Fréttablaðið - 05.04.2011, Blaðsíða 12

Fréttablaðið - 05.04.2011, Blaðsíða 12
5. apríl 2011 ÞRIÐJUDAGUR12 FRÉTTASKÝRING: Hvað felur „dómstólaleiðin“ í sér? 6. hluti Líkur verða að teljast á að Ísland myndi tapa máli sem rekið yrði fyrir EFTA-dómstólnum vegna Ice- save-deilunnar. Skiptar skoðanir eru um málið meðal lögmanna. Álit ESA er að með afstöðu sinni brjóti Ísland í bága við EES-samninginn. Fyrstu skrefin í málarekstri ESA hafa þegar verið tekin. Næstu skref verða tekin felli þjóðin nýjan Ice- save-samning í atkvæðagreiðslunni næsta laugardag. Dómsmál ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, á hendur Íslendingum vegna Icesave er þegar í farvegi. Málareksturinn er hins vegar í bið- stöðu fram yfir niðurstöðu þjóðaratkvæða- greiðslunnar um Icesave. Verði staðfest lögin um ríkisábyrgð skuldbindingar Tryggingar- sjóðs innstæðueigenda (TIF) vegna Icesave er sjálfhætt við málareksturinn. Í áminningarbréfi ESA frá því í maí í fyrra kemur fram að stofnunin telji ótvíræða skyldu íslenskra stjórnvalda til að ábyrgjast innstæður breskra og hollenskra sparifjáreig- enda á Icesave-reikningum Landsbankans að því ríflega tuttugu þúsund evra lágmarki sem reglur um innstæðutryggingar kváðu á um. Fari hins vegar svo að nýjum Icesave- samningi verði hafnað í þjóðaratkvæða- greiðslu þurfa stjórnvöld hér að svara áminningarbréfi ESA og taka til varna í mála- rekstrinum á hendur ríkinu. Í framhaldinu kæmi svo frá ESA svokallað rökstutt álit og málinu kynni að verða vísað til EFTA-dóm- stólsins. Þar færu fram vitnaleiðslur, kallað yrði eftir gögnum og Evrópulönd og fram- kvæmdastjórn Evrópusambandsins fengju að leggja fram athugasemdir sínar. Ferlið er þó ekki jafntímafrekt og það hljómar. Samkvæmt heimildum blaðs- ins er ekki ólíklegt að ár gæti liðið milli þjóðaratkvæðagreiðslunnar og dóms hjá EFTA-dómstólnum. Skúli Magnússon, ritari dómstólsins, segir að þar hafi alla jafna verið skorið úr og réttað í málum á mjög skömmum tíma. „Um leið og mál er komið hingað er það rekið eins hratt og mögulegt er. Það á við um öll mál,“ segir hann. Flókið að spá fyrir um framvinduna Í viðtali við Fréttablaðið í byrjun síðasta mánaðar áréttaði Skúli að mögulegur dómur EFTA-dómstólsins næði ekki til skaðabóta- skyldu íslenska ríkisins, hvort heldur sem það væri vegna brots gegn tilskipun um inn- stæðutryggingar eða gegn grunnreglunni um bann við mismunun á grundvelli þjóð- ernis. Mál sem ESA höfði snúist um hvort íslenska ríkið hafi fullnægt skyldum sínum gagnvart EES-samningnum. „Liggi síðan fyrir að íslenska ríkið hafi gerst brotlegt kemur upp spurningin um hvort stofnast hafi til skaðabótaskyldu,“ sagði hann. Þá tæki að öllum líkindum við málarekstur fyrir íslenskum dómstólum, sem aftur þyrftu að leita álits EFTA-dómstólsins um vafaatriði í túlkun á EES-samningnum. Íslenska lögmenn greinir á um líkur þess að dómur falli Íslendingum í óhag, en bent hefur verið á að ESA hefur eingöngu tapað tveimur af 29 samningsbrotamálum sem stofnunin hefur farið með. Verði íslenska ríkið talið brotlegt þarf að sögn Skúla að fullnægja frekari skilyrð- um til þess að stofnist til skaðabótaskyldu. „Þau eru einkum skilyrði um að brot sé nægjanlega alvarlegt.“ Sömuleiðis segir Skúli að færi svo að íslenskir dómstólar dæmdu málið með þeim hætti að væri talið samræmast EES-samn- ingnum og skuldbindingum Íslands sam- kvæmt honum væri hægt að sjá fyrir sér alls konar framhald á málinu. „Milliríkja- deilunni lýkur ekki endilega við niðurstöðu íslenskra dómstóla,“ segir hann. Þannig gæti niðurstaða dómsmáls hér kallað á viðbrögð frá Evrópusambandinu og meint brot íslenskra dómstóla gegn EES- reglum lent aftur á borði ESA. „Þetta er býsna flókið mat og erfitt að sjá fyrir sér framvinduna.“ Í grein Margrétar Einarsdóttur, kennara í Evrópurétti við Háskólann í Reykjavík og forstöðumanns Evrópuréttarstofnunar, í Fréttablaðinu 17. mars segist hún hall- ast að því að verulegar líkur séu á því að íslenska ríkið myndi bíða lægri hlut í máli fyrir EFTA-dómstólnum. „Við fall bank- anna í október 2008 voru innistæður í inn- lendum útibúum tryggðar að fullu á meðan innistæður í erlendum útibúum nutu engrar tryggingar. Í þessu felst óbein mismunun á grundvelli þjóðernis,“ segir hún og telur því að öllum líkindum um skýrt brot að ræða gegn fjórðu grein EES-samningsins. Þá sé á því byggt í áminningarbréfi ESA að íslenska ríkið hafi gerst brotlegt við tilskipun 94/19 um innistæðutryggingar þar sem íslenska ríkið hafi ekki séð til þess að hér á landi væri komið á fót innistæðutryggingakerfi sem virkaði. Bótaábyrgð gæti náð til heildarinnstæðna „Dómur EFTA-dómstólsins þess efnis að íslenska ríkið hafi brotið gegn samnings- skuldbindingum sínum á grundvelli EES- samningsins myndi setja aukinn pólitískan þrýsting á Íslendinga að greiða skuldina. Ef íslenska ríkið yrði ekki við því kynnu samn- ingsaðilar EES-samningsins að grípa til refsiaðgerða gegn okkur á grundvelli samn- ingsins,“ segir Margrét í grein sinni. Hún telur vafa leika á því hvort brot landsins á því að innleiða tilskipunin um innstæðu- tryggingar sé nægilega alvarlegt til þess að varða bótaábyrgð. „Hins vegar má telja verulegar líkur á því að brot íslenska ríkisins gegn banni við mismunun á grundvelli þjóðernis, sem er algjör grundvallarregla EES-réttarins, yrði talið nægjanlega alvarlegt,“ segir hún og kveður íslenska ríkið því að minnsta kosti talið bótaskylt á þeim grundvelli. „Þá er það áhyggjuefni að Bretar og Hollendingar gætu fyrir íslenskum dómstólum byggt á því að vegna brota á fjórðu grein EES-samnings- ins bæri íslenska ríkið bótaábyrgð á heildar- innistæðum innistæðueiganda í Bretlandi og Hollandi en ekki einungis þeirri fjár- hæð sem samsvarar innistæðutryggingu að 20.000 evrum. Skuld Íslendinga við Breta og Hollendinga yrði þá um tvöfalt hærri en hún er samkvæmt því samkomulagi sem nú hefur náðst. Þá myndi skuldin væntanlega öll falla í gjalddaga við uppkvaðningu dóms Hæstaréttar.“ Fastus ehf. | Síðumúla 16 | 108 Reykjavík | Sími 580 3900 | www.fastus.is Iðnaðarþvottavélar og þurrkarar fyrir húsfélög og aðra stór notendur s.s. hótel og þvotta hús. PER SANDERUD, FORSETI ESA Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur unnið 27 af 29 málum sem höfðuð hafa verið á hendur ríkjum fyrir EFTA-dómstólnum vegna brota á Samningnum um evrópska efnahagssvæðið (EES). FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON ESA telur skyldur Íslendinga skýrar Lárus Blöndal, hæstaréttarlögmaður og fulltrúi stjórnar- andstöðunnar í Icesave-samninganefndinni, bendir á að lægri vextir í nýjum samningi hafi fengist með því að halda á lofti óvissu um lagaskyldu Íslendinga til að gangast við ábyrgð á Icesave-reikningum Landsbankans. Íslendingar, Bretar og Hollendingar hafi því skipt með sér kostnaði. Tapist málið fyrir EFTA-dómstólnum sé sú vörn úr sögunni. „Þá munu Bretar og Hollendingar ekki sætta sig við að fá vexti sem eru langt undir því sem gerist og gengur á alþjóðavettvangi,“ segir hann og kveður Breta og Hollendinga hafa lýst því yfir að verði dómstólaleið ofan á taki þeir upp ýtrustu kröfur. „Niðurstaða dómstóla getur verið með þrennum hætti. Við getum unnið málið. Við getum tapað málinu á þann hátt að við berum ábyrgð á því að fjármunir hefðu átt að vera til fyrir lágmarksgreiðslum innstæðutrygg- inga. Og í þriðja lagi getum við tapað því þannig að við höfum mismunað innstæðueigendum eftir því í hvaða útibúum þeir áttu peninga,“ segir Lárus og kveður blasa við vaxtakostnað upp á hundruð milljarða verði síðasti kosturinn ofan á, enda myndu Bretar og Hollendingar þá gera okkur ábyrg fyrir öllum innistæðunum sem þeir greiddu en ekki eingöngu lágmarksinnistæðum. „Og tal um að ef við töpum málinu fyrir EFTA-dómstólnum endi þetta fyrir íslenskum dómstólum og að leiða megi það til lykta með heimadómurum og litlum tilkostnaði er fásinna. Menn þurfa í einu og öllu að fara eftir þeim samningum og reglum sem við höfum undirgengist með EES-samningnum.