Morgunblaðið - 27.03.2009, Blaðsíða 20
20
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 27. MARS 2009
Einar Sigurðsson.
Ólafur Þ. Stephensen.
Forstjóri:
Ritstjóri:
STOFNAÐ 1913
Útgefandi: Árvakur hf., Reykjavík.
Aðstoðarritstjóri:
Karl Blöndal.
Útlitsritstjóri:
Árni Jörgensen.
Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á slóðinni http://morgunbladid.blog.is/
Mjög er ábrattannað sækja
hjá sjálfstæð-
ismönnum, sem
hófu landsfund sinn
í gær. Fylgi Sjálfstæðisflokks-
ins í skoðanakönnunum er það
slakasta um margra ára skeið,
eins og niðurstöður könnunar-
innar, sem Morgunblaðið birtir
í dag, sýna vel. Þar mælist Sjálf-
stæðisflokkurinn með um 24%
fylgi, minna en bæði Samfylk-
ingin og Vinstrihreyfingin –
grænt framboð.
Flokkurinn geldur þess að
hafa setið í ríkisstjórn í 18 ár og
stýrt þeirri frjálsræðisþróun,
sem gat af sér hið umsvifamikla
fjármálakerfi Íslendinga sem
nú er hrunið með skelfilegum
afleiðingum.
Sjálfstæðismenn eiga ekki
annan kost við þessar aðstæður
en að ráðast í uppgjör við fortíð-
ina, rýna vandlega í stefnu sína
og áherzlur, skoða hvar mistök
hafi verið gerð – og biðjast af-
sökunar á þeim.
Það gerði Geir H. Haarde,
fráfarandi formaður flokksins, í
setningarræðu sinni á lands-
fundinum í gær. Hann lagði
áherzlu á að flokkurinn gerði
hreint fyrir sínum dyrum og
nálgaðist verkefnið „af fyllstu
auðmýkt“.
Geir viðurkenndi að mistök
hefðu verið gerð, bæði í aðdrag-
anda bankahrunsins og eftir að
það átti sér stað. Hann dró fram
a.m.k. þrennt sem sjálfstæð-
ismenn bæru ábyrgð á. Í fyrsta
lagi að fallast á kröfu framsókn-
armanna um 90% íbúðalán eftir
kosningarnar 2003. Sú ákvörð-
un hleypti af stað óheillavæn-
legri þróun sem sprengdi upp
eignaverð í landinu og leiddi að
lokum til gífurlegrar skuldsetn-
ingar margra heimila sem þau
súpa nú seyðið af. Í öðru lagi
sagði hann tímasetningu skatta-
lækkana á síðasta kjörtímabili
hafa verið gagnrýnisverða.
Þriðju og stærstu mistökin
sagði Geir að hafa ekki staðið
við upphafleg áform um dreifða
eignaraðild þegar ríkisbank-
arnir voru seldir fyrir rúmum
sex árum. Hefðu sjálfstæð-
ismenn haldið fast við upp-
haflega markmiðið væru líkur á
að bankarnir hefðu ekki orðið
jafnsókndjarfir og áhættusækn-
ir og raunin varð. Á þessu baðst
formaður Sjálfstæðisflokksins
hreinskilnislega afsökunar.
„Við hefðum átt að standa öðru-
vísi að málum, vera gagnrýnni í
hugsun, standa við okkar sann-
færingu,“ sagði hann.
Fyrir landsfundi Sjálfstæð-
isflokksins liggur skýrsla svo-
kallaðrar endurreisnarnefndar
flokksins þar sem er að finna
harða gagnrýni bæði á for-
ystumenn flokksins og ein-
stakar ákvarðanir og stefnumál.
Geir H. Haarde benti réttilega á
að aðrir flokkar hefðu ekki ráð-
izt í sambærilegt endurmat. Og
ber þó Sjálfstæðisflokkurinn
ekki einn ábyrgðina
á landstjórninni í
aðdraganda og eft-
irleik bankahruns-
ins.
