Morgunblaðið - 24.12.2008, Side 30
30 FréttirINNLENT
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 24. DESEMBER 2008
HELGIHALD og kirkjusókn hefur
lengi verið tengd jólum hér á
landi, að sögn Ágústs, enda sýnir
það sig að fólk er ákaflega kirkju-
rækið yfir hátíðirnar. „Útvarpið
var stofnað 1930 og strax þá um
jólin var farið að útvarpa aftan-
söng úr Dómkirkjunni,“ segir
hann. „Hann hefur skapað sér al-
veg fastan sess í þjóðarsálinni og
jólahaldi Íslendinga.“
Fyrir þann tíma tíðkaðist helgi-
hald í heimahúsum lengi vel.
„Fólk las upp jólaguðspjallið inni
á heimilinu. Að vísu fór að draga
úr því á síðari hluta 19. aldar en
það lognaðist ekki endanlega út af
fyrr en upp úr 1930. Fyrst dró úr
því í kaupstöðunum enda virðist
þessi heimaguðrækni ekki hafa átt
saman við kaupstaðalíf, en þetta
tíðkaðist lengi vel í sveitunum.“ Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Útvarpsmessan samofin þjóðarsálinni
Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur
ben@mbl.is
Öll höfum við hugmyndir umþað hvernig jólin eiga aðvera og flestir eiga sér sínarjólahefðir sem oft getur ver-
ið erfitt að víkja frá. Jólahefðir Íslend-
inga eru þó flestar tiltölulega nýjar af
nálinni þótt hér hafi verið jólahald allt
frá upphafi byggðar.
„Á Íslandi hafa menn haldið jól til
að minnast fæðingar Krists allt frá
kristni,“ segir Ágúst Georgsson, fag-
stjóri þjóðháttasafns hjá Þjóðminja-
safni Íslands. „Fyrir þann tíma voru
haldin heiðin jól á vetrarsólhvörfum til
að fagna því að skammdeginu væri
lokið og von væri á hækkandi sól. Þau
runnu svo síðar saman við kristin jól.“
Þannig voru jólaveislur haldnar til
forna þar sem menn gerðu vel við sig í
drykk og mat, að sögn Ágústs. „Þá var
tekið fram það besta sem menn höfðu
að bjóða. Og á þeim tíma sem öl var
bruggað í einhverjum mæli á Íslandi
var talað um að menn drykkju jól.“
Sennilega kom hangikjötið snemma
við sögu sem hluti af kosti sem land-
inn þekkir í öðru samhengi. „Það sem
við köllum þorramat í dag var jóla-
matur alveg fram á síðustu öld. Sums
staðar slátruðu menn líka kind – svo-
kallaðri jólaá. Í þá daga var fólki
skammtaður maturinn í aska og yf-
irleitt svo ríflega um jólin að menn
treindu sér hann jafnvel fram yfir
þrettándann.“ Jólagrauturinn, sem
sumstaðar er enn á borðum, á sér
einnig langa sögu. „Það þekkist úr
fornsögum að menn borðuðu graut úr
korni, sem var þá fínni matur, þótt
það tengdist ekki endilega jólum í þá
daga. Árni Björnsson þjóðháttafræð-
ingur bendir einnig á það í bók sinni
Sögu daganna, að svonefndur jóla-
grautur hafi þótti ómissandi sem var
þá ýmist bankabyggsgrautur með sír-
ópsmjólk eða hnausþykkur hrís-
grjónagrautur með rúsínum,“ segir
Ágúst.
Matarhefðirnar héldust nokkuð
óbreyttar allt fram á síðari hluta 19.
aldar. „Þá fór fólk að baka smákökur
og randalínur en þeir siðir komu frá
Danmörku. Það er hins vegar gamall
siður að steikja laufabrauð, en það var
gert úr hveiti og bara á jólunum. Mat-
arvenjur breyttust svo gríðarlega
mikið á síðustu öld þegar ýmiss konar
steikur og ólíkar kjöttegundir urðu al-
gengar.“
Heimasmíðað með lyngi
Ágúst segir þann sið að gefa jóla-
gjafir koma seint til sögunnar. „Ég
veit dæmi um fólk sem fékk ekki jóla-
gjafir fyrr en eftir 1930 en flestir
fengu sumargjafir. Hins vegar heyrði
það til að gefa mönnum eitthvað fata-
kyns fyrir jólin, eiginlega sem ein-
hvers konar launauppbót. Þá eru
heimildir fyrir því að á 19. öld hafi ver-
ið farið að gefa börnum kerti og spil
um jól sem síðan þróaðist út í þessar
hefðbundnu jólagjafir, sem urðu al-
mennar á fyrstu áratugum 20. aldar.“
Þótt okkur þyki jólatréð nokkuð
rótgróin jólahefð upplýsir Ágúst að
það hafi komið tiltölulega seint til sög-
unnar. „Einstaka jólatré, þ.e. lifandi
grenitré, fara að berast hingað á síðari
hluta 19. aldar en urðu ekki algeng
fyrr en upp úr síðari heimsstyrjöld.
