í senn. Ég man húsið við
Bergsstaðastrætið, þar sem hann
bjó með móður sinni, og ég á
ógleymanlegar minningar þaðan.
Svo lágu leiðir okkar saman i
þjónustu kirkjunnar, og ég var
löngum gestur hans að Kirkjubæj-
arklaustri í sumarleyfum minum.
Þegar ég var kominn þangað í fyrsta skiptið, var eitt það
fyrsta, sem hann spurði mig um, hvort ég kynni að slá. Og
ekki var hann lengi að fá mér orfið í hendurnar. Hann hefir
aldrei sjálfur etið letinnar brauð, og auðvitað var það alveg rétt
hjá honum, að ég átti ekki að gera það heldur.
En það var gaman að tala við hann. Alla þekkti hann um
allt land. Það hafði varla komið út sá bleðill, að Gísli ekki
annaðhvort ætti hann eða vissi, hvar hann var niður kominn.
Ég sá oft tvo hrafna þarna nálægt bæjarburstinni, og mér
meira en kom í hug, hvort þetta væru Huginn og Muninn,
þótt ég aldrei þyrði að spyrja Gísla um það. En hann var ekki
einleikinn þessi fróðleikur Gísla um menn og málefni um land
allt. —
En svo að ég sleppi öllu gamni — en okkur Gísla hefir alltaf
verið erfitt að sleppa því, þegar við höfum verið saman —, þá
vil ég segja þetta í tilefni af fimmtugsafmæli hans: Hann á
marga vini, sem hugsa til hans með hlýju á þessum tímamót-
um. Hjá honum mætti ég alltaf því, sem í þessum orðum felst:
„Verið í bróðurkærleikanum ástúðlegir hver við annan.“
Ég óska séra Gísla og heimili hans blessunar Guðs, nú og
um alla framtíð. Garðar Svavarsson.