Tímarit lögfræðinga - 01.12.2000, Blaðsíða 108
seljanda, áður en hæfilegur tími er liðinn frá því að hann fékk slíka vitneskju,
getur seljandi gert nauðsynlegar ráðstafanir innan þess tíma, sem nefndur var.
Akvæðið er orðað með svipuðum hætti og 24. gr. laganna, og það ber að skilja
á sama hátt.136
9.4.1.7 Kaupandi bætir sjálfur úr án samráðs við seljanda
I 3. mgr. 36. gr. kpl. er um það tilvik fjallað, þegar kaupandinn hefur sjálfur
reynt að fá bætt úr galla án þess að gefa seljandanum tækifæri til þess að nýta
rétt sinn skv. 1. mgr. Það er grundvallaratriði í þessu sambandi, að komist kaup-
andinn að því, að söluhlutur sé haldinn galla, verður hann að tilkynna seljand-
anum um það og gefa honum færi á að bæta úr eða afhenda annan hlut. Selj-
andinn getur sjálfur haft af því hagsmuni að bæta úr eða afhenda annan hlut í
því skyni að komast hjá eða takmarka skaðabótakröfu kaupandans. Ef kaup-
andinn bætir sjálfur úr, án þess að taka tillit til þessa réttar seljanda, getur komið
til greina að lækka skaðabótakröfu hans á þeirri forsendu, að hann hafi ekki
takmarkað tjón sitt eins og fyrir er mælt í 70. gr. laganna.
I vissum tilvikum getur verið ósanngjarnt að ætlast til þess, að kaupandinn
bíði eftir því að seljandinn bæti úr galla eða afhendi nýjan hlut, og er ákvæði 3.
mgr. við þetta miðað. Það getur verið nauðsynlegt að bæta fljótt úr, en erfitt
getur reynst að ná í seljandann á þeim stað og tíma, sem máli skiptir. Ef um
kaup á bíl er að ræða, getur það komið fyrir, að kaupandinn sé að aka bílnum í
útlöndum, þegar gallinn kemur í ljós, og nauðsynlegt sé að gera við bílinn til
þess að ferðinni megi halda áfram. Sama er, ef keyptur er bátur, sem reynist
lekur í fyrstu siglingu. Hér er réttlætanlegt að láta gera við lekann á fyrsta stað,
þar sem það er unnt. Seljandinn getur ekki í tilvikum sem þessum krafist þess,
að kaupandinn bíði eftir úrbótum hans eða afhendingu að nýju af hans hálfu.
Þessa niðurstöðu má í sjálfu sér einnig leiða af því skilyrði 1. mgr., að úrbætur
eða afhending að nýju geti farið fram „án verulegs óhagræðis fyrir kaupanda“.
Ákvæði 3. mgr. þjónar þeim tilgangi að taka af öll tvímæli í tilvikum, þar sem
oft er um vafa að ræða í framkvæmd.
I ákvæðinu er ekki fjallað um skaðabætur vegna kostnaðar kaupanda af úr-
bótum. Alitaefni um skaðabætur af hálfu kaupanda verður því að leysa á grund-
velli almennu reglunnar í 40. gr., sbr. 70. gr. laganna, þó þannig að seljandi
getur ekki krafist lækkunar bótanna skv. 70. gr., ef það var ósanngjarnt að krefj-
ast þess, að kaupandi biði eftir því að seljandi bætti úr göllunum.137
9.4.1.8 Samningsákvæði um úrbætur
Oft áskilur seljandi sér í kaupsamningi (gjarnan í svonefndum ábyrgðar-
skírteinum) rýmri rétt til að bæta úr galla en hann hefur eftir almennum reglum.
136 Sambærilegt ákvæði og 2. mgr. 36. gr. er í 2. og 3. mgr. 48. gr. Sþ-samningsins. Alþt. 1999-
2000, þskj. 119, bls. 107.
137 Alþt. 1999-2000, þskj. 119, bls. 108.
364