Tímarit lögfræðinga - 01.12.2000, Blaðsíða 72
Það er skilyrði, að umrædd atvik valdi því, að greiðsla geti ekki farið
fram. Atvikin verða því að vera hindrun fyrir greiðslu. Að auki koma fram
þau skilyrði, að kaupandi geti ekki haft stjórn á umræddum atvikum og að
hann geti ekki sigrast á þeim. Um skýringu svipaðra hugtaka má vísa til þess,
sem áður segir um 1. mgr. 27. gr. kpl.69
6.3.2 Réttur til afpöntunar hluta, sem sérstaklega eru útbúnir fyrir
kaupanda
I 2. mgr. 52. gr. er um það fjallað, þegar kaupandi afpantar hlut, sem sér-
staklega skal útbúinn fyrir hann. Getur seljandi þá ekki haldið fast við kaupin
með því að halda gerð hlutarins áfram eða gert aðrar ráðstafanir til afhend-
ingar ásamt því að krefjast greiðslu, nema því aðeins að stöðvun hafi í för
með sér verulegt óhagræði fyrir hann eða hættu á því að hann fái ekki bætt
það tjón, sem afpöntun hefur í för með sér. Ef seljandi getur ekki haldið fast
við kaupin, skal ákveða skaðabætur fyrir það tjón, sem afpöntunin veldur,
samkvæmt reglum X. kafla kpl. Regla 2. mgr. 52. gr. felur í raun í sér
undantekningu frá meginreglu 1. mgr. um rétt seljanda til að krefjast efnda.70
Segja má, að ákvæðið byggist á samspili tveggja aðalsjónarmiða. Fyrra
sjónarmiðið er það, að gerða samninga beri að halda. Hitt sjónarmiðið er, að
það stríði gegn samfélagslegum hagsmunum að láta verðmæti fara for-
görðum. Regla laganna er á því byggð, að síðara sjónarmiðið eigi að gilda að
því er varðar pöntunarkaup, en seljandi getur hins vegar átt rétt á skaða-
bótum. Frá þessu er þó sú undantekning gerð, að hafi stöðvun í för með sér
verulegt óhagræði fyrir seljanda, eða hættu á því að hann fái ekki bætt það
tap, sem afpöntun hefur í för með sér, getur seljandinn haldið fast við kaupin.
Afpöntun hefur svipuð áhrif og riftun að því leyti til, að seljandi getur ekki
haldið áfram efndum samningsins. Skilyrði riftunar og afpöntunar eru hins
vegar ekki hin sömu, sem m.a. kemur fram í því, að unnt er að beita afpöntun
þótt ekki sé um neinar vanefndir af hálfu seljanda að ræða.
Akvæði 2. mgr. á aðeins við um kaup á hlut, sem er sérstaklega útbúinn
fyrir kaupanda. Hafi kaupandi afpantað hlutinn, getur seljandi samkvæmt
ákvæðinu ekki haldið fast við kaupin í þrenns konar skilningi. í fyrsta lagi
getur hann ekki haldið áfram gerð hlutarins. í öðru lagi getur hann ekki gert
aðrar ráðstafanir til afhendingar hans, t.d. pantað flutning á honum. í þriðja
lagi getur seljandi ekki krafist greiðslu. Rétturinn til afpöntunar getur verið
áhættusamur fyrir seljanda, þar sem hann situr e.t.v. uppi með hlut, sem
hvorki hann sjálfur né aðrir geta nýtt. Af þeim sökum gerir ákvæðið ráð fyrir
því, að hann geti haldið fast við kaupin í vissum tilvikum, sem nánari grein
er gerð fyrir síðar.
69 Alþt. 1999-2000, þskj. 119, bls. 129.
70 Alþt. 1999-2000, þskj. 119, bls. 129. Hvorki eldri lög né Sþ-samningurinn hafa að geyma sam-
bærilegt ákvæði og fram kemur í 2. mgr. um rétt til þess að afpanta hlut á tímabilinu frá því að
kaup gerðust og þar til afhending fer fram.
328