Saga - 1992, Page 346
344
RITFREGNIR
ingi, að margt áþekkt hefur verið gefið út. Hún er hins vegar nálægari í tíma.
Ég hefði jafnvel kosið, að Guðmundur fjallaði meira um búskaparár sín á
Egilsá til þess að fram kæmi hvílík bylting hefur orðið í búskaparháttum.
Guðmundur er einmitt af þeirri kynslóð, sem ólst upp við aldagamalt
verklag, en stóð síðan fyrir mestu breytingum, sem orðið hafa í landbúnaði.
f myndaskrá er gerð grein fyrir 273 myndum, sem prýða bókina. Hún er
prentuð í stóru broti, og fyrir vikið njóta margar myndir sín mjög vel (t.d.
bls. 34, 71, 107). Breiðar spássíur eru notaðar undir myndir og myndatexta.
Myndir af fólki og smáhlutum fara þar vel, en spássíurnar henta illa undir
myndir þar sem meira er umleikis, t.d. af ullarmati, bls. 71, og mönnum með
fjárhóp, bls. 98; sumar verða óþægilega litlar (bókarhöfundur, bls. 46; bls.
211).
Sögusvið bókar er að mestu Egilsá og næsta nágrenni, en myndir í bókinni
eru víða að, flestar þó úr Skagafirði. Flestar myndirnar fara vel, en sumar
trufla lesanda, t.d. mynd frá Holtamannaafrétti fyrir ofan fyrirsögn um Egils-
ár- og Tunguréttir (bls. 21) og myndir af ullarlest á Eyrarbakka og konum að
þurrka ull á Víðivöllum í Blönduhlíð (bls. 242). Dæmi um hið gagnstæða er
mynd frá sauðfjárslátrun á Húsavík með texta úr bók Theodórs Friðrikssonar
um slátrun á Sauðárkróki (bls. 26). Mergurinn málsins er vitaskuld sá, að
verklag og aðstæður voru í mörgum greinum að mestu með sama móti um
land allt. Það á t.d. við um myndirbls. 112-13 (vettlingar, íleppar, skór), bls.
151 (flutt heim af túni) og bls. 238 (færikvíar). Margar myndir virðast teknar
sérstaklega fyrir útgáfuna (t.d. bls. 28-9, 117-21). Þær fara vel.
Myndatextar eru ítarlegir, og þeir eru yfirleitt ekki sóttir beint í meginmál-
ið, heldur eru því til stuðnings og segja sína sögu. Að baki þeirra liggur mikil
vinna.
Skrár eru á 48 síðum í bókarlok og auðvelda lesendum að fletta upp í rit-
inu. Þær eru ítarlegar, og við dálitla athugun kom í ljós, að þægilegt er að
vinna með atriðisorðaskrá.
Örn og Örlygur hafa mörg undanfarin ár gefið út af stórhug bækur með
þjóðlegum fróðleik. Meðal þeirra eru Daniel Bruun: íslenskt þjóðlíf íþúsund ár
(Rvk 1987) og W.G. Collingwood: Fegurð íslands og fornir sögustaðir (Rvk
1988). Þjóðlíf og þjóðhættir er prentuð í sama broti og þessi rit, og hið innra er
hún sniðin eftir bók Bruuns. Öll eru þessi rit í öskjum og bókarspjöld, kjal-
gylling og -skraut með sama móti. Því mætti ætla, að þetta væru skyld rit, en
svo er ekki. Þau eru til orðin á ólíkum forsendum þótt öll fjalli um íslenzka
menningu og sögu. Að mínu mati er því óheppilegt að tengja þau saman
með þessum hætti.
Guðmundur tileinkar bókina minningu Ásgeirs S. Björnssonar cand.
mag., sem lést í blóma lífsins. Hann hvatti Guðmund til þess að skrifa ekki
„um annað en það sem þú þekkir" (bls. 9). Afraksturinn er þessi bók, og það
vekur í senn furðu og aðdáun, að höfundur skuli vera hálfníræður. Ég tel, að
þetta rit verði notadrjúgt þeim, sem vilja rannsaka alþýðumenningu 1
íslenzkri sveit á fyrstu áratugum þessarar aldar. Ég rakst á fáar prentvillur,
og alls staðar mátti lesa í málið.
Sölvi Sveinsson