Ljósmæðrablaðið - 01.12.1982, Blaðsíða 11
LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ
91
móðurlegi og ytri þættir svo sem lyf, hefðu þar lítil áhrif á. En um
það leyti birtust tvær greinar, er sýndu samband rauðra hunda og
fósturgalla, en með þeim uppgötvunum hófust fyrstu skipulögðu
rannsóknir á þessu sviði. Verulegur skriður komst þó ekki á þess-
ar rannsóknir fyrr en 20 árum síðar, að „slysið” var orðið að
raunveruieika og fjölfötluð börn tóku að fæðast í hópum. Hið
róandi lyf „Thalidomid” var orðið þungamiðja rannsóknanna.
Það ætti engan að undra, þótt þetta efni sé reifað á ráðstefnu
um mæðra- og ungbarnavernd, þar sem nú er talið að ófrískar
konur taki að meðaltali 4 mismunandi lyf á meðgöngu, að frá-
töldum vítamínum. Aðeins 20% kvenna ljúka meðgöngu án lyfja-
töku. Það sem er þó alvarlegast, er að 40% kvennanna taka lyfin
á fyrstu 8—12 vikunum, og um helmingur heildarlyfjanotkunar á
meðgöngu á sér stað meðan líffæramyndun fer fram og helmingur
þessara kvenna veit þá ekki enn að þær eru ófrískar. Ábyrgð
lækna er því mikil i þessu sambandi.
Flest lyf komast auðveldlega í gegnum fylgjuna og yfir til
fóstursins. Undanskilin eru aðeins fáein lyf með háan molikul-
þunga, eins og til dæmis Heparin. Verkun lyfja á fóstur getur
verið með ýmsu móti.
A) Verkunin getur komið fram strax eða síðar.
B) Lyfin geta haft áhrif á eitt eða fleiri líffærakerfi.
C) Flokka má verkunina niður á ellefu mismunandi vegu.
Lyf geta leitt til:
1) Fósturláta.
2) Vanskapnaða.
3) Krabbameins.
4) Afbrigðilegra kynfæra -l- kynstarfsemi.
5) Óeðlilegs þroska fyrir fæðingu.
6) Óeðlilegs þroska eftir fæðingu.
7) Óeðlilegrar líffærastarfsemi í fæðingunni.
8) Blæðingasjúkdóma.
9) Efnaskiptatruflana.
10) Fávitaháttar.
11) Miðtaugakerfisvandamála.
En þvi miður er oft erfitt að finna beint orsakasamband milli
lyfja og áhrifa á fóstur. Þar kemur margt til: