Tímarit lögfræðinga - 01.12.2000, Blaðsíða 101
bíllinn er afhentur, án þess að varadekkið fylgi með. Ef varadekkið er heima hjá
seljanda, er enginn vafi á því, að seljanda ber að bæta úr gallanum, og þar sem
hér er um gjaldgenga verslunarvöru að ræða, sem auðvelt er að útvega annars
staðar, t.d. hjá bifreiðaumboði, ber seljanda að kaupa sambærilegt varadekk, ef
það gamla er týnt. í ýmsum tilvikum af þessum toga getur það verið einfaldara
og hagkvæmara fyrir kaupandann að bæta úr gallanum sjálfur með því að kaupa
það, sem á vantar og krefja síðan seljandann um skaðabætur vegna þess kostn-
aðar, sem hann hefur af þessu haft.
Þótt í sjálfu sér megi bæta úr galla með viðgerð, getur kostnaðurinn, sem er
því samfara, verið svo mikill, að hann verði ekki lagður á seljandann. Það gæti
t.d. átt við, þegar kaupandinn er búsettur erlendis, og seljandinn yrði að senda
starfsmenn sína þangað til viðgerðar. Oft verður einnig að líta til kostnaðar af
viðgerð samanborið við söluverð hlutarins. Af þessum sökum verður viðgerð
oft óhóflega kostnaðarsöm miðað við verð nýs hlutar af sömu tegund. Þetta á
við um margar vörutegundir, sem ætlaðar eru til daglegrar notkunar. Sú stað-
reynd, að kaupandi bjó á sama stað og seljandi, þegar kaup áttu sér stað, en
kaupandinn flytur eftir kaup. hefur enga þýðingu í þessu sambandi, og leiðir því
ekki til ríkari úrbótaskyldu en ella af hálfu seljanda. Skylda hans til úrbóta í
slíkum tilvikum ræðst af heildarmati á því, hvort kostnaður og óhagræði af
úrbótum telst ósanngjamt. Með sama hætti getur seljandi losnað undan úrbóta-
skyldunni, ef úrbætur krefjast óvenju mikillar vinnu við að setja hlutinn upp og
taka hann niður eða gera við hann.
A hinn bóginn losnar seljandinn ekki, án þess að annað og meira komi til,
undan úrbótaskyldunni við það eitt, að það er kostnaðarsamt að útvega varahluti
og fylgifé, sem átti að fylgja með samkvæmt samningnum. Ef samningur gerir
ráð fyrir því, að fjórir vetrarhjólbarðar fylgi seldum bíl, en bíllinn er afhentur
án þess að hjólbarðamir fylgi, getur seljandinn ekki neitað að útvega hjól-
barðana af þeirri ástæðu einni, að þeir eru dýrir í innkaupum. Seljandinn getur
samkvæmt þessu ekki komið sér hjá kostnaði, sem hann í öllum tilvikum hefði
þurft að bera, til þess að hlutur yrði afhentur gallalaus. Ef ráð var fyrir því gert
í samningi, að fjórir notaðir vetrarhjólbarðar skyldu fylgja með við sölu bílsins,
er seljandinn ekki skyldugur til þess að útvega fjóra nýja hjólbarða til réttra
efnda á samningnum. Ef ekki er unnt að útvega fjóra hjólbarða í því ástandi,
sem um var samið, verður kaupandinn að láta sér nægja skaðabætur eða afslátt.
Atvik geta verið með þeim hætti, að úrbætur á ákveðnu tímamarki hafi í för
með sér óhæfilegan kostnað eða óhagræði fyrir seljandann, ef bæta á úr strax
eða mjög fljótt. Þannig getur það t.d. verið, þegar þörf er á viðgerð utan venju-
legs verslunartíma, eða þar sem söluhlutur er tímabundið fjarri atvinnustöð
seljanda. Raunhæft dæmi um þetta er söluhlutur, sem eðli sínu samkvæmt er
ætlaður til nota á ákveðnum stöðum eða á ferðalögum, eins og algengt er með
t.d. bíla og báta. I þessum tilvikum getur seljandinn ekki skilmálalaust hafnað
úrbótum, en hann getur eftir atvikum farið fram á frest eða krafist þess, að
357