Morgunblaðið - 17.12.2010, Side 21
21
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 17. DESEMBER 2010
Sæt sátt á þingi Það er engum blöðum um það að fletta að sælla er að gefa en þiggja. Þetta vita þingmenn þótt þeir deili um margt annað, til að mynda fjárlög, Icesave og Evrópusambandið.
Ernir
Það var mikil fram-
för 1968 þegar sum-
artími var tekinn upp
allt árið á Íslandi.
Fólk var orðið mjög
þreytt á „hringlinu
með klukkuna“, þegar
henni var seinkað á
haustin en flýtt á vor-
in. Eftir breytinguna
hafa svo að segja eng-
ar óánægjuraddir
heyrst, enda naut
landslýður klukku-
tíma lengra sólskins
síðdegis á vorin,
sumrin og haustin,
eins og áður.
Það er von að þeir
sem voru rétt ófæddir
eða fæddir fyrir fjöru-
tíu árum muni þetta
ekki. Og nú hafa fjór-
tán þingmenn lagt til
að klukkunni verði
seinkað um klukku-
stund allt árið.
Rökin eru einna
helst þau að skólafólk
sem mætir klukkan 8
verði þá ekki eins
syfjað og sljótt í námi
sínu. Að vísu verður þá orðið bjartara en ella,
en hins vegar vakir þetta fólk þá klukkutíma
lengur fram eftir kvöldi, eins og aðrir, svo að
vinningurinn verður harla lítill og morgnar
nemendanna verða álíka óþolandi og fyrr. Og
svo mundi síðdegismyrkrið dapurlega auðvit-
að skella á klukkutíma fyrr en áður, meðal
annars með auknum vanda í umferðinni þeg-
ar heim skal halda eftir erfiði dagsins.
Þetta er því fremur vanhugsuð tillaga. En
skólafólki væri miklu meiri greiði gerður með
því að seinka hreinlega fyrstu kennslustund
um klukkutíma, svo að vinnutími nemenda
yrði sambærilegur við flesta aðra landsmenn.
Þá gætu allir vel við unað, bæði nemendur og
aðrir sem njóta þá sumarsins eins vel og áð-
ur.
Leiðið nú hugann að þessu, ágæta mið-
aldra fólk á Alþingi, og vendið ykkar kvæði í
kross.
» Skólafólki
væri meiri
greiði gerður
með því að
seinka fyrstu
kennslustund
um klukku-
tíma, svo
vinnutími
nemenda yrði
sambærilegur
við flesta
aðra.
Páll Bergþórsson
Höfundur er veðurfræðingur og rithöfundur.
Gagnslítil
klukku-
seinkun
Eftir Pál
Bergþórsson
Í kjölfar fjármálahrunsins í október 2008
voru tekin upp gjaldeyrishöft á Íslandi. Við þær
aðstæður sem þá ríktu var þessi aðgerð að
sumu leyti skiljanleg, þótt við höfum efasemdir
um að þetta hafi verið besta leiðin. Gengi krón-
unnar hafði fallið mjög, vantrú á peningastjórn-
inni og þar með gjaldmiðlinum var mikil og því
áhöld um hvar gengislækkunin myndi enda.
Ljóst var að gjaldeyrishöft væru tiltölulega
auðveld og örugg leið fyrir Seðlabankann og
Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að ná tökum á
ástandinu.
Þjóðinni var sagt að gjaldeyrishöftin væru
einungis tímabundin bráðabirgðaráðstöfun (sjá
t.d. tilkynningar SÍ 10. okt. 2008 og 28. nóv.
2008) sem standa myndi í nokkrar vikur eða
mánuði og alls ekki til frambúðar. Annað hefur
komið á daginn. Í stað þess að slaka á gjaldeyr-
ishöftunum hefur verið hert á þeim (sjá Seðla-
banki Íslands 5. ágúst 2009).
