Saga - 1992, Page 8
6
FORMÁLI
Corgan, sem gerir grein fyrir aðdraganda herverndarsamningsins af
bandarískum sjónarhól. Er niðurstaða hans sú, að ákvörðun Banda-
ríkjastjórnar um að taka að sér hervernd íslands hafi í raun markað
þáttaskil í bandarískri utanríkisstefnu og falið í sér fráhvarf frá arf-
teknum áherslum á því sviði. Hin „tímamótaritgerðin" fjallarum eina
sérkennilegustu uppákomu allra tíma í íslenskum stjórnmálum,
Framboðsflokkinn og þátttöku hans í alþingiskosningunum 1971.
Telja má víst, að þeir lesendur Sögu, sem upplifðu það sjónarspil, hafi
óblandna ánægju af að rifja það upp, en hinir, sem einungis þekkja
atburði þessa af afspurn, eiga þess nú kost að vera leiddir í allan sann-
leika af stýrimanni Framboðsflokksins, Gunnlaugi Ástgeirssyni.
Frá hendi Stefáns Aðalsteinssonar kemur greinin „Blóðflokkar og
menning íslendinga". Þar fer hann yfir fyrri rannsóknir og kenningar
um uppruna íslendinga og ítrekar og undirbyggir frekar sjónarmið
sín í því efni. Þá á hann einnig í ritinu athugasemd við grein Gísla
Sigurðssonar í Sögu 1990. Þá er það ritstjórn óblandin ánægja að birta
ritgerð eftir nestor íslenskra sagnfræðinga, Lúðvík Kristjánsson, en
hann tekur sér fyrir hendur að varpa nýju ljósi á misklíðarefni þeirra
vopnabræðranna Jóns Sigurðssonar og Jóns Guðmundssonar. Lúð-
vík kemur einnig við sögu með öðrum hætti í ritinu, því birt er rit-
fregn um síðustu bók hans Jón Sigurðsson og Geirungar.
Auk þeirrar andmælagreinar, sem áður var getið, hefur bálkurinn
„Andmæli og athugasemdir" að geyma þrjár aðrar greinar. Höfundar
íslandssögukaflans í fslensku alfræðiorðabókinni bregðast við þeirri
gagnrýni, er fram kom á verk þeirra í grein Jóns Ólafs ísbergs, „Hug-
leiðingar um söguskoðun íslendinga", í síðasta bindi Sögu, og Hreinn
Ragnarsson svarar athugasemdum Birgis Sigurðssonar við ritdóm
hans um bókina Svartur sjór af síld. Þá er stutt tilsvar frá Þorleifi Frið-
rikssyni til Stefáns Hjartarsonar.
Ritfregnir eru að þessu sinni níu talsins eftir jafnmarga höfunda.
Ymsir sakna vafalaust umfjöllunar um einstök merkisrit, sem út
komu á sl. ári. Ritstjórn hefur fullan hug á að bæta í næsta bindi úr
því, sem á kann að hafa hallast í því efni. Er þá ekki annað eftir en
biðja lesendur vel að njóta.