Embla - 01.01.1945, Page 101
IJt við sandinn sefur hafsins alda,
sól er hnígin, kyrrt er nú og hljótt.
Grárri rökkurslæðu fjöllin falda.
I faðm sinn vefur allt hin blíða nótt.
Kona, sem var mikill hestavinur, kvað um dáinn hest, sem hét
Sprettur:
Sprettur þegar spyrnti í völl,
sprettur lrver var unninn.
Sprettur nú í sporin öll.
Sprettur lífs er runninn.
Kuldinn er yrkisefni einnar:
Frost er inni, frost á grund.
Frost um daga og nætur.
Frost er á glugga, frost í lund.
Frost við hjartarætur.
Kona, sem aðstoðaði við að búa Emblu undir prentun, orti
steinuppgefin, síðla kvölds:
Andríkið er orðið tregt
af öllu þessu striti.
Það er ekki þægilegt
að þurfa að skrifa af viti.
*
EMBLA mun framvegis birta lausavísur, sem henni berast. Til-
drög og skýring vísnanna mætti fylgja, ef þurfa þykir. Snjallir vísu-
helmingar og botnar væru vel þegnir, en a. m. k. annar helming-
urinn verður að vera kveðinn af konu.