Höftin eru að festast í sessi
Núna, tveimur árum eftir að gjaldeyrishöftin
voru tekin upp, sýnast þau fastari í sessi en
nokkru sinni fyrr. Efnahagsstefna ríkis-
stjórnarinnar byggist á tilveru þeirra. Án
gjaldeyrishafta væri t.a.m. ekki unnt að sækja
jafnhart að eignum landsmanna með skatt-
heimtu. Atvinnu- og fjármálalíf hefur lagað sig
að þeim.
Gjaldeyrishöftin hafa nú þegar myndað nýj-
an, óarðbæran, atvinnuveg. Fjöldi manna vinn-
ur hjá hinu opinbera við framkvæmd þeirra og
eftirlit. Ef að líkum lætur vinna miklu fleiri hjá
fyrirtækjum við að rata um einstigi kerfisins og
lágmarka tjónið af höftunum. Viðamiklu kerfi
undanþága og undanþágubeiðna hefur verið
komið á laggirnar. Kærur hafa verið sendar
áfram til rannsóknar hjá lögreglustjóra þaðan
sem málin munu væntanlega fara til dómstóla,
sem skapar enn meiri vinnu við óarðbæra starf-
semi.
Skaðsemi gjaldeyrishafta
Skaðsemi gjaldeyrishafta er margvísleg.
Mikilvægast er að þau koma í veg fyrir frjáls
viðskipti, hefta þannig starfsemi markaðsafla.
Afleiðingin er einfaldlega óhagkvæmara efna-
hagslíf sem birtist í fjölmörgu. Íslensku at-
vinnulífi er m.a. gert erfiðara um vik í sam-
keppninni við erlend fyrirtæki sem ekki þurfa
að glíma við gjaldeyrishöft. Enn alvarlegra
kann að reynast að gjaldeyrishöftin leiða til
brenglaðra rekstrarhátta og afmyndaðra fyr-
irtækja þegar atvinnulífið leitast við að laga
starfsemi sína að höftunum. Gjaldeyrishöftin
rýra þannig samkeppnishæfni íslensks efna-
hagslífs til lengri tíma og langt umfram það
tímaskeið sem þau sjálf standa.
Gjaldeyrishöftunum fylgja einnig alvarleg
óbein áhrif því þau grafa undan trausti um-
heimsins og Íslendinga sjálfra á íslensku efna-
hagslífi. Með því að viðhalda gjaldeyrishöft-
unum erum við í raun að tilkynna að íslensk
stjórnvöld annaðhvort geti ekki eða vilji ekki
reka hagkerfi samkvæmt þeim leikreglum sem
tíðkast í þróuðum ríkjum. Þar með er verið að
lýsa því yfir að Ísland sé þriðja heims efnahags-
svæði þar sem búast megi við að stjórnvöld
skelli á og viðhaldi beinum gjaldeyrishöftum og
öðrum takmörkunum langtímum saman. Allir
vita að ekki er ráðlegt að fjárfesta eða efna til
annarra viðskiptasambanda á slíkum svæðum,
nema gegn mun hærri væntanlegri ávöxtun en
ella væri. Á þennan hátt rýrir sjálf tilvera
gjaldeyrishaftanna efnahagsmöguleika Íslands
til frambúðar.
Þá er ljóst að gjaldeyrishöftin eru notuð til
að halda uppi hærra gengi krónunnar en verið
hefði annars, og eru þannig notuð til að falsa
gengi krónunnar og gefa fólki til kynna að
kaupmáttur þess sé meiri en efni standa til. Yf-
irvöld kaupa sér þannig velvild sem ekki er
innistæða fyrir.
Að síðustu má nefna að gjaldeyrishöftin eru
afturhvarf til skipulagshyggju fortíðarinnar.
Þau eru tilvalið tæki fyrir stjórnvöld sem vilja
hafa fingurna í efnahagslífi þjóðarinnar og
móta framtíð þess. Á þessu stigi er ekki ljóst að
hve miklu leyti höftunum er beitt í þessu skyni.
