Morgunblaðið - 17.12.2010, Qupperneq 38
38 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 17. DESEMBER 2010
Friðrik Örn ljósmyndari opnar
sína fyrstu ljósmyndasýningu í
langan tíma á morgun, laugardag,
klukkan 15:00 á Bárugötu 21, í hús-
bíl. „Já, ég er búinn að vera í dvala
en hrökk í gang um daginn því mig
vantaði pening fyrir jólin. Sýningin
er í húsbíl fyrir utan hjá mér. Hús-
bíllinn er einsog hann hafi verið
geislaður frá Bandaríkjunum og
hingað. En inní honum eru myndir
frá ferð sem ég fór síðasta sumar,
en þá var ég trukkabílstjóri í
Bandaríkjunum í þrjá mánuði.
Þetta sýnir lífið í neysluæðinu þar,“
segir Friðrik Örn.
Ljósmyndasýning hjá
Frikka á Bárugötunni
Fólk
Fyrir þrjátíu árum kom bíómyndin The Empire
Strikes Back, önnur myndin í Star Wars bálkinum
út. Af því tilefni verður hún heiðruð með sýningu í
Crymo galleríi þar sem hópur listamanna tekur
þátt.
Leikstjóri myndarinnar, Irwin Kershner, lést á
árinu. „Já, greyið, hann lifði ekki að sjá hana verða
þrítuga,“ segir Ómar Hauksson með hluttekningu
en hann er einn þeirra sem verða með verk á sýn-
ingunni. Daníel Örn Halldórsson og Hugleikur
Dagsson standa að sýningunni og hafa fengið um
25 listamenn til að vera með verk á henni. „Já,
þetta er stór samsýning,“ segir Daníel. „Við Hug-
leikur erum svoddan fyrirmyndarnördar að okkur
fannst upplagt að minnast þessa verks með svona
framlagi,“ segir hann. „Ég er fæddur 1976, þannig
að maður elst upp í miðju stjörnustríðsæðinu. Þetta
er mikilvægur hluti af persónuleika manns. Þetta
er líka góð mynd. Dramatíkin í henni, maður engist
um því það lítur út fyrir að hið illa sé að sigra en
svo ná þeir því ekki. Það er fjölbreytt umhverfi í
myndinni, hún byrjar á ísplánetu og fer síðan mjög
víða. Það er af nógu að taka hvað „inspírasjón“
varðar í þessari mynd. Þetta er hálf-furðulegur
brandari hjá okkur að tileinka heila sýningu ein-
hverri bíómynd frá 1980 en ég held að þetta virki.
Allir listamennirnir eru að hamast í sínu horni og
þetta er búið að vera að koma inn í hús undanfarna
daga. Menn tækla þetta misjafnlega, en ég verð
með málverk og málaðan skúlptúr,“ segir Daníel.
Sýningin verður opnuð í dag kl. 17 og stendur til
13. janúar. borkur@mbl.is
Hið illa snýr aftur í Crymo gallerí
Grimmd Hið góða og hið illa eru alltaf í baráttu.
Rithöfundurinn og blaðamað-
urinn Hrafn Jökulsson heldur út-
gáfuteiti á Hressó í Austurstræti í
dag klukkan 17. Hrafn er höfundur
margra kunnra bóka og síðast gaf
hann út bókina Þar sem vegurinn
endar sem innihélt söguþætti úr
hans eigin lífi en hann var þá farinn
að lifa því í Árneshreppi á Strönd-
um. Í þetta skiptið er hann með ljós-
myndabók sem er þaðan og nefnist
Við ysta haf – Mannlíf og náttúra í
Árneshreppi á Ströndum. Bókin
kostar 5.000 krónur og kemur út í
takmörkuðu upplagi og verður ekki
endurprentuð.
Hrafn Jökuls á Hressó
Börkur Gunnarsson
borkur@mbl.is
Á hverju ári veitir tónlistarsjóðurinn
Kraumur plötuverðlaun vegna verka í
íslenskri plötuútgáfu sem þótt hafa
framúrskarandi og spennandi á árinu.
Dómnefnd Kraumslistans er skipuð
12 aðilum sem hafa verið liðtækir við
umfjöllun og spilun á íslenskri tónlist
á ýmsum sviðum fjölmiðlunar. Nefnd-
in hefur gefið út hvaða plötur hún hef-
ur valið sem mögulegar til verð-
launanna en tuttugu plötur eru í þeim
hópi. Þar á meðal eru plötur Amiinu,
Ólafar Arnalds, Retro Stefsons,
Agent Fresco og fleiri. Af þessum
tuttugu verða fimm valdar til verð-
launa. Markmið Kraumslistans er að
kynna og styðja við plötuútgáfu ungra
listamanna og hljómsveita, verðlauna
og vekja athygli á því sem er nýtt og
spennandi í íslenskri tónlist ár hvert.
Verðlaununum er fylgt eftir með því
að kynna verðlaunaverkin með dreif-
ingu til ýmissa starfsmanna tónlist-
arbransans erlendis, á tónlistarhá-
tíðir, til plötuútgáfu,
umboðsskrifstofa og fleiri.
Aðspurður hvort þetta geti verið
áhrifavaldur fyrir íslenskar hljóm-
sveitir á erlendum
vettvangi, segir
Eldar Ástþórs-
son, fram-
kvæmdastjóri
Kraums, að svo
geti verið. „En
það er mjög
margt sem kemur
til þegar hljóm-
sveitir ná árangri
á erlendum vettvangi, en þetta er
einn liður sem getur hjálpað til,“ seg-
ir Eldar. Formaður dómnefndarinnar
er Árni Matthíasson en í stjórn og
fagráði Kraums er fólk með mikil
tengsl við erlenda áhrifamenn í tón-
listarbransanum, eins og Björk Guð-
mundsdóttir, Árni Heimir Ingólfsson
og Kjartan Sveinsson.
Niðurstaða dómnefndarinnar verð-
ur kynnt á næstunni. „Við höfum mið-
að við að kynna úrslitin um miðjan
desember. Í fyrra kynntum við þær
16. desember. Ætli dómnefndin nái
ekki niðurstöðu einhvern tímann eftir
helgi og hún verður kynnt strax. Það
er ekki stefnan að setja mikið púður í
verðlaunahátíð, heldur bara að gera
sér glaðan dag með verðlauna-
höfum,“ segir Eldar.
Kraumur velur
bestu plöturnar
20 plötur tilnefndar til verðlauna
Tilnefndir Tónlistarmenn tilnefndir af Kraumi í ár fyrir plötur sínar.
Eldar Ástþórsson
Agent Fresco
- A Long Time Listening
Amiina - Puzzle
Apparat Organ Quartet - Pólyfónía
Daníel Bjarnason - Processions
Ég - Lúxus upplifun
Jónas Sigurðsson
- Allt er eitthvað
Kammerkór Suðurlands
- Iepo Oneipo
Miri - Okkar
Momentum - Fixation, At Rest
Moses Hightower - Búum til börn
Nolo - No-Lo-Fi
Ólöf Arnalds - Innundir skinni
Prinspóló - Jukk
Retro Stefson - Kimbabwe
Samúel Jón Samúelsson Big Band
- Helvítis Fokking Funk
Seabear - We Built a Fire
Sóley - Theater Island
Stafrænn Hákon - Sanitas
Valdimar - Valdimar
Quadruplos - Quadroplos
Fjölbreyttur listi
PLÖTUR TILNEFNDAR TIL KRAUMSLISTANS 2010