Morgunblaðið - 06.05.2010, Page 15
Fréttir 15ERLENT
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 6. MAÍ 2010
Eftir Karl Blöndal
kbl@mbl.is
FORYSTUMENN bresku stjórn-
málaflokkanna komu víða við í gær á
síðasta degi kosningabaráttunnar og
gerðu allt sem þeir gátu til að höfða til
kjósenda. Síðustu skoðanakannanir
fyrir kosningar sýndu að í raun getur
allt gerst þegar kjósendur ganga til
atkvæða í dag. Samkvæmt einni
þeirra höfðu um 40% kjósenda ekki
enn gert upp hug sinn. Langt er síðan
jafnmikil óvissa hefur ríkt um úrslit
kosninga á Bretlandi.
Síðasta könnunin, sem var birt, var
gerð af Populus fyrir dagblaðið The
Times og benti hún til þess að Íhalds-
flokkurinn hefði níu prósentustiga
forskot á Verkamannaflokkinn. Sam-
kvæmt henni er Íhaldsflokkurinn
með 37% fylgi, Verkamannaflokkur-
inn með 28% og Frjálslyndir demó-
kratar með 27%.
Samkvæmt könnun ComRes fyrir
fréttastofuna ITV og dagblaðið The
Independent er Íhaldsflokkurinn
með 37%, Verkamannaflokkurinn
29% og Frjálslyndir demókratar með
26%. Gengi þetta eftir fengi Íhalds-
flokkurinn 289 sæti á þingi, Verka-
mannaflokkurinn 258, en Frjálslyndi
flokkurinn aðeins 75. Samkvæmt
þessari könnun eru 40% kjósenda
óákveðin, en frammámenn í Verka-
mannaflokknum sögðu að rannsóknir
flokksins bentu til þess að aðeins 20%
væru óákveðin og héldu þeir því fram
að helmingur þeirra, sem segðust
ætla að kjósa frjálslynda, hefðu enn
ekki fyllilega gert upp hug sinn.
Ekki eru neinar ákveðnar reglur til
um það hvað skuli gera nái enginn
flokkur meirihluta í kosningunum.
Undir venjulegum kringumstæðum
færu stjórnarskipti fram um leið og
úrslitin eru ljós, en þurfi að mynda
samsteypustjórn mun Gordon Brown
sitja áfram þar til hún hefur verið
mynduð.
Mikil umræða hefur verið um kosn-
ingafyrirkomulagið í Bretlandi fyrir
þessar kosningar og er ljóst að henni
mun ekki linna að þeim loknum. Í
Bretlandi eru einmenningskjördæmi
og sætafjöldi flokka á þingi er því iðu-
lega ekki í neinu samhengi við fylgi
þeirra. Þetta hefur sérstaklega átt við
um Frjálslynda demókrata.
Þá er algengt að Verkamanna-
flokkurinn vinni nauma sigra, en
Íhaldsflokkurinn með miklum mun.
Íhaldsflokkurinn gæti því hæglega
fengið mun meira fylgi en Verka-
mannaflokkurinn, en færri sæti á
þingi. Frjálslyndir virðast víða munu
verða í öðru sæti þannig að mikill
fjöldi þeirra atkvæða mun ekki nýt-
ast. Hvort þessi staða mun leiða til
þess að breytingar verði gerðar á
breska kosningakerfinu er annað mál,
en líklegt er að frjálslyndir verði í lyk-
ilstöðu til að knýja fram uppstokkun á
því.
Óvissa á lokasprettinum
Allt bendir til þess að enginn flokkur nái meirihluta þegar Bretar ganga að kjörborðinu í dag
Einmenningskjördæmi gera það að verkum að fylgi flokkanna og fjöldi þingsæta fara ekki saman
Reuters
Hreinsað til Götusópari var að störfum fyrir utan bústað breska forsætisráðherrans að Downing-stræti 10 í gær.
Bretar ákveða í dag hver mun búa þar næsta kjörtímabil og er langt síðan jafn óvíst hefur verið um úrslit.
Í HNOTSKURN
» Íhaldsflokkurinn gætifengið hreinan meirihluta.
Til þess þarf hann 326 sæti í
neðri deild þingsins og er ólík-
legt að hann nái því.
»Nái Íhaldsflokkurinn 310sætum gæti hann myndað
stjórn án þess að leita til
Frjálslyndra demókrata.
» Íhaldsflokkurinn gætifengið meira fylgi en færri
þingsæti en Verkamanna-
flokkurinn. Í gær sýndu kann-
anir að Íhaldsflokkurinn fengi
35% atkvæða og 270 sæti, en
Verkamannaflokkurinn 29%
atkvæða og 272 sæti. Íhalds-
flokkurinn gæti þó myndað
stjórn með frjálslyndum.
»Fengi Verkamannaflokk-urinn mest fylgi án þess að
ná meirihluta gæti hann reynt
að mynda stjórn með Frjáls-
lyndum demókrötum og halda
völdum fjórða tímabilið. Það
gæti þó kostað Gordon Brown
forsætisráðherrastólinn því að
Nick Clegg, leiðtogi frjáls-
lyndra, hefur sagt að það sé
skilyrði fyrir samstarfi að
Brown fari frá.
GORDON Brown forsætisráðherra gerði í gær úrslita-
tilraun til að telja kjósendur á að tryggja sér áframhald-
andi völd með því að kjósa Verkamannaflokkinn. Hann
sagði í viðtali við BBC síðdegis í gær að hann hefði
„dómgreindina og gildin“ til að taka erfiðar og mik-
ilvægar ákvarðanir. Á kosningafundi í Bradford sagði
Brown að stjórn Íhaldsflokksins myndi steypa Bretlandi
í kreppu með loforðum um mikinn niðurskurð. „Ég er
baráttumaður, ég gefst ekki upp,“ sagði Brown. „Ég er
ekki að berjast fyrir mig, heldur framtíð Bretlands,“
sagði hann.
Tveir ráðherrar úr Verkamannaflokknum hafa skor-
að á stuðningsmenn flokksins að sýna kænsku í þeim
kjördæmum þar sem þeirra frambjóðendur eiga ekki möguleika og greiða
atkvæði sitt frekar Frjálslyndum demókrötum til að koma í veg fyrir að
Íhaldsflokkurinn næði meirihluta. Brown játti því í gær að sums staðar
væri slagurinn á milli frjálslyndra og íhaldsmanna, en sagði að hann vildi
að allir stuðningsmenn Verkamannaflokksins kysu flokkinn.
Úrslitatilraun Browns
Úrslitastund
Gordon Brown í
Bradford.
DAVID Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins, unni sér ekki
hvíldar síðasta sólarhring kosningabaráttunnar. Hann
var á þönum alla aðfaranótt miðvikudagsins og talaði
við fólk á næturvaktinni í Lancashire, Yorkshire og víð-
ar. Hann sagði í gær að í hönd færu „mikilvægustu kosn-
ingarnar í heila kynslóð“.
Cameron var spurður um hið nauma forskot, sem
Íhaldsflokkurinn hefur samkvæmt skoðanakönnunum.
„Ég sagði aldrei að þessar kosningar yrðu auðveldar,“
svaraði hann. „Kosningar eiga að vera ögrun. Breska
þjóðin færir þér ekki stjórnartaumana á fati, hún lætur
okkur með réttu vinna fyrir þeim.“
Íhaldsflokkurinn reyndi í fyrradag að höfða til stuðn-
ingsmanna Frjálslyndra demókrata með því að birta myndband þar sem
minnt var á að Tony Blair hefði dregið bresku þjóðina í Íraksstríðið. Frjáls-
lyndir demókratar hafa reynt að slá sér upp á því að þeir lögðust gegn inn-
rásinni í Írak. Íhaldsflokkurinn gagnrýnir Verkmannaflokkinn í mynd-
bandinu fyrir að hafa beitt blekkingum í aðdraganda Íraksstríðsins.
Kosningabarátta án hvíldar
Næturvakt Came-
ron á fiskmarkaði í
Grimsby.
NICK Clegg, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, skoraði í
gær á kjósendur að treysta „sinni betri vitund“ og kjósa
flokk sinn, kosningarnar í dag væru „okkar tækifæri“.
