Sameiningin - 01.12.1950, Blaðsíða 18
176
Sameiningin
heiður að vera kallaður sem prestur til átthaga sinna, Nýja-
íslands, og var hann nokkur ár þjónandi prestur í Gimli
prestakalli. Síðar varð hann eftirmaður föður síns í Arborg.
Sýnir þetta bæði hið mikla traust, sem jafnaldrar hans og
leikbræður, sem þá voru teknir við safnaðarforráðum í
prestakallinu, báru til hans, og ennfremur vinsældir fjöl-
skyldu séra Jóhanns.
Söfnuðina mun heldur ekki hafa iðrað þess að hafa
valið séra Bjarna fyrir prest. Vinsældir þeirra hjóna voru
miklar og fóru sí-vaxandi. Skömmu áður en þau lögðu af
stað frá Arborg, hélt prestakallið þeim afar fjölmennt sam-
sæti, og sæmdi þau rausnarlegum gjöfum.
Séra Bjarni gat sér hinn bezta orðstýr sem prestur og
embættismaður í kirkjufélagi voru, enda er hann manna
samvizkusamastur, og mjög nákvæmur í allri embættis-
færslu sinni. 1 ræðum sínum er hann rökfastur og ákveðinn
málafylgjumaður sem faðir hans, og laus við allan undan-
slátt. Einkum er hann óvenjulega fær og reglusamur skrif-
stofumaður, enda sérmenntaður í þeirri grein. Kom þetta
einkar vel í ljós í afgreiðslu hans allri sem skrifari kirkju-
félagsins, og heimatrúbaðsnefndar þess, en bæði þau em-
bætti hafði hann á hendi í nokkur ár.
Þá hefir og kona séra Bjarna, Alma Olson, ættuð frá
Gimli, mjög stuðlað að vinsældum manns síns, og farsæld
hans í prestsstarfinu. En hún er að allra dómi hin ágætasta
kona, ljúflynd og háttprúð. Þau hjón eiga tvo sonu, Bryan
og Warren, báða á unga aldri.
Það er mikil eftirsjá að séra Bjarna, og fjölskyldu hans,
úr hinum fámenna hópi kennimanna vorra. En hvorki hon-
um né söfnuðunum í Nýja-íslandi var framtíðardvöl þeirra
þar í sjálfsvald sett. Báðir aðilar myndu hafa óskað lengri
samvinnu en raun varð á. En heilsu prestsins var þann veg
farið að hann varð, að læknisráði, að leita í þurrara og
hlýrra loftslag en kostur er á í Manitoba.
Hinir mörgu vinir þeirra hjóna, norður hér, hafa kvatt
þau með söknuði og eftirsjá, en óska þess að hið nýja um-
hverfi megi hafa heillavænleg áhrif á heilsu séra Bjarna,
og að vinnudagur hans í víngarði Drottins megi verða langur
og gifturíkur.