Fréttablaðið - 24.09.2011, Blaðsíða 72
24. september 2011 LAUGARDAGUR40
Sjónarhorn
Ljósmynd: Pjetur Sigurðsson
FÓTBOLTI Í FJALLAFAÐMI Liðsmenn ÍH létu hvorki iðjagrænan golfvöllinn né fjallasýnina
frá Hveragerði trufla sig þegar þeir sigruðu Hamar með 4 mörkum gegn 3 á laugardaginn
var, í síðasta leiknum sem fram fór í 2. deild á þessu sumri.
Á þessum degi fyrir réttum 23 árum, hinn 24. september árið 1988, vann Kanadamaðurinn Ben Johnson eitt magnaðasta íþróttaafrek
sögunnar þegar hann kom fyrstur í mark í 100 metra hlaupi á Ólympíu-
leikunum í Seúl á 9,79 sekúndum, langt á undan erkióvini sínum Carl
Lewis.
Gleði Johnsons reyndist þó
skammvinn því að þremur
dögum síðar var opinberað að
lyfjapróf hefði leitt í ljós að hann
hefði neytt stera til að bæta
árangur sinn. Hann var því
sviptur titlinum og heimsmetinu
og var í framhaldinu dæmdur í
keppnisbann.
Leið Johnsons á toppinn hófst
í upphafi níunda áratugarins
þegar hann náði góðum árangri á
Samveldisleikunum 1982 og vann
sér þátttökurétt á Ólympíuleik-
unum í Los Angeles árið 1984.
Þar hreppti hann bronsið í 100
metra hlaupi á meðan Lewis vann
glæstan sigur. Lewis hafði lengi
yfirburði í greininni en árið 1985
vann Johnson loks sigur á þess-
um helsta keppinauti sínum og
endurtók leikinn á Góðgerðaleikunum árið eftir.
Það var síðan á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Róm árið
1987 sem Ben Johnson festi sig í sessi sem besti spretthlaupari heims, en
þá tryggði hann sér sigur með því að hlaupa á nýju heimsmeti, 9,83 sek-
úndum. Hann bætti með því fjögurra ára gamalt met Bandaríkjamanns-
ins Calvin Smith um tíu hundraðshluta og var sigurstranglegastur fyrir
Ólympíuleikana sem nálguðust óðfluga. Í aðdraganda leikanna meiddist
Johnson hins vegar tvívegis á læri og var efast um að hann myndi ná
fullum styrk fyrir stóru stundina.
Hann hristi hins vegar allt slíkt af sér og átti einstakt hlaup, þar sem
menn eins og Lewis og Linford Christie máttu sín lítils. Eftir hlaupið
stóðst hann ekki mátið að nudda salti í sárin og sagði að helsta takmark
sitt í hlaupinu hefði verið að sigra Carl Lewis. „Ekki að slá heimsmet,
heldur að sigra Carl Lewis og vinna hlaupið.“ Eins og fyrr sagði var
gleðin þó skammvinn. Johnson hélt því lengi fram að efnunum hefði
verið laumað í glas hans fyrir hlaupið og að um samsæri hefði verið að
ræða. Hann játaði þó síðar að hafa neytt lyfjanna og líka þegar hann sló
heimsmetið árið áður, þannig að það var einnig fellt úr gildi.
Johnson reyndi endurkomu árið 1991 en gekk ekki vel. Hann komst
þó á Ólympíuleikana í Barcelona árið eftir en komst ekki upp úr undan-
rásunum. Hann er nú búsettur í Kanada, þar sem hann sinnir þjálfun, en
hann gaf út ævisögu sína í fyrra þar sem hann sparaði ekki stóru orðin,
sérstaklega hvað varðar Carl Lewis. Hans verður þó ætíð minnst sem
alræmdasta svindlara í sögu frjálsra íþrótta eftir hlaupið afdrifaríka
fyrir 23 árum. - þj
Í ÞÁ TÍÐ: 1988
Skammvinn sigur-
gleði Bens Johnson
Spretthlauparinn Ben Johnson var sviptur Ólympíugulli eftir lyfjahneyksli.
Í MARK Kanadamaðurinn Ben Johnson kom
fyrstur í mark í 100 metra hlaupi á Ólympíu-
leikunum árið 1988. Þremur dögum síðar
var hann sviptur titlinum.