Formaður Sjálf-
stæðisflokksins ræddi tillögu
Evrópunefndar flokksins sem
er sú að haldin verði svokölluð
tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla
um aðild að Evrópusamband-
inu, þ.e. greidd verði atkvæði
um hvort sækja eigi um aðild og
verði niðurstaðan sú verði hald-
in önnur atkvæðagreiðsla um
aðildarsamning.
Eins og Morgunblaðið hefur
áður bent á felur þessi leið í sér
bæði kosti og galla. Fyrir Sjálf-
stæðisflokkinn hefur hún þann
kost að flokkurinn þarf ekki að
taka efnislega afstöðu til ESB-
aðildar. Forysta Sjálfstæð-
isflokksins virðist ekki treysta
sér í það á þessum erfiðu tím-
um; óttast klofning flokksins.
Og það er að mörgu leyti skilj-
anleg afstaða. En um leið afsal-
ar flokkurinn sér forystu-
hlutverki í einu allra brýnasta
hagsmunamáli Íslands.
Evrópunefndin komst að
þeirri niðurstöðu að ekki væri
búandi við krónuna lengur. Ís-
land þarf sárlega á nýjum gjald-
miðli að halda. Þetta verður
Sjálfstæðisflokkurinn, eins og
aðrir flokkar, að horfast í augu
við. Eina greiðfæra leiðin að
öðrum gjaldmiðli, með stuðn-
ingi öflugs seðlabanka, er aðild
að ESB og upptaka evrunnar.
Innan Sjálfstæðisflokksins eru
ýmsir þeirrar skoðunar að
reyna eigi einhliða upptöku
evru en ekki hefur enn verið
sýnt fram á með sannfærandi
hætti að sú leið sé pólitískt eða
efnahagslega fær. Umræður og
ályktanir flokksins um Evr-
ópumál verða að taka mið af
þessum veruleika ef hægt á að
vera að taka þær alvarlega.
Sjálfstæðisflokkurinn á erfitt
verkefni fyrir höndum. Hans
mikilvægasta hlutverk við nú-
verandi aðstæður í íslenzku
þjóðfélagi felst í því sem Geir H.
Haarde vék að undir lok ræðu
sinnar: „Við þurfum nú að verja
þá einföldu hugmynd sem ég tel
að allir sjálfstæðismenn og
langflestir Íslendingar eigi
sameiginlega; þá hugmynd að
sköpun nýrra verðmæta, úr-
vinnsla nýrra hugmynda og öfl-
un nýrra tækifæra muni ekki
eiga sér stað á kontórum ráðu-
neytanna, í bakherbergjum
stjórnmálaflokkanna eða í
nefndum þingmanna. Þessi
sköpun á sér stað meðal Íslend-
inga sjálfra ef þeir hafa til þess
svigrúm.“
Hættulegustu hugmyndirnar
á Íslandi í dag eru þær sem
ganga út á að ríkisforsjá geti
bjargað okkur út úr kreppunni.
Það var einkaframtakið sem
gerði Íslendinga að vel stæðri
þjóð og án þess að virkja það
munum við ekki ná okkur upp
úr þeim erfiðleikum sem þjóðin
á nú við að stríða.
Geir H. Haarde
viðurkenndi mistök
og baðst afsökunar}
Uppgjörsfundur
É
g var staddur á South by South-
west-tónlistarhátíðinni um síð-
ustu helgi. Hátíðin, sem haldin
er í Austin Texas, er ein sú
stærsta sinnar tegundar í heim-
inum. Það er erfitt að lýsa stærð hennar með
orðum. Opinberar tölur gefa til kynna að um
1.500 hljómsveitir eða tónlistaratriði hafi kom-
ið fram á hátíðinni en í raun er framboðið mun
meira en það. Þessa einu helgi ársins er Aust-
in, sem er ekkert sérlega stór borg á amer-
ískan mælikvarða, algerlega úttroðin af tón-
list. Fjölmargir tónlistarmenn, sem koma ekki
fram á hátíðinni sjálfri, nota tækifærið og
spila á börum bæjarins eða úti á götu. Hátíð-
arhöldin eru að mestu bundin við miðbæinn.
