Gripla - 01.01.1979, Blaðsíða 24
20
GRIPLA
merkir orðið húm ‘sjór’, sbr. einnig hafhrútr í Fms. VIII, 373, þar sem
sést, að Baglar kölluðu í háði skip Sverris konungs hafhrúta.2
Orðið brúsi er ekki kunnugt í öðrum merkingum í fornmáli, nema
hvað það kemur fyrir sem mannsnafn og jötunsnafn, sbr. LindDop.
173, og viðurnefni, sbr. LindPersonb. 45. Hér er vitanlega um sama
orðið að ræða og brúsi í merkingunni ‘hafur’, og má til styrktar benda
á, að Hafr er notað sem mannsnafn (LindDop. 439-443) og viðurnefni,
sbr. Hafr-Bfgrn (LindPersonb. 129). Vera má, að mannsnafnið, ekki
sízt jötunsheitið, og viðurnefnið sé dregið af háralagi eða skegglagi, sbr.
það, sem síðar verður sagt um samband orðsins við sögnina *brúsa
(*brusa).
Orðið bruse er kunnugt úr norskum mállýzkum í merkingunni ‘hár-
toppur yfir enni’ og einnig sem nafn á hafri (‘Haardusk over Panden’.
‘Ogsaa brugt som Navn paa en Buk’. Aasen). Þá er rétt að minna á, að
í norskum ævintýrum er bruse notað um hafra. Þá má geta þess, að
bruse kemur fyrir í nokkrum sænskum mállýzkum í merkingunni
‘hrútur” (Rietz). Hér er þannig um samnorrænt orð að ræða, sem hefir
sömu merkingu á vesturnorrænu málsvæði, en lítið eitt frábrugðna í
sænsku.
III
í síðari alda máli er brúsi sjaldgæft í merkingunni ‘hafur’ nema í
orðasöfnum, sem alveg eins geta haft merkinguna úr fornmáli, sbr. t. d.
JÓ (OH), undir brúsi, þar sem er þýðingin ‘nomen Hirci, sive Capri in
Edda’ og HFLbs. 99 fol., bls. 336 (OH), þýtt ‘caper, hircus. poét’. Þá
má láta sér detta í hug, að nafnið Brúsaskeggur sé leitt af brúsi í merk-
ingunni ‘hafur’ og tákni mann með hafurskegg. Verður nánara um þetta
rætt síðar. Loks er líklegt, að brúsi merki ‘hafur’ í eftirfarandi vísu:
hárið er eins og blakkur brúsi,/
bera þær flest allt dökkt á sér. JSamsKD II, 91 (17. öld) (OH).
En hverjar aðrar merkingar orðsins eru kunnar úr síðari alda máli?
JÓ (OH) segir, að brúsi merki m. a. ‘mikið hár og undið, hrokkið í
hringsmynd, hringhrokkið höfuðhár, d. brusende hár’ [‘crinis magnus
et intortus, annuli instar crispatus, capillus subannulatus. Dan. brusende
haar’, undir brúsi]. í HFLbs. 99 fol., bls. 336 (OH) er brúsi þýtt ‘mikið,
hrokkið hár’ [‘crinis magnus crispus’], en líklegt er, að Hannes Finns-
2 Sjá annars um flotbrúsi í Kommentar I, 269.