“ Lárus veltir einnig fyrir sér hver sé viðunandi herkostn- aður við Icesave-deiluna. Áætlaður kostnaður ríkisins við fyrirliggjandi samning sé ekki nema einn tuttugasti af kostnaði við samninginn sem hafnað var í fyrra. „Óbeini kostnaðurinn við að standa í svona málarekstri gagnvart viðskipta- og vinaþjóðum okkar skipti kannski ekki máli þegar um var að tefla hagsmuni upp á 500 milljarða króna, en hann skiptir máli þegar kostnaðurinn er 20 til 30 milljarðar,“ segir hann og bendir á nýja útreikninga Tryggva Þórs Herbertssonar, hagfræðings og þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að kostnaður af hærra vaxtaálagi með óleysta deilu kunni á einu ári að vera hærri en öll upphæðin sem ríkið þurfi að greiða vegna Icesave. Nýtt mál þolir ekki sama stríðskostnað LÁRUS BLÖNDAL „Ísland hefur ekki tekið formlega til varna,“ segir Sigríður Á. Andersen héraðsdómslögmaður og telur því enga sérstaka áhættu af svonefndri dómstólaleið í Icesave-deil- unni við Breta og Hollendinga. Hún furðar sig á stjórn- sýslu ESA að lýsa því yfir að málið fari fyrir dóm jafnvel þótt áminningarbréfi stofnunarinnar frá í maí í fyrra hafi ekki enn verið svarað. Endi deilan hins vegar fyrir EFTA-dómstólnum segist Sigríður telja alveg ljóst að aldrei kæmi til álita að dæma Ísland til að ábyrgjast innstæðurnar að fullu. Hún vísar til þess að í áminningarbréfi ESA sé bara fjallað um lágmarksinnstæðu- tryggingarfjárhæðina. „ESA er bundið af þeim málsástæðum sem þar koma fram,“ segir hún og telur fráleitt að ESA kynni að senda inn nýtt áminn- ingarbréf. „Ég þekki ekki dæmi um slíkt í Evrópurétti og það myndi í raun jafnast á við stríðsyfirlýsingu.“ Jafnvel þótt EFTA-dómstóllinn kæmist að þeirri niður- stöðu að Ísland hefði ekki innleitt tilskipun um inn- stæðutryggingar með tilhlýðilegum hætti bendir Sigríður á að huga þurfi að ýmsu áður en meint tjón Breta og Hollendinga liggi fyrir. Til dæmis þurfi að meta hvort þeir hefðu með einhverjum hætti getað takmarkað tjón sitt. Þannig hafi um helgina komið fram hjá Lee Buchheit, formanni samninganefndar Íslands, að Bretar hafi greitt innstæðueigendum út með áföllnum Icesave-vöxtum. Þar hefði mátt láta nægja að greiða út höfuðstólinn einan eða miða við aðra og lægri vexti. Þá þurfi líka að líta til mögulegs ábata sem löndin hafi haft af einhliða ákvörðun um að greiða út inneignir Icesave. „Væntanlega voru þeir að vernda eigið fjármálakerfi og það þarf að meta til einhverrar fjárhæðar,“ segir hún og telur því ekk- ert borðleggjandi um fjárhæð bóta Íslands í málinu. Eins segir Sigríður rök hníga til þess að Íslandi hafi verið heimilt að gera upp á milli innstæðna hér á landi og erlendis í aðgerðum sínum. „Það er vel hægt að halda því fram að þetta hafi verið annars konar hópur, en verði niðurstaðan sú að talið sé að um mismunun hafi verið að ræða er einsýnt að mismununin byggði á neyðarrétti. Og þetta sjónarmið hefur ESA meira að segja fallist á,“ segir hún. Telji menn á annað borð að neyðarlögin haldi eigi sömu sjónamið við um ólíka meðhöndlun á innlendum og erlendum innstæðum Landsbankans. Óþarfi að óttast dómstólaleiðina SIGRÍÐUR Á ANDERSEN Í nýlegri ársskýrslu Eftirlits- stofnunar EFTA (ESA) kemur fram að álag á stofnunina hafi fremur aukist á síðasta ári. Þá hafi verið tekin upp 370 ný mál, en 362 málum hafi verið lokið. Aukin umsvif megi að stórum hluta rekja til fjármálakrepp- unnar. Sér í lagi eigi það við um Ísland, þar sem komið hafi upp mál sem tengist bæði ríkisaðstoð og reglum innri markaðar Evrópska efnahagssvæðisins. Sömuleiðis kemur fram að það hafi aukist að málum væri skotið til EFTA-dóm- stólsins, en hann tók við átján málum í fyrra. Það er sagt vera met í sögu dóm- stólsins. Met í málafjölda Óli Kristján Ármannsson olikr@frettabladid.is

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.