Stjarna Cleggs reis á einni nóttu í bresku kosninga-
baráttunni eftir frammistöðu hans í fyrstu sjónvarps-
kappræðum leiðtoga stóru flokkanna þriggja í breskri
pólitík af þremur.
Clegg sagði í ávarpi í Eastbourne að kjósendur gætu
valið á milli hinna „gömlu stjórnmála fortíðarinnar og
nýrra, öðruvísi stjórnmála framtíðarinnar“. Hann bætti
við að veittu kjósendur honum stuðning sinn myndi hann
„vinna þrotlaust að því að efla sanngirni“ í bresku sam-
félagi.
Allt útlit er fyrir að flokkur Cleggs vinni sinn stærsta sigur frá upphafi í
kosningunum í dag. Fari svo að enginn flokkur fái meirihluta verða frjálsir
demókratar í lykilstöðu. Clegg hét því í gær þegar hann var spurður hvort
hann myndi berjast fyrir hlutfallskosningu að hvernig sem kosningarnar
færu myndi hann leggja áherslu á sanngjarnara kosningakerfi.
Kjósendur treysti betri vitund
Lokasprettur Nick
Clegg í Sheffield.
FRAKKAR og
Spánverjar eru
komnir í hár sam-
an um framtíð-
arfiskveiðistefnu
Evrópusam-
bandsins. Spán-
verjar, sem eru
með stærsta fisk-
veiðiflota Evr-
ópu, styðja það að
komið verði á fót
markaði í Evrópu með fiskveiðirétt-
indi á óformlegum fundi sjáv-
arútvegsráðherra ESB í Vigo á
Spáni í gær. Slíkt kerfi myndi opna
fyrir kvótaviðskipti.
„Í dag eru fiskveiðar einn þeirra
geira, sem ekki lúta öllum reglum
innri markaðarins,“ sagði Javier Ga-
rat, forsprakki samtaka spænskra
sjómanna, í gær.
Frakkar leiða þær þjóðir, sem eru
á móti framseljanlegum kvóta á
vettvangi Evrópusambandsins.
Þeirra á meðal
eru meira að segja
þjóðir á borð við
Hollendinga, Dani
og Eista, sem þeg-
ar hafa komið
slíku kerfi á heima
fyrir. Fulltrúar
þeirra telja að
yrði slíku kerfi
komið á í Evrópu-
sambandinu
myndi það leiða til þess að kvóti
þeirra lenti í höndum erlendra út-
gerða auk þess sem búast mætti við
óæskilegri samþjöppun.
Kvótakerfið í Danmörku hefur
leitt til þess að á þremur árum hefur
fiskveiðiflotinn minnkað um þriðj-
ung. Það hefur einnig haft góð áhrif í
Eistlandi og Hollandi.
Sjávarútvegsstefna Evrópusam-
bandsins er endurskoðuð á tíu ára
fresti og á þessari endurskoðun að
ljúka á næsta ári.
Deilt um framselj-
anlegan kvóta
Ósætti Hugmyndir um framselj-
anlegan kvóta valda deilum í ESB.
Rannís boðar til kynningar á Rannsóknasjóði í tengslum við næsta umsóknarfrest 1. júní
2010. Farið verður yfir hlutverk sjóðsins, þá styrkmöguleika sem eru í boði auk þess sem
fjallað verður um umsóknir og mat þeirra. Í lokin verða fyrirspurnir og umræður.
Hlutverk Rannsóknasjóðs er að styrkja vísindarannsóknir á Íslandi. Sjóðurinn styrkir
skilgreind rannsóknaverkefni einstaklinga, rannsóknahópa, háskóla, rannsóknastofnana
og fyrirtækja.
Kynningin fer fram á Grand Hótel Reykjavík 4. hæð
og hefst kl. 9:00. Léttur morgunverður í boði
fyrir fundargesti frá 8:30.
Skráning á rannis@rannis.is
Rannsóknasjóður
Kynningarfundur 7. maí kl. 9:00-11:00
Laugavegi 13, 101 Reykjavík
sími 515 5800, rannis@rannis.is
www.rannis.is