Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1971, Blaðsíða 136
Hinn 11. október hófst umfangsmesta geimflug
Sovétríkjanna á árinu. Geimskipinu Soyuz 6 með
geimförunum Georgi Shonin og Valeri Kubasov var
skotið á braut um jörðu með jarðnánd við 186 km
og jarðfirð við 223 km. Sólarhring síðar var öðru
geimskipi, Soyuz 7, skotið á mjög svipaða braut
með þrjá geimfara, þá Anatoli Filipchenko, Vladis-
lav Volkov og Victor Gorbatko. Loks var þriðja
geimskipinu, Soyuz 8, skotið á hliðstæða braut 13.
október. í því skipi voru Vladimir Shatalov og Alexei
Yeliseyev, sem tekið höfðu þátt í ferðum Soyuz 4
og 5 fyrr á árinu.
Geimskipin þrjú breyttu um brautir í samtals 31
skipti meðan á þessu hópflugi stóð og nálguðust
hvert annað nokkrum sinnum, en engar tengingar
milli þeirra áttu sér stað. Geimfararnir mældu geim-
geisla, tóku ljósmyndir af jörðu, gerðu tilraunir
með heita og kalda málmsuðu í lofttómu rúmi og
fengust við líffræðilegar og læknisfræðilegar athug-
anir. Hópflugið stóð samtals í sjö daga, en hvert
geimskip var á lofti í fimm daga. Soyuz 6 lenti fyrst,
16. október, síðan Soyuz 7, 17 október, og loks Soyuz
8, 18. október. Lentu stjórnförin öll í 150 km fjar-
lægð frá Karaganda, 35 km hvert frá öðru.
Hinn 14. nóvember lagði næsta tunglfar Banda-
ríkjamanna, Apolló 12, upp frá Kennedyhöfða með
þá Charles Conrad, Richard Gordon og Alan Bean
um borð. Minnstu munaði að illa færi rétt eftir
flugtak, er eldingu sló niður í geimskipið þar sem
það sat á trjónu Satúrnus-flaugarinnar á leið gegn-
um skýjaþykkni yfir Kennedyhöfða. Olli þetta rösk-
un á rafkerfum og tækjum í geimskipinu í nokkr-
ar mínútur, en kerfi burðarflaugarinnar urðu ekki
fyrir truflunum og allt fór vel.
(134)