Hitt er ljóst að framkvæmd reglnanna og veit-
ing undanþága felur í sér mikið vald hvað þetta
snertir. Við Íslendingar, eins og svo margar
aðrar þjóðir, höfum lært af biturri reynslu að
ríkisforsjá efnahagslífsins er ekki til velsældar
fallin. Hún leiðir jafnan af sér óhagkvæmni og
sóun og hneigist gjarnan til pólitískrar fyr-
irgreiðslu og mismununar.
Af þessum ástæðum og mörgum öðrum
draga gjaldeyrishöftin úr þjóðaframleiðslu í
bráð og hagvexti í lengd. Upphæðirnar sem um
er ræða eru mjög verulegar. Við fáum ekki séð
að í gjaldeyrishöftunum felist nokkur sá þjóð-
hagslegi ávinningur sem réttlætt geti þennan
kostnað.
Erfiðara að afnema
gjaldeyrishöftin með tímanum
Við óttumst að því lengur sem gjaldeyris-
höftin vara þeim mun meiri verði aðlögun sér-
hagsmuna að þeim og því erfiðara að afnema
þau. Ríkissjóður hefur í ýmsu tilliti hag af
gjaldeyrishöftunum. Sú staðreynd að háar fjár-
hæðir hafa lokast inni á bankareikningum
lækkar fjármagnskostnað afar skuldsetts ríkis-
sjóðs mjög verulega.
Gjaldeyrisáhættan sem fylgir nýjasta Ice-
save-samkomulaginu verkar í sömu átt. Vegna
þess að okkar krafa í þrotabú Landsbankans er
í íslenskum krónum, en skuldin við Breta og
Hollendinga í erlendri mynt, er þetta Icesave-
samkomulag líkt myntkörfulánum – þar sem
við borgum meira ef gengið lækkar en minna ef
það hækkar. Því má búast við að óttinn við
meiri útgjöld vegna Icesave ef gengið lækkar
muni hvetja stjórnvöld til að viðhalda gjaldeyr-
ishöftunum lengur en ella væri.
Gjaldeyrishöftin eru bönkunum á Íslandi
einnig í ýmsu hagfelld. Á meðan fólk á ekki
annars kost en að geyma fé sitt á bankareikn-
ingum innanlands er unnt að lækka innláns-
vexti og hækka vaxtamun. Ef gjaldeyrishöft-
unum yrði aflétt og fólk ætti þess kost að
ráðstafa sínu fé án takmarkana hyrfi þessi til-
tölulega auðvelda hagnaðarleið og bankarnir
yrðu að keppa á eðlilegri grundvelli.
Það er því ástæða til að ætla að sú staða
kunni að vera að myndast á Íslandi að bæði rík-
isvaldið og talsverður hluti einkageirans telji
hagsmunum sínum betur borgið í skjóli áfram-
haldandi gjaldeyrishafta. Sé svo, verður miklu
erfiðara að afnema gjaldeyrishöftin en efna-
hagslegar aðstæður gefa tilefni til. Við skulum
ekki gleyma því að síðast þegar við tókum upp
gjaldeyrishöft, í kreppunni miklu árið 1931,
stóðu þau í 62 ár (Ásgeir Jónsson. 2010. Banka-
hrunið 1930. Þjóðarspegillinn 2010).
Eftir Jón Daníelsson og
Ragnar Árnason
» Gjaldeyrishöftunum fylgja
einnig alvarleg óbein áhrif
því þau grafa undan trausti
umheimsins og Íslendinga
sjálfra á íslensku efnahagslífi.
Jón
Daníelsson
Ragnar Árnason er prófessor við Háskóla
Íslands. Jón Daníelsson er prófessor
við London School of Economics.
Gjaldeyrishöftunum
þarf að aflétta sem fyrst
Ragnar
Árnason