Freyr - 01.10.1994, Blaðsíða 7
FRfl RITSTJÓRN
Ferðaþjónusta bœnda festir sig í sessi
Á þeim samdráttartímum sem gengið hafa yfir
hefðbundinn landbúnað hér á landi á undanföm-
um árum hefur verið leitað margra leiða til að
bæta upp það sem tapast hefur. Meðal þess sem
hefur þar skilað hvað bestum árangri er ferða-
þjónusta meðal bænda, mest undir merkjum
Ferðaþjónustu bænda. Þessi árangur íslenskra
bænda í ferðaþjónustu hefur vakið athygli
erlendis og jafnvel verið leitað fyrirmynda hér á
landi um uppbyggingu þessarar þjónustu þar.
Ymsar skýringar má eflaust finna á því hve vel
hefur hér til tekist. Forsendan er sú að fólk
ferðast sífellt meira og lengra í fríum sínum og í
tengslum við starf sitt þannig að þessi markaður
er vaxandi. Á hinn bóginn er aldagömul hefð
fyrir því hér á landi að hýsa gesti og gangandi og
blanda geði við þá. Gestir báru fréttir og kunnu
sögur og ljóð og ræktuðu þannig bókmennta-
áhuga þjóðarinnar. Margir voru aufúsugestir og
geymir íslensk tunga vart fegurra orð en það.
Annað einkennir Islendinga í samanburði við
ýmsar aðrar þjóðir en það er sá eiginleiki að geta
lagað sig fljótt að nýjum aðstæðum. Óstöðugt og
breytilegt veðurfar, fjölbreytt störf, jafnvel sótt
langan veg svo sem á vertíð í öðrum landshluta,
ólu upp sveigjanleika með þjóðinni. Þetta og
fleira hefur stuðlað að því að vel hefur tekist til
um uppbyggingu og rekstur ferðaþjónustu meðal
bænda.
Segja má að nú hafi þessi grein slitið barns-
skónum. Ferðaþjónustubændur gera sér sífellt
betur grein fyrir markaðnum, hvers þarf með og
hvað ber að varast. Kúfurinn í fjárfestingum í
greininni er nú frá en mörg verkefni eru þó fram-
undan til hagræðingar og endurbóta. Árið 1994
jukust umsvif í greininni án þess að ferðaþjón-
ustubæjum fjölgaði teljandi, þannig að meira
kom í hlut hvers og eins. Hins vegar jókst fram-
boð á gistingu úti um byggðir landsins og þá
m.a. í minni þéttbýlisstöðum.
Meðal þess sem reynslan hefur leitt í ljós er að
það skiptir máli að ferðaþjónustubæir búi við
góðar samgöngur. Þannig er það kostur að bæir
séu nálægt hringveginum. Einnig sýnir það sig
að háannatíminn er styttri eftir því sem bæir eru
lengra frá höfuðborgarsvæðinu og miðstöð flug-
samgangna við útlönd, Keflavíkurflugvöll. Beint
flug frá útlöndum, t.d. til Akureyrar og Egils-
staða, gæti þannig jafnað nokkuð þennan að-
stöðumun.
Ferðaþjónusta er afar árstíðabundin grein,
annatíminn getur farið niður í tvo mánuði. Erfitt
er að standa undir kostnaðarsömum fjárfesting-
um með svo lítinn nýtingartíma. Til að lengja
þennan tíma er leitað leiða til að höfða til fleiri
þarfa en hefðbundinna sumarleyfisferða. Því er
nú farið að bjóða upp á aðstöðu til námskeiða og
funda af ýmsum toga. Einnig hafa augu beinst að
því að bjóða upp á heilsu- og hollustudvöl meðal
bænda en á ráðstefnum sem Baldvin Jónsson,
starfsmaður Markaðsdeildar Upplýsingaþjónustu
landbúnaðarins, hefur haldið, með erlendum
fyrirlesurum, hafa þeir möguleikar verið kynntir.
Óhætt er að slá því föstu að síðasti áratugur
hefur skilað ferðaþjónustu bænda vel fram á veg-
inn. Ljóst er að íslensk náttúra hefur upp á margt
að bjóða sem ferðamenn sækjast eftir og sá að-
búnaður sem er í mannlegum mætti að veita fer
sífellt batnandi. Fyrir útlendinga er íslandsferð
víða gimilegur kostur. Á sveitaheimili er auk
þess unnt að kynnast íbúum landsins betur en á
hóteli en það meta margir ferðamenn mikils.
Framboð á afþreyingu hvers konar hefur auk-
ist, hestaferðir, jöklaferðir, möguleikar á veiði
o.fl. Mikið starf er hins vegar óunnið við að bæta
umgengni um landið, ófrágengin frárennsli, drasl
á víð og dreif, fallnar girðingar o.fl. sker í augu
ferðamanna sem annarra.
Eitt af því sem stuðlað hefur að því að ferða-
þjónusta meðal bænda hefur tekist jafn vel og
raun ber vitni er menntun þeirra sem þjónustuna
veita. Kunnátta í erlendum málum auk íslensku
er nauðsynleg, en einnig er mikill styrkur að því
að fólk sé vel að sér í sögu lands og þjóðar, og þá
einkum þess landshluta sem það byggir. Þekking
á náttúrufræði umhvefisins er einnig mikilvæg.
Þó að sjálfsagt þurfi ekki að kvarta yfir þessum
þætti má minna á það að besta auglýsing sem
ferðaþjónustubær getur fengið er ánægður gestur
sem heim kominn segir sögu sína. M.E.
19'94 - FREYR 687