Gripla - 01.01.1977, Blaðsíða 99
SAGA UM CALLINIUS SÝSLUMANN
95
fram. Mest er glatað úr samhengi vísna sem standa efst og neðst á
síðum, en minna týnist af texta, þótt ögn molni af hliðarjaðri. Blað-
síðnaskipti handritsins eru mörkuð á prentið af þessu tilefni.
Að viðbættu því sem glatað er á þennan hátt eru rímurnar óheilar
aðeins á einum stað. Úr 2. rímu hefur týnzt eitt blað (milli bl. 4 og 5)
með á að gizka 20-22 vísum, sem eiga heima á milli II 29 og II 30.
Leit að því hefur ekki borið árangur. Blöðin hafa í upphafi verið 10,
og rímurnar hafa allar fjórar verið áþekkar um lengd, 50-60 vísur.
Villur eru í textanum, sem sýna að um eftirrit er að ræða. Nokkrar
augljósar villur eru leiðréttar í prentaða textanum, en leshættir hand-
ritsins tíndir neðanmáls. Auk þessara staða er texti rímnanna tortryggi-
legur hér og þar, án þess að útgefandi sjái ráð til réttingar.
Aldur rímnanna skal hér eigi reynt að ákveða með neinni nákvæmni.
En ástæða til þess að telja þær eldri en 1600 virðist engin auðsén. Heita
má efalaust, að um sé að ræða sömu rímur og eitt sinn voru í handritinu
AM 609 4to (samkvæmt skrá Jóns Ólafssonar um handrit Árna Magn-
ússonar, í AM 384 fol. og AM 456 fol.) og líklega ritaðar þar um 1700
líkt og annað í því handriti. Úr AM 609 4to hafa rímurnar horfið ein-
hvem tíma fyrir 1854, að því er Jón Sigurðsson segir í rímnaskrá sinni
(hér tilv. í eftirriti Eiríks Jónssonar í AM 923 4to). Rímurnar eru því
að öllum líkindum frá 17. öld, og hafi uppskriftin sem hvarf úr AM 609
4to borizt til íslands, verður ekki skotið loku fyrir, að Lbs. 1065 8vo
geti hafa fengið texta sinn úr þeirri átt.
Bragarhættir rímnanna: I, III og IV eru undir ferskeyttum hætti, I
og IV óbreyttum, en III. ríma er framsniðhend í fyrsta og þriðja vísu-
orði. II. ríma er braghenda, alsamrímuð.
Stafsetningu handritsins er fylgt í útgáfunni. Upphafsstafanotkun
Jóns Sigurðssonar á Gufuskálum er ekki langt frá hófi, en er samræmd
hér. Þannig er t. d. ‘ebreski maður’ prentað þannig, þótt ‘Ebreski’ komi
fyrir í handritinu. Eiginnöfn ómennskra vera í skáldamáli em yfir-
leitt með litlum stöfum, og er það gert að reglu hér; veldur vonandi
ekki erfiðleikum. Greinarmerki, komma, er jafnan milli braglína,
en ekki er ástæða að halda því, þegar hver braglína er sér um línu,
nema önnur ástæða sýnist til. Broddanotkun yfir hljóðstöfum er nokkuð
óregluleg og stundum óhófleg, svo að prentlýti væm að. Hlykkur yfir u
greinist ekki ætíð skýrt frá broddi eins og yfir ú. Aldrei á að vera settur
broddur, sem ekki er í handritinu. Hins vegar er honum sleppt allvíða: