Organistablaðið - 01.12.1977, Page 7
óhætt má segja, að hann hafi verið aðaldriffjöðrin í söngmálum Hnífs-
dælinga um áratuga skeið.
Þegar ég tók við ísafjarðarprestakalli á haustdögum 1942 voru
margar ágætar söngraddir í Hnífsdal. Eru mér m. a. í minni þeir
Páll Pálsson, útvegsbóndi og Magnús Guðmundsson, vélstjóri. Voru
þeir báðir bassamenn miklir og hefðu raddir þeirra sómt sér vel í
hvaða kór sem var í veröldinni.
Árið 1946 var stofnaður formlega blandaður kór í Hnífsdal, Sam-
kór Hnífsdælinga. Við stjórn hans tók Kristján. Hefur hann verið
við lýði allt til þessa dags. Og hvarvetna þar sem tekið var lagið
við ýms tækifæri í Hnífsdal var Kristján stjórnandi og undirleik-
ari og örfaði til söngs.
Víða við Djúp, sem mjög er áberandi í dreifbýlinu, var mikill
skortur á organleikurum við guðsþjónustuhald og aðrar kirkjulegar
athafnir svo sem jarðarfarir. Var þá oft leitað til Kristjáns að hlaupa
þar undir bagga, og ávalt var hann reiðubúinn að gegna þar kalli,
enda maðurinn hið mesta lipurmenni, sem vill hvers manns vanda
leysa. Pví á ég líka ljúfar minningar um samstarfið við hann, sem
einnig átti sér stað utan heimabyggðar.
Þótt hér hafi verið í fáum dráttum dregin upp svipmynd af
Kristjáni sem organleikara, þá vil ég þess geta að á hann hlóðust
ýmis félagsstörf. Hann var tvívegis hreppsstjóri byggðarlags síns,
hreppsnefndarmaður, safnaðarfulltrúi, í stjórn Sambands vestf. kirkju-
kóra. Og ekki skal því gleymt, að hann tók þátt í leikstarfsemi
byggðarlags síns og átti þar góð tilþrif á sviði. Hann var því ekki
við eina fjöl felldur í þjónustu sinni við samfélag sitt.
Kristján er tvíkvæntur. Fyrri kona hans, Sigríður Kjartansdóttir,
var samkennari hans lengst af sambúð þeirra, en hún lézt fyrir aldur
fram. Þau hjón eignuðust fimm mannvænleg börn. Síðari kona hans
er Helga Jónsdóttir, austfirzk að ætt. En hér með vil ég nú nota
tækifærið og senda hinum aldna samstarfsmanni mínum um áratuga
skeið kveðju mína og konu hans og þakka fyrir góð og gömul kynni.
Vil ég þakka samstarf í heimi tóna og tilbeiðslu og þann einlæga
vilja, sem kom fram í organleikarastarfi Kristjáns, þar sem ekki var
horft til launa, en undirródn að þjóna hinni göfugu gyðju, sönglist-
inni og samborgurum sínum um leið, en slíkir menn eru ómissandi
í hverju byggðarlagi.
Sig. Kristjánsson.
ORGANISTABLAÐIÐ 7