Hins vegar var mikið notast við
heimasmíðuð jólatré sem menn
skreyttu gjarnan með lyngi og hengdu
á ýmislegt skraut og jafnvel sælgæti.“
Þá er sá siður, að dansa í kringum
jólatréð einnig síðari tíma uppfinning.
„Hann kemur frá Danmörku á seinni
tíma 19. aldar og segir Árni Björnsson
að þá fari jólatrésskemmtanir að
verða almennar hérna í Reykjavík og
fleiri kaupstöðum.“
Danskir nissar og kókjólasveinn
Grýla, Leppalúði og hyski þeirra
jólasveinarnir hafa verið býsna lengi á
kreiki, ef marka má Ágúst. „Sögurnar
af jólasveinunum ná alveg aftur í aldir
en upprunalega voru þeir barnafælur,
til að hafa krakkana þæga. Síðan fara
þeir að verða fyrir áhrifum frá dönsk-
um jólanissum á síðari hluta 19. aldar
og á 20. öldinni af ameríska jólakarlin-
um. Um 1930 verður eins konar þjóð-
arsátt um jólasveinana, þegar þeir
fara að dúkka upp í barnatímum í út-
varpinu, sem góðhjartaðir karlar sem
færa börnunum epli og appelsínur.“
Hann segir fjölda og nöfn íslensku
jólasveinanna hafa fest sig rækilega í
sessi með jólakvæðum Jóhannesar úr
Kötlum en Þjóðminjasafnið hafi átt
sinn þátt í endurreisn þeirra seint á
tuttugustu öld. „Upp úr 1988 var farið
að skipuleggja heimsóknir jólasvein-
anna á Þjóðminjasafnið þar sem þeir
eru í gömlum fötunum sínum í stað
þess að vera eins og ameríski kók-
jólasveinninn.“ Sá siður að setja skó-
inn út í glugga er einnig tiltölulega
nýr af nálinni en breiddist hratt út eft-
ir miðja síðustu öld, fyrst í Reykjavík
og síðan úti á landi.
Ekki megi spila á jólum
Sú mikla jólahátíð sem við þekkjum
í dag, þar sem allt er meira og minna
undirlagt í veislum, góðum mat,
skreytingum og gjöfum þróaðist
sömuleiðis hratt á seinni hluta 20. ald-
ar. „Ég myndi halda að jólahaldið
hefði verið af miklu meiri hógværð
fram yfir seinna stríð,“ segir Ágúst.
„Það var kreppa og atvinnuleysi á
millistríðsárunum þannig að þetta
fylgir aukinni velmegun á síðari hluta
tuttugustu aldar. Það endurspeglast á
ýmsan hátt, t.d. í útiskreytingum og
jólalýsingu, sem kom ekki til sögunnar
að neinu ráði fyrr en eftir stríð. Jóla-
seríur með ljósaperum fara þó að fást
fyrir stríð, sem menn gátu þá sett á
jólatrén sem þá voru komin.“
En skyldum við hafa gleymt ein-
hverjum jólasiðum, sem Íslendingum
þótti áður ómissandi á jólum? „Það er
frekar þannig að jólasiðirnir hafi auk-
ist,“ svarar Ágúst. „Menn hafa tekið
upp fleiri og fleiri nýja siði en líka þá
gömlu, s.s. skötuát sem hefur farið
mjög í vöxt á síðari árum. Þó eru mat-
arhefðirnar allt aðrar því við borðum
ekki þorramat yfir hátíðirnar og
kannski eimir svolítið eftir af því hjá
einhverjum að ekki megi spila á jól-
unum. Það eru leifar sem innprent-
uðust í okkur í strangtrúnaðinum á
átjándu öld.“
Íslenskar jólahefðir í aldanna rás
Jólagjafir, jólatré, aftan-
söngur og hangiket. Allt
er þetta órjúfanlegur
hluti af jólahaldi lands-
manna en hvað skyldu
siðirnir vera gamlir og
hvaðan koma þeir?
Hlakka til „Um 1930 verður eins konar þjóðarsátt um jólasveinana, þegar þeir fara að dúkka upp í barnatímum í
útvarpinu sem góðhjartaðir karlar sem færa börnunum epli,“ segir Ágúst um bræðurna sem gauka gjöfum í skó.