Vera - 01.11.1986, Qupperneq 28
Frjálshyggjan
-ný stefna í dag-
vistarmálum
I
\ll
%
L' / ,j
Á borgarstjórnarfundi þann 16. okt. sl. stóðu
Sjálfstæðismenn og fulltrúar Alþýðuflokksins
saman að samþykkt um dagvistarmál þar sem
mörkuð er sú stefna að sveitarfélögin „hafi al-
gert forræði um rekstur og skipan innri málefna
dagvistarstofnana“. Sagt með öðrum orðum þá
þýðir það að sveitarfélögin þurfa ekki að hlíta
neinum lögum eða reglugerðum hvorki hvað
varðar aðbúnað, starfsfólk né uppeldisstarf á
dagvistarheimilum. Kvennalisti og Alþýðu-
bandalag greiddu atkvæði gegn þessari sam-
þykkt.
í þessu máli sannast spakmælið að oft veltir lítil þúfa
þungu hlassi. Upphaf málsins var tillaga frá mér i borg-
arráöi um að mótmæla fyrirhuguðum niðurskurði ríkis-
valdsins á framlagi sínu til uppbyggingar dagvistar-
stofnana. Bjóst ég við að hægt væri að ná samstöðu um
slíka tillögu enda hefur borgarstjórn a.m.k. tvisvar áður
mótmælt slíkum niðurskurði. Borgarstjóri tók sér hins
vegar langan umhugsunarfrest og að honum loknum
lagði hann fram tillögu þar sem segir að það séu út af
fyrir sig eðlilegt að uppbygging dagvistarstofnana sé al-
farið verkefni sveitarfélaga fremur en ríkisins. Forsend-
ur fyrir slíku fyrirkomulagi séu þó að sveitarfélögum sé
bættur sá tekjumissir sem þau verði fyrir og svo hitt að
þau fái það „algera forræði" sem fyrr er nefnt. Meiri-
hluti borgarráðs og síðan borgarstjórnar samþykkti
þessa tillögu og þar með urðu tilburðir mínir til að mót-
mæla niðurskurðinum að engu.
Sjálfsagt sjá einhverjir — þar á meðal borgarfulltrúi
Alþýðuflokksins — í þessari tillögu sjálfstæðisyfirlýs-
ingu sveitarfélaga. Þau eru tákn valddreifingar, ríkis-
valdið tákn miðstýringar. Málið er bara ekki svona ein-
falt. Menn mega ekki gleypa slagorðið um sjálfstæði
sveitarfélaga hrátt né heldur láta Sjálfstæðismenn um
að matreiða það. Það má vel hugsa sér að færa aukin
verkefni yfir á sveitarfélögin og sjá þeim þá jafnframt
fyrir auknum tekjustofnum, en að undanskilja þau al-
mennum kröfum um lágmarksgæði félagslegrar þjón-
ustu er alveg fráleitt. Ef þessar hugmyndir næðu fram
að ganga á öllum sviðum hefði það í för með sér mjög
skertan rétt til menntunar, heilbrigðisþjónustu, öldrun-
arþjónustu, félagslegrar framfærslu, þjónustu við fatl-
aða og svona mætti lengi telja. Þar með er sjálfstæði
sveitarfélaga orðið á kostnað íbúanna. Það kann að
virðast sem ég sé að gera úlfalda úr mýflugu en ég er
sannfærð um að svo er ekki. Þróun undanfarinna ára
gengur öll í þá átt að draga úr opinberri þjónustu en efla
einkarekstur. í rauninni hefur þetta gerst nokkuð sjálf-
krafa sem afleiðing af kjaraskerðingum og láglauna-
stefnu. Þegar opinberir starfsmenn s.s. kennarar,
félagsráðgjafar, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar,
læknar o.fl. eru orðnir verulega illa haldnir í launum
verður einkareksturinn girnilegur kostur og fólk fæst
ekki til starfa hjá hinu opinbera. Þannig þjónar lág-
launastefnan beinlínis þeim tilgangi að skera niður
félagslega þjónustu án þess að stjórnvöld þurfi að
brýna busana.
Samþykktin í borgarstjórn er angi af þessu máli.
Rekstrarkostnaður dagvistarheimila hefur löngum ver-
ið Reykjavíkurborg þyrnir í augum. Er nánast litið á
þennan rekstur sem bagga á borginni. Kröfur til þessa
reksturs hafa þó án efa gert það að verkum að einka-
aðilum hefur ekki þótt hann fýsilegur. Hins vegar myndi
málið horfa öðruvísi við þegar búið væri að losa sveitar-
félögin við allar kröfur varðandi aðbúnað og starfsfólk.
Þá opnast leiðin til stóraukins einkareksturs, þar sem
fólk á engan rétt annan en þann að kaupa þá vöru sem
er á boðstólum og borga fyrir hana það verð sem upp
er sett. Þá er hætt við að það gleymist að dagvistar-
heimili eiga að stuðla að auknum þroska barna en ekki
vera geymslustaðir. Þess vegna bókaði ég líka í borgar-
stjórn að í anda frjálshyggjunnar væri nú gerð tilraun til
að skerða rétt og draga úr kröfum til góðrar félagslegrar
þjónustu. Næði þetta fram að ganga byði það heim
efnahagslegri mismunun og væri bein ógnun við það
félagskerfi sem náðst hefur fram með þrotlausri vinnu
og baráttu um áratuga skeið. Þess vegna skiptir það
meginmáli, ekki síst fyrir konur, að berjast gegn ,,frels-
istilburðum" Sjálfstæðismanna i dagvistarmálum.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir