Morgunblaðið - 26.09.2011, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 26.09.2011, Blaðsíða 26
26 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 26. SEPTEMBER 2011 VIÐTAL Kolbrún Bergþórsdóttir kolbrun@mbl.is „Útgangspunkturinn er að klassísk tónlist sé eitthvað sem allir geti not- ið,“ segir Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur en hann heldur fyrirlestur um klassíska tónlist í Hörpu í kvöld, mánudagskvöldið 26. september. Það er Vinafélag Sinfón- íuhljómsveitar Íslands sem stendur fyrir fyrirlestri Árna Heimis, sem hefst kl. 20 í Kaldalóni í Hörpu. Fyr- irlesturinn nefnist Allt sem þú vildir vita um klassíska tónlist en þorðir ekki að spyrja. Aðgangur er ókeypis. Engin ein rétt leið „Erindi mitt er alls ekki hugsað sem kennsla í einhverjum flóknum fræðum, heldur vil ég leitast við að opna nokkra nýja glugga fyrir þeim sem vilja kynnast töfrum tónlistar- innar. Í fyrirlestrinum stikla ég á stóru um sögu klassískrar tónlistar, sinfóníuformið og ólíkar leiðir til þess að hlusta og njóta,“ segir Árni Heimir. „Ég býst við því að ástæðan fyrir því að Vinafélag Sinfóníunnar bað mig um að halda þessa kynningu sé sú að það hefur orðið sprenging í aðsókn á sinfóníutónleika. Aldrei hafa fleiri átt áskriftarmiða og salan hefur farið fram úr björtustu vonum. Vegna þessarar aukningar datt mönnum í hug að gaman væri að bjóða fólki upp á möguleikann á að fræðast meira um klassíska tónlist og fá innsýn í heim hennar. Þetta verða hugleiðingar mínar um klassíska tónlist og tónleika- formið. Það má til dæmis velta því fyrir sér af hverju sinfóníutónleikar eru byggðir upp eins og þeir eru, og af hverju sum verk heyrast oftar en önnur. Síðan er hægt að kafa dýpra í tónlistina sjálfa, að reyna að skilja hvernig tónskáld eins og Mozart og Beethoven raða hugsunum sínum upp músíkalskt. Þetta er nokkuð sem sumum finnst gaman að hafa í huga þegar þeir hlusta. Annars er ég alfarið á móti því að fólk fái á tilfinn- inguna að það sé einhver ein leið réttari en aðrar til þess að hlusta á tónlist, hvort sem það er klassísk tónlist eða önnur tegund tónlistar. Það sem er svo fallegt er að hver finnur sína leið, að engir tveir upp- lifa tónlist út frá sömu forsendum. Það er hægt að nálgast hlutina úr svo mörgum ólíkum áttum. Það er til dæmis hægt að forvitnast um ævi tónskáldsins, hvar hann var staddur á sínum ferli þegar hann samdi verk- ið og af hverju það varð til, kannski út af ástarsorg eða glímu við aðra erfiðleika í lífinu, til dæmis heyrn- arleysi í tilfelli Beethovens. Það er líka hægt að skoða hvernig tón- skáldið býr til væntingar í tónlistinni sem það annaðhvort uppfyllir eða ekki. Beethoven er til dæmis mikið fyrir að láta mann halda að hann sé að fara í eina átt en taka síðan allt í einu U-beygju. Það getur verið bráðfyndið ef maður veitir því at- hygli, en annars getur það farið framhjá manni. Þannig eru margar leiðir til að hlusta og ég ætla að gefa fólki örlitla nasasjón af nokkrum þeirra til að það geti svo valið sér leiðina sem hentar því. Ég mun gefa tóndæmi og spila af geisladiskum og sest líka við flygilinn.“ Spegill sálarinnar Spurður hvaða verk hann muni spila segir Árni Heimir: „Ég mun taka flest dæmi úr verkum eftir Mozart og Beethoven. Það er svo auðvelt að nota þau sem dæmi því hjá þeim eru hlutirnir svo skýrir.“ Hvaða áhrif heldurðu að klassísk tónlist hafi á fólk? „Það er erfitt að alhæfa en ég held að yfirleitt hafi klassísk tónlist ró- andi áhrif á fólk. Þess vegna held ég að fólki finnist gott að koma á tón- leika. Klassísk tónlist leysir okkur undan amstri hversdagsins en hún er líka eins konar spegill sálarinnar fyrir þann sem hlustar. Hún tengir okkur betur við einhvern kjarna í okkur sjálfum. Af því að hún er svo stór í formi gefur hún um leið ákveð- ið frelsi til túlkunar á stærri skala en við erum vön að upplifa. Popplög eru yfirleitt 3-4 mínútur á meðan sin- fónía er allt frá hálftíma og upp í klukkutíma að lengd. Þetta er svolít- ið eins og að bera saman ljóð og skáldsögu. Í klassísku tónlistinni hefurðu rými til að búa til heilmikla sögu fyrir sjálfan þig og samsama þig frásögn sem er á stórum skala. Ég held að okkur sé mjög hollt að eiga kost á því að upplifa þetta frelsi í tónlistinni því það er kannski dálít- ið búið að stroka úr okkur þetta ófjötraða ímyndunarafl. Við erum vön því að vera mötuð á bæði hljóði, mynd og frásögn, eins og í sjónvarpi og kvikmyndum.“ Þú nefndir að það hefði orðið sprenging í aðsókn á sinfóníu- tónleika. Er einhver skýring á því? „Það er tvímælalaust út af tilkomu Hörpu. Það er alþekkt um allan heim að þegar ný tónlistarhús eru opnuð þá skapast alltaf mikill áhugi. Harpa er líka miklu stærri við- burður fyrir okkur en þegar nýtt hús er opnað einhvers staðar úti í heimi og sinfóníuhljómsveit flytur sig úr gömlu tónlistarhúsi yfir í nýtt. Við höfum aldrei átt hús í líkingu við þetta áður. Biðin er líka orðin svo löng og það hefur byggt upp meiri eftirvæntingu. Raunar held ég að margt annað spili líka inn í, til dæm- is hvernig fólk hefur auðveldara að- gengi að öllum tegundum tónlistar í gegnum netið, og hvernig klassísk tónlist er notuð æ meira í kvikmynd- um. Ég held að fyrir vikið sé klassísk tónlist ekki eins fjarlæg fólki og áð- ur. Þannig að það þarf kannski ekki nema örlitla hugarfarsstillingu til að kunna að meta alla töfrana sem klassísk tónlist býr yfir.“ Morgunblaðið/RAX Árni Heimir Klassísk tónlist leysir okkur undan amstri hversdagsins en hún er líka eins konar spegill sálarinnar fyrir þann sem hlustar. Vil opna nýja glugga  Árni Heimir Ingólfsson heldur fyrirlestur í Hörpu í kvöld  Fjallar um ólíkar leiðir til þess að hlusta á og njóta klassískrar tónlistar  Klassísk tónlist tengir okkur við kjarna í okkur sjálfum, segir Árni Mozart Árni Heimir mun fjalla um tónlist hans. Beethoven Virðist vera að halda í eina átt en fer þá í aðra.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.