Saga - 1992, Page 358
356
RITFREGNIR
svipta hulu af sögu alþýðufólks, kvennarannsóknir eru að skapa sér sess og
rannsóknir á bernskusögu og á sögu þurfamanna eru að taka á sig mót. Með
þessum hætti varpar sagnfræðin nýju ljósi á íslenskt þjóðlíf og íslenska
menningu. Saga fatlaðs fólks hér á landi hefur til þessa verið utanveltu enda
fellur sú saga lengst af í líkan farveg og saga þurfamanna, enda ekki langt
síðan farið var að greina fatlaða frá öðrum þurfamönnum samkvæmt íslensk-
um lögum. Að svo miklu leyti sem fatlað fólk þurfti sérstaka aðstoð til fram-
færslu giltu sömu ákvæði um það og um aðra ómaga og utangarðsfólk fram
undir 1935.1
1 manntölum allt frá 1703 má víða finna upplýsingar um fatlað fólk og á 19.
öldinni var prestum gert að safna upplýsingum um blinda, daufdumba og
síðar holdsveika.2 Fyrstu skýrslur um blinda eru frá árunum 1804-05 og síð-
an frá 1836-90. Pá geyma prestþjónustubækur og sóknarmannatöl stundum
upplýsingar um fatlað fólk, kunnáttu þess og aðstæður, þótt víða séu glopp-
ur í þeim gögnum. Ekki virðist mikið hafa verið gert við þessar upplýsingar
á sínum tíma, en þær bíða rannsókna sagnfræðinga.
Saga blindra eftir Pórhall Guttormsson er brautryðjandaverk. Bókin er
vönduð að allri gerð og mikill fengur fyrir þá sem halda vilja áfram að kanna
sögu fatlaðs fólks á þessu landi, sem og fyrir blinda, aðstandendur þeirra og
almenna lesendur sem fræðast vilja um aðstæður blindra og baráttu þeirra
fyrir bættu lífi. Höfundur skrifar fagra og tilgerðarlausa íslensku.
Bókin skiptist í ellefu kafla sem falla í þrjá meginfarvegi en byggja ekki
beinlínis hver á öðrum. Fyrstu fimm kaflarnir eru skemmtilegir aflestrar og
áhugaverðir fyrir allan þorra lesenda. Pá eru þeir vel til þess fallnir að kveikja
áhuga þeirra sem eru forvitnir um félagssögu. Síðari hluti bókarinnar fjallar
um Blindravinafélagið, íslenska blindraskólann og Blindrafélagið og loks
ýmsar umbætur í þjónustu við blinda á íslandi síðastliðna hálfa öld. Pessi
hluti bókarinnar er merkilegt framlag til varðveislu ýmissa upplýsinga um
menn og málefni sem sett hafa svip sinn á hagsmunabaráttu blindra á ís-
landi. Þær upplýsingar höfða væntanlega meira til blindra sjálfra, ekki síst til
nýblindra, og samherja þeirra í baráttu fyrir bættum hag en til hins almenna
lesanda.
í fyrsta kaflanum er leitast við að veita lesandanum innsýn í reynsluheim
blindra. Kaflinn byggir á viðtölum við fólk á ýmsum aldri. Sá elsti sögu-
manna er fæddur 1903 en sá yngsti 1967. Þetta fólk missti sjón með ólíkum
hætti og á mismunandi aldri. Þá ræddi höfundur við móður blindra tvíbura-
stúlkna, er fæddust 1977. Þetta er einn merkilegasti kafli bókarinnar.
Höfundi tekst að ná fram einlægri og trúverðugri mynd af lífsreynslu og við-
horfum fólks sem á það sameiginlegt að búa í myrkri og bera stimpil blindu.
Vel hefur tekist við val á sögumönnum. Þeir búa við margs konar aðstæður,
vinna fjölbreytt störf og hafa ólíka menntun, reynslu og viðhorf. Fötlunin
hefur sett lífi þessa fólks misþröngar skorður.
1 Gísli Ágúst Gunnlaugsson: Ómagar og utangarðsfólk. Rvk 1982.
2 Lovsamling for lsland 12: 258, 6: 658, 18: 596-97, 21: 439-40.