Gripla - 01.01.1977, Qupperneq 95
SAGA UM CALLINIUS SÝSLUMANN 91
helgi hans upp, og er minningardagur hans í kaþólskri kirkju hinn 4.
febrúar.14
Upptök og útbreiðsla þessarar helgisögu standa í nánum tengslum
við guðsmóðurdýrkunina og þróun hennar í kristninni.15 Elzt er sagan
til rituð á grísku, en á 9. öld var hún þýdd á latínu, og síðan spruttu
upp af henni fjölmargar gerðir bæði á latínu og þjóðmálum Evrópu, á
bundnu máli og lausu.16
Ballivussaga hlýtur að hafa orðið til með Theophilussögu að fyrir-
mynd, en eigi að síður er munurinn slíkur að það má teljast villandi að
tilfæra hana sem eina gerð Theophilussagnarinnar, eins og gert er í
Index Exemplorum.17 Grunnefnið er að vísu hið sama, samningurinn
við fjandann til þess að ná aftur stöðu og virðingu, en mörgum aðstæð-
um er gjörbreytt, og lausnin frá samningnum er með allt öðrum hætti.
María frelsar Theophilum, og það er kraftaverk, en ballivus sleppur og
fjandinn er svikinn um verkkaup sitt með klókindabragði gyðingsins
góða, sem reist er á guðfræðilegri kenningu. Á sinn hátt er því björgun
sýslumannsins skyldari sögnum um viðskipti Sæmundar fróða við fjand-
ann, enda þótt Theophilussögnin sé skýlaus fyrirmynd sýslumannssögu
þegar á heildina er litið.
Varla er þörf að tína minni háttar atriði, sem á milli ber. Það skiptir
litlu að atburðirnir eru færðir úr klerklegu umhverfi í veraldlegt. Sagan
er trúarsaga eftir sem áður. Mestu skiptir munurinn í tvennu. í fyrra
lagi í því að ballivussaga nefnir ekki guðsmóðurina á nafn, þá persónu
sem Theophilussaga er sögð henni til dýrðar, og í öðru lagi í því, að
gyðingurinn, fulltrúi fjandans í Theophilussögu, verður í sýslumanns-
14 Sbr. Bibliotheca hagiographica latina antiquae et mediae aetatis. Ediderunt
Socii Bollandiani (Bruxelles 1898-1901), bls. 1177-8, nr. 8121-8126, og A. Pon-
celet, Miraculorum b. v. Mariae quae saec. Vl-XV latine conscripta sunt, index
(Analecta Bollandiana XXI (Bruxelles 1902), 241-360), nr. 74 o. s. frv.
15 Sjá um þetta rit eftir Karl Plenzat, Die Theophiluslegende in den Dichtungen
des Mittelalters (Germanische Studien, Heft 43, Berlin 1926), bls. 12 o. áfr.
16 Yfirlit um þetta má allvíða fá, t. d. í áðurnefndu riti Plenzats, bls. 25 o. áfr.
Hér má og minna á E. Kölbing, Ueber die englischen Fassungen der Theophilus-
sage (í bók hans: Beitrage zur vergleichenden Geschichte der romantischen Poesie
und Prosa des Mittelalters, Breslau 1876, bls. 1-41), þar sem hann ræðir einnig um
íslenzku gerðirnar og upptök þeirra. Enn eldra og úrelt er rit G. W. Dasent, Theo-
philus in Icelandic, Low German and other Tongues, London 1845.
17 Frederic C. Tubach, Index Exemplorum. A Handbook of Medieval Religious
Tales (Folklore Fellows Communications nrs. 204. Helsinki 1969). Sjá nr. 3572.