Tímarit lögfræðinga - 01.12.2000, Blaðsíða 44
Stundum getur hin fjárhagslega niðurstaða orðið mismunandi eftir því, hvort
krafist er efnda in natura eða efndabóta. Hugsanlegt er, að það verði þyngri byrði
fyrir skuldara að efna in natura heldur en að greiða skaðabætur, sem nema
verðmismun. Eins er hugsanlegt, að skaðabætur bæti kröfuhafa ekki allt það tjón,
sem hann hefur orðið fyrir.
Ef kröfuhafi ætlar að nota hið keypta sem hráefni eða fylgihluti til framleiðslu
sinnar, getur verið hagkvæmara fyrir hann að fá efndir in natura heldur en
skaðabætur, einkum ef erfitt er að afla sambærilegra hluta annars staðar. I slíkum
tilvikum hefur kröfuhafi lítið gagn af því að fá verðmismuninn bættan. Eins
getur verið erfitt fyrir kröfuhafa að færa sönnur að öllu því tjóni, sem hann telur
sig hafa beðið, t.d. sönnur að fylgitjóni ýmiss konar. I slíkum tilvikum ætti að
vera hagkvæmara að krefjast efnda in natura í stað skaðabóta.
Ef greiðslustaða skuldara er slæm, er betra að treysta á efndir in natura heldur
en skaðabætur, einkum þegar kröfuhafinn hefur öðlast réttarvemd gagnvart
skuldheimtumönnum og viðsemjendum skuldara.
Ofjárhagslegt tjón, sem tengist þeirri greiðslu, sem samningurinn snertir,
verður ekki bætt með skaðabótum. I slíkum tilvikum er heppilegra að krefjast
efnda in natura, þ.e.a.s. að fá þá greiðsluna.
2. ÓMÖGULEIKI
2.1 Meginregla um almennan og einstaklingsbundinn ómöguleika
Samkvæmt þýskum rétti er samningur um greiðslu, sem ekki er hægt að
afhenda, ógildur. Þetta virðist eðlileg regla við fyrst sýn. Það er augljóst mál, að
samningur um afhendingu tiltekinnar greiðslu, sem með engu móti er hægt að
inna af hendi, verður ekki efndur, og bindur hann þar af leiðandi ekki loforðs-
gjafa. Loforðið getur m.ö.o. ekki haft réttarverkanir í för með sér.12
Reglan um það, að ómöguleiki leiði til þess, að samningur sé ógildur, byggir
á þeirri gömlu kennisetningu rómverks réttar, að impossibilium nulla est
obligatio. Kennisetning þessi leysir þó engan veginn öll þau lögfræðilegu
vandamál, sem tengjast ómöguleika. Þannig má t.d. nefna, sem áður er fram
komið, að þó svo að ómöguleiki útiloki efndir in natura, er ekki sjálfgefið, að
hann útiloki einnig skaðabætur, sbr. ákvæði 23. og 27. gr. kpl. að því er lausa-
fjárkaup varðar. Reglan um ógildi þeirra geminga, sem ganga út á afhendingu
verðmæta, sem ekki er mögulegt að afhenda, er eðlileg í þýskum rétti, þar sem
efndir in natura er aðalreglan. Það er hins vegar álitamál, hversu vel reglan á við
í íslenskum rétti, þar sem skaðabætumar gegna þýðinganniklu hlutverki, og
kröfuhafi getur valið á milli þess að krefjast efnda in natura eða skaðabóta. Ber
í því sambandi og að hafa í huga hina almennu skýringu á hugtakinu gilt loforð,
þ.e.a.s. að gilt sé það loforð sem veiti rétt til efnda in natura eða til efndabóta.
12 Sjá t.d. Bernhard Gomard: Obligationsret Almene emner, 1. hæfte. Naturalopfyldelse, bls. 50
og Obligationsret 2. del, bls. 46.
300