SunnudagsMogginn - 06.02.2011, Blaðsíða 36

SunnudagsMogginn - 06.02.2011, Blaðsíða 36
36 6. febrúar 2011 L eikarinn Paul Newman lék í 58 kvikmyndum og hlaut verðlaun og viðurkenningar fyrir leik sinn. Hann var 10 sinnum tilnefndur til Óskarsverðlauna og hlaut þau árið 1986 fyrir leik sinn í myndinni Color of Money. Hann lést árið 2008, 83 ára gamall og auðvitað hlaut ævisaga hans að verða skrifuð. Kvikmyndagagnrýnandinn Shawn Levy tók að sér verkið. Hann var reyndar byrjaður á ævisögunni meðan Newman var enn á lífi. Þá lét Levy sig dreyma um að hitta Newman en leikarinn hafði alls engan áhuga á að ævi sín yrði skráð og neitaði allri samvinnu. Það gerði fjölskylda Newman sömuleiðis. En Levy hélt ótrauður áfram og sendi frá sér bókina Paul Newman – A Life, sem er skrifuð af mikilli hlýju og virðingu í garð leikarans. Bókin hefur fengið einkar góða gagnrýni og vakið athygli því þar er að finna nýjar upp- lýsingar um einkalíf leikarans. Paul Newman þreyttist á því að segja að velgengni sín í lífinu stafaði af heppni. Hann bjó að góðum bakgrunni, faðir hans stundaði verslunarrekstur og fjölskyldan bjó við fjár- hagslegt öryggi. Hann lærði leiklist, lék á Broad- way og fékk hlutverk í kvikmyndum. Árið 1949, 24 ára gamall kvæntist hann ungri leikkonu og fyrirsætu, Jaqueline. Á skömmum tíma eign- uðust þau son og tvær dætur. Sonurinn Scott var strax sem barn afar erfiður og fékk skapofsaköst sem ekki varð ráðið við. Leikferill Newman tók tíma frá fjölskyld- unni og hann eyddi æ minni tíma heima við. Hann kynntist ungri leikkonu Joanne Woodward og varð gagntekinn af henni. Newman hafði verið í hjónabandi í átta ár, átti þrjú ung börn og var hættur að elska konu sína. Kona hans var treg til að slíta hjónabandinu en samþykkti það þó loks. Newman og Woodward gengu í hjónaband sem varð einkar far- sælt, þótt ekki hafi það verið áfalla- laust. Ástríkt hjónaband Joanne Woodward sagði að það hefði styrkt samband þeirra að þau hefðu verið vinir áður en þau urðu elskendur. Hún sagði að á milli þeirra ríkti fullkomið traust og þau gætu sagt hvort öðru allt. Á marg- an hátt voru þau andstæður. Hann gekk yfirleitt illa til fara, var með bíladellu og sagði lélega brandara, var mikill drykkjumaður, átti til að drekka bjórkassa á dag og fá sér síðan viskí. Hún var fáguð kona sem hafði ástríðufullan áhuga á ballett. Hann leit út eins og grískur guð og var kyntákn en hún var fremur hversdagsleg í útliti. Almennt var hún talin betri og hæfi- leikaríkari listamaður en hann. Hún hlaut Óskarsverðlaun fyrir leik sinni í kvikmyndinni Three Faces of Eve, en dró mjög úr vinnu eftir hjónabandið og kaus helst að vinna með eiginmanni sín- um sem leikstýrði henni í nokkrum myndum. Bæði voru jarðbundin og laus við stjörnustæla. Þau eignuðust saman þrjár dætur og bjuggu í Connecticut. Þegar Newman var eitt sinn spurður um framhjáhald varð svar hans fleygt: „Af hverju að fara út í bæ að fá sér hamborgara þegar maður fær steik heima.