Flestir dagskrárliðir fara fram á svæði sem er lítið
stærra en miðborg Reykjavíkur frá Klapparstíg niður á
Ingólfstorg. Stemningin er vægast sagt yfirþyrmandi.
Úti á götu heyrist ekki mannsins mál því sterkan og
ramman rafmagnsgítarnið leggur yfir allt. Fólkið
streymir í þúsundavís. Allir eru æstir því markmiðið er
að vekja athygli á sér. Tónlistarmenn vilja plötusamn-
inga. Plötufyrirtæki vilja tónlistarmenn. Flestir vilja þó
bara minna á hversu svalir þeir eru. Ekkert kemur
manni á óvart. Á gangstéttinni eru menn á stultum
klæddir í geimbúninga að spila á kassagítara. Við enda
götunnar sést dauðarokkssveit frá Japan fá sér húðflúr á
augnlokin. Niðurstaðan er býsna þrúgandi. Þetta er eins
og ef allur íslenski fiskiskipaflotinn sigldi á
útopnu á Reykjavíkurtjörn.
Á South by Southwest eru samankomnir
svokallaðir „hipsterar“. Það eru manngerðir
sem klæða sig á yfirvegaðan hátt og telja
áunninn og djúpan smekk á tónlist og listum
til sinna einkenna. Eitt helsta einkenni hip-
steranna er þó að þeir vilja ekki telja sig hip-
stera. Hipsterinn er sjálfmiðuð týpa sem tel-
ur sig ávallt einstaka. Samt eru þeir allir
meira og minna eins, og á South by South-
west er það nánast pínlega augljóst. Þeir
spássera um, allir í þröngum fimleikafötum
eða tweed-drifnum dandy-klæðnaði með kol-
svört Wayfarer-sólgleraugu undir ýktri milli-
stríðsáraherraklippingu. Ein helsta iðjan á
hátíðinni er að skoða aðra hipstera og reyna að toppa þá
með enn ýktara útliti. Útlitsrembingurinn nær svo há-
marki á tónlistarsviðum hátíðarinnar. Það er ekki nóg að
vera í flottum fötum og með góða hárgreiðslu. Góð tónlist
er svo jafnvel enn meira aukaatriði. Aðalmálið er að stilla
upp flottum og svölum tækjabúnaði. Sviðsframkoman
hefst áður en fyrstu tónarnir eru slegnir þegar hljóm-
sveitirnar bera inn á sviðið risastór gítareffektabretti og
flókin trommusett. Miklar og háar bassa- og gítarmagn-
arastæður vöktu einnig hrifningu mína. South by South-
west-hátíðin er því bæði fyrir eyru og augu og ég verð
lengi að melta allan þann bræðing sem ég innbyrti þar.
bergur.ebbi.benediktsson@gmail.com
Bergur Ebbi
Pistill
Suður af suðvestri
Meira en þreföld verð-
mæti með fullvinnslu
FRÉTTASKÝRING
Eftir Ágúst Inga Jónsson
aij@mbl.is
S
taðan er einfaldlega þann-
ig að á sama tíma og okk-
ur er ekki hleypt að
samningaborði um
stjórnun makrílveiða
verður réttur okkar traustari,“ segir
Adolf Guðmundsson, formaður
Landssambands íslenskra útvegs-
manna. Hann vísar til þess að árið
2007 veiddu íslensk skip um 35 þús-
und tonn af makríl, en í fyrra varð
aflinn 112 þúsund tonn.
Spurður hvort Íslendingar væru
óbilgjarnir í kröfum sínum, sagði
Adolf að Íslendingar hefðu alltaf
staðið fast á rétti sínum og svo væri í
þessu máli. „Það er alveg klárt sam-
kvæmt hafréttarsáttmálanum að ef
um flökkustofn er að ræða ber að
semja um hann. Makríllinn gengur
inn í íslenska lögsögu, þar með öðl-
umst við veiðirétt og ef Evrópusam-
bandið og Noregur hefðu hleypt okk-
ur að samningaborðinu fyrir tveimur
árum hefði staða okkar verið mun
veikari en hún er í dag,“ sagði Adolf.
