Heilbrigðismál - 01.07.1971, Blaðsíða 10

Heilbrigðismál - 01.07.1971, Blaðsíða 10
skilgreina illkynja sjúkdóm sem hömlulausa eða hömlulitla fjölgun á vissri frumugerð, mismunandi eftir því hver sjúkdómurinn er. Lækning þarf því að gera hvort tveggja að stöðva frumufjölgunina og útrýma þeim ill- kynja frumum, sem þegar eru til staðar. Til þess að þetta megi takast verður að vera fyrir hendi þekking á efnaskiptum frumanna, eink- um þeim er lýtur að fjölgun eða skiptingu þeirra. Sérstaklega er nauðsynlegt að vita á hvern hátt efnaskipti ilikynja fruma eru frá- brugðin efnaskiptum heilbrigðra fruma, því að með því að beina skeytum að þeim hluta efnaskiptanna er hugsanlegt að útrýma ill- kynja vef án þess að skaða heilbrigða vefi. Þessi forsenda fyrir lyfjameðferð var ekki fyrir hendi og er raunar ekki til nema að tak- mörkuðu leyti ennþá, en framfarir í fram- leiðslu virkra lyfja gegn þessum sjúkdómum hafa þó að verulegu leyti byggzt á aukinni þekkingu á efnaskiptum frumanna, bæði heil- brigðra og sjúkra. Því miður er þekkingu okkar á séreinkenn- um krabbameinsfrumanna enn svo skammt á veg komin að í dag er aðeins eitt lyf til, nefnt asparaginase, sem færir sér í nyt séreinkenni krabbameinsfrumunnar til að hindra vöxt hennar. Oll önnur lyf hafa það sameiginlegt, að þau grípa á einn eða annan hátt inn í þá þætti efnaskipta frumufjölgunarinnar, sem eru sam- eiginlegir heilbrigðum og sjúkum frumum. I þessu felst stærsti annmarkinn á notkun þeirra, því að þau eyðileggja þá jafnframt heilbrigð- ar frumur. Notagildi lyfjanna fer þar af leið- andi eftir því hve næmi illkynja fruma fyrir áhrifum lyfsins er meira en næmi heilbrigðra vefja. Þróunin í lyfjameðferð á illkynja mein- um er því gott dæmi um það að forsenda fyrir framförum á einu sviði er oft undanfarandi framfarir á öðru sviði, hér aukin þekking á efnaskiptum fruma. Þar sem lyfin verka flest með því að hindra frumuskiptingu eru þau áhrifaríkust í þeim meinum, sem hafa örastan frumuvöxt, en valda þá jafnframt mestri skemmd í þeim vefjum, sem örust hafa frumuskiptin, en það eru slímhúð meltingarfæra frá munni og niður úr og blóðmergurinn. Slímhúðarfrumur meltingarfæra endurnýjast á um það bil þriggja daga fresti. Lyfin trufla að vísu mis- mikið þessi frumuskipti en afleiðingin getur orðið sár í munni og niður eftir meltingarveg- inum. Auk þess sem sárin valda miklum óþægindum og erfiðleikum við að borða, opn- ast í gegnum þau leið fyrir ýmsa þarmasýkla inn í blóðið og þar með aðra vefi, auk þess sem frá þeim getur blætt. Áhrifin á blóð- merginn, sem máli skipta, eru þau að fram- leiðsla hvítra blóðkorna, svokallaðra kyrni- korna og blóðflaga, minnkar um skeið og getur jafnvel gert það varanlega í sumum til- vikum. Afleiðingin er annars vegar fækkun blóðkornanna í blóðinu og þar með minnkuð mótstaða gegn sýklum, en hinsvegar fækkun blóðplatanna með tilhneigingu til blæðinga af litlu, sem engu tilefni. Nú hefur í nokkur ár verið unnt að vinna blóðplötur úr blóði og gefa þær sjúklingum þar til þeir fara sjálfir að framleiða nóg. Þetta er hinsvegar mjög frekt á blóð, þar sem hver sjúklingur þarf dag- lega blóðplötur unnar úr blóði 6-10 venju- legra blóðgjafa. Skemmra er síðan farið var að vinna hvít blóðkorn úr blóði og hér á landi hefur enn ekki verið farið út í það, enda ekki orðið al- mennt notað á sjúkrahúsum. Til þess þyrfti helzt sérstaklega gerða skilvindu, sem vinnur hvítu blóðkornin úr blóði blóðgjafanna en skilar svo hinu til blóðgjafans aftur. Þessi tæki eru mjög dýr en hljóta þó að verða í náinni framtíð nauðsynleg hverjum blóðbanka, sem vill veita þá þjónustu, sem nútíma þekking og tækni býr yfir. FRÉTTABRÉF UM HEILBRIGÐISMAL 10

x

Heilbrigðismál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heilbrigðismál
https://timarit.is/publication/638

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.