“ Eiginkona hans var ekki ýkja hrifin af þessu tilsvari hans og skammaði hann fyrir að hafa líkt sér við kjötstykki. Enginn vafi er á því að hjónaband Newman og Woodward var haminguríkt og á gullbrúð- kaupsdegi þeirra sagði hann að gleði sín í lífinu fælist í því að hafa kvænst henni. Eftir ellefu ára hjónaband fór hann þó illilega út af sporinu og átti í ástarsambandi við Nancy Bacon, blaðamann í Hollywood. „Hann var alltaf fullur þegar við hittumst,“ sagði Bacon seinna. Newman og eiginkona hans ræddu aldrei opinberlega um þetta tímabil. Eina skiptið sem Newman komst nálægt því var þegar hann sagði að hann hefði gert hluti í lífinu sem hann væri ekki stoltur af. Með árunum varð hann mjög háður konu sinni og ef hún birtist óvænt var eftir því tekið að hann fór að ljóma um leið og hann sá hana. „Hann er kynlegur kvistur í þessum bransa. Hann elskar konuna sína raunverulega,“ sagði leikstjórinn Otto Preminger. Fjölskylduharmleikur Newman átti einn son og fimm dætur. Hann sagðist eitt sinn ekki hafa nokkra hæfileika til að vera faðir. Það var ekki auðvelt fyrir börn hans að eiga stórstjörnu fyrir föður. Erfiðast var það fyrir son hans, Scott. Scott hafði allt frá fæðingu verið erfiður. Systir hans Susan sagði að hann hefði verið vandræða- barn. „Frá tólf ára aldri trúði ég því að Scott myndi ekki verða gamall maður,“ sagði hún. Scott byrjaði snemma að drekka og nota fíkni- efni. Hann reyndi fyrir sér í leiklist og fékk smá- hlutverk í kvikmyndum. Hann var tættur og óhamingjusamur ungur maður sem lifði í skugga föður síns. Scott lést skyndilega 28 ára gamall af völdum of stórs skammts af áfengi og fíkniefn- um. Dauði hans var Newman gríðarlegt áfall og hann kenndi sjálfum sér um. Mikilvæg arfleifð „Stundum velti ég því fyrir mér hvað ég hef afrekað. Ég er frægur, nokkuð sem mig langaði aldrei til, ég hef eignast mikla peninga, nokkuð sem ég hef ekk- ert á móti. En hvað hef ég afrekað? Það að verða bandarískt kyntákn? Ég er ekki vansæll. Ég er bara ekki ham- ingjusamur,“ sagði Newman. Hann fann vissa lífsfyllingu í kappakstri og vann til verðlauna í þeirri grein. Hann sneri sér líka að matvælaframleiðslu, sendi frá sér sósur, poppkorn og fleira og seinna lífrænt ræktuð mat- væli. Ágóðinn, sem var gríðarmikill, rann til góðgerðarmála. Árið 1988 risu fyrir hans tilstilli sumarbúðir fyrir krabbameinssjúk börn. Þar var bæjarkjarni í stíl villta vestursins, þar voru dýr og börnin gátu synt og veitt fisk. Á tveimur áratugum dvöldu í þessum búðum 120.000 börn frá Bandaríkjunum og 28 öðr- um löndum og svipaðar búðir voru reistar í öðrum löndum. Newman heimsótti búðirnar, fór á veiðar með krökkunum, sagði þeim sögur og brandara og söng með þeim við varðelda. Búðirnar voru það sem hann var stoltastur af og hann sagðist vilja að þær yrðu það sem hans yrði minnst fyrir, þær væru arfleifð hans. Oft var haft á orði að Newman virtist ekkert eldast þótt árin liðu. Eiginkona hans sagði eitt sinn: „Hann varð 29 ára og hélt áfram að vera 29 ára meðan ég eltist og eltist og eltist.“ Krabbamein fangaði Newman að lokum og á skömmum tíma lét hann mjög á sjá. Hann lést árið 2008 á heimili sínu, 83 ára gamall. Kyntákn og mannvinur Paul Newman lét sér á sama standa um frægð og frama. Eftir fjölskylduharmleik, sem dundi yfir þegar hann var á hátindi frægðarinnar, ákvað hann að láta gott af sér leiða og skapaði sína arfleifð. Kolbrún Bergþórsdóttir kolbrun@mbl.is

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.