Tillit tekið til veiða
til manneldis
Sjávarútvegsráðherra gaf fyrr í
þessum mánuði út reglugerð um
makrílveiðar og er þar miðað við
sama afla og í fyrra, eða 112 þúsund
tonn. Í tilkynningunni segir m.a.:
„Fyrir liggur að mikil verðmæti
liggja í nýtingu markrílstofnsins og
þá ekki síst til manneldis. Á síðasta
ári fóru liðlega 5% af heildarmakríl-
afla íslenskra skipa í vinnslu til
manneldis sem skilar umtalsvert
meiri verðmætum en fari aflinn í
bræðslu og er auk þess meira í anda
sjálfbærrar þróunar.
Er því sérstaklega hvatt til þess af
sjávarútvegs- og landbúnaðarráð-
herra að útgerðir leitist við að vinna
sem mest af makrílafla sínum til
manneldis. Þá er það skoðun ráð-
herra að þegar og ef til úthlutunar
aflahlutdeildar kemur, þurfi að eiga
sér stað málefnaleg umræða, hvort
taka eigi tillit til þess að hvaða marki
veiðiskip hafi eða geti veitt makríl-
afla til manneldis og þá hvort þau
njóti þess sérstaklega við úthlutun.“
Ekki hefur verið gefinn út kvóti á
einstök skip heldur eru veiðar frjáls-
ar innan heildarkvótans. Við fyrri
kvótasetningar hefur aflareynsla
verið notuð til að ákveða aflamark.
Adolf sagði að það gæfi augaleið að
þegar kvóti á skip hefði verið ákveð-
inn legðu menn meiri áherslu á að
hámarka verðmæti. Til að svo mætti
verða þyrfti einnig að breyta skipum
og auka búnað til fullvinnslu um
borð.
Hann sagði að erfitt væri að eiga
við makrílinn á þeim tíma þegar
hann væri í íslenskri lögsögu. Fisk-
urinn væri bráðfeitur og laus í sér og
þyldi illa hnjask sem fylgdi veiðum
og dælingu. Ef Íslendingar fengju
hins vegar ákveðinn kvóta væri hægt
að haga sókn og veiðitíma svo verð-
mæti yrðu mun meiri en nú er.
Sex milljarðar í þjóðarbúið
Spurður hvort það væri réttlæt-
anlegt að setja stærstan hluta makr-
ílsins í bræðslu í ljósi þess að verð-
mæti meira en þrefölduðust í
manneldisvinnslu benti Adolf á að
makríllinn færði þjóðarbúinu um sex
milljarða króna í fyrra „og það eru
mikil verðmæti“.
Stofninn er talinn í góðu ástandi
og hefur vaxið á síðustu árum.
Reiknað er með að makríll gangi inn
í íslenska lögsögu í sumar eins og síð-
ustu ár.
Ljósmynd/Birgir Þórbjarnarson
Makríll ESB og Norðmenn hafa ekki hleypt Íslendingum að stjórn veiðanna,
en göngur makríls inn í íslenska lögsögu hafa aukist mjög og afli sömuleiðis.
Makríll hefur undanfarin sumur
gengið á grunnslóð út af Suðaust-
urlandi og smábátar frá Hornafirði
veiddu makríl til manneldis í fyrra-
sumar. Notaður var langur slóði
með 80 krókum og þegar torfur
fundust tók makríllinn litríka krók-
ana grimmt. Norðmenn veiða tals-
vert af makríl á handfæri, gæðin
eru mikil og afurðin mjög verðmæt.
Miklir markaðir eru fyrir makríl í
Asíu, Evrópu og Norður-Ameríku.
Tilraunir voru gerðar með verk-
un makrílsins á Höfn og var hann
m.a. reyktur og þótti herramanns-
matur. Fitumagn í fiskinum virtist
ekki vandamál.
Ísfélag Vestmannaeyja og Hug-
inn taka þátt í verkefni á vegum
Matís og er m.a. unnið að könnun á
því hvernig flokka má makríl frá
öðrum fiski og hvernig vinnslu
skuli háttað í frystiskipum. Einnig
verða markaðir kannaðir.
MAKRÍLL
Á FÆRI
››