Litli Bergþór - 01.12.1993, Blaðsíða 10

Litli Bergþór - 01.12.1993, Blaðsíða 10
Sagan af jarðarför Egils á Kjóastöðum Eftir Gunnar Karlsson Þessi grein var skrifuð í afmœlisrit til heiðurs Maríu Jóhannsdóttur, skrifstofustjóra heimspeki- deiidar Háskóla Islands, í tilefni af fimmtugsafmæli hennar, 18. júlí síðastliðinn. Ritið var aðeins gert í einu eintaki sem tœpast verður á vegi margra Tungnamanna, og því er hún endurbirt hér. Egill Þórðarson hét maður og bjó lengi á Kjóa- stöðum í Biskupstungum fyrir og eftir síðustu alda- mót. Því er hans minnst hér að hann var langafa- bróðir Maríu Jóhannsdóttur. Hann var bróðir Þórðar í Hólum, föður Péturs, föður Jóhanns, föður Maríu. Systir þeirra Þórðar og Egils var Margrét í Brattholti, móðir Sigríðar Tómasdóttur sem hefur orðið landsþekkt fyrir baráttu sína fyrir varðveislu Gullfoss. Sigríði hefur nú verið reist minnismerki við fossinn. Mér er sagt að leiðsögumenn ferðamanna kunni ekki allir mikið að segja satt frá henni, og grípi þeir þá til þess ráðs að segja að minnismerkið sé um konu sem hafi kastað sér í fossinn í ástarsorg. En það er önnur saga. Agli á Kjóastöðum var margt til lista lagt. Hann var rómuð grenjaskytta og hagleiksmaður, smíðaði spæni og bauka úr horni og skar út svo að orð var á gert, segir Guðríður Þórarinsdóttir í grein um Þórdísi dóttur hans í Inn til fjalla, riti Félags Biskupstungna- manna í Reykjavík. En Þórdís Egilsdóttir var landsþekkt hannyrðakona, og eru útsaumsmyndir hennar í eigu forsetasetursins á Bessastöðum. Hannes Þorsteinsson segir á líkan hátt frá Agli í endurminningum sínum og bætir því þó við að hann hafi ekki gætt þess að taka ofan hattinn, þegar Friðriki konungi áttunda var sýndur bærinn á Kjóa- stöðum á ferð hans um Suðurland sumarið 1907. í bernsku var mér sagt að kóngur hefði beðið um að fá að skoða bæ þar sem öll þök væru með torfi og hvergi sæi í bárujárn, og hafi bærinn á Kjóastöðum verið reisulegastur slíkra bæja sem voru á leið konungs. Móðir mín, Sigþrúður Guðnadóttir, ólst upp á Gýgjarhóli, næsta bæ neðan við Kjóastaði, á búskaparárum Egils, og minntist hún hans oft. Henni bar saman við aðrar heimildir mínar um að Egill væri mikill sómamaður, eins og allt það fólk, en nokkuð hispurslaus, bæði í orðum og athöfnum. Það var siður í þá daga að karlmenn gengu að slætti á nærbuxunum einum þegar veður var gott, síðum ullarnærbuxum sem náðu niður á fótleggi og væru nú kallaðar leggings. Egill sló jafnan á nærbuxunum, sagði móðir mín, og hikaði ekki við að bregða sér bæjarleið á sumrin án þess að fara í buxur utanyfir. Ekki var Egill mikið gefinn fyrir tónlist. Þegar ráðgert var að kaupa orgel í sóknarkirkju hans í Haukadal á hann að hafa sagt að sér væri sama þótt leikið væri á skilvindu við jarðarför sína. Hins vegar hafði hann sérstakt dálæti á Geysi, sem er tvær stuttar bæjarleiðir frá Kjóastöðum, og hafa Geysisgos blasað við þaðan, þegar þau voru glæsilegust. Móðir mín sagði mér frá jarðarför Egils. Eins og ég man sögu hennar, gaus Geysir einu af sínum tignar- legustu gosum þegar líkfylgdin fór framhjá hvera- svæðinu, á leið upp í Haukadal. Líklega hefur þetta verið löngu áður en farið var að bera sápu í Geysi til að fá hann til að gjósa, enda hefði það hvort sem er ekki verið gert þennan dag. Geysisgos voru framkölluð á sunnudögum, og þá eru menn ekki bornir til moldar. En þegar í kirkjuna kom hafðist ekki hljóð úr orgelinu, hvernig sem eftir var leitað. Skilvinda mun ekki hafa verið með í för, svo að Egill var jarðsunginn án undirleiks. Fyrir tveimur áratugum fór ég nokkrar ferðir með Böðvari Guðmundssyni skáldi, ásamt öðru góðu fólki, að taka upp útvarpsþætti um sögustaði. Meðal annars fórum við upp að Haukadal. Þar rifjaðist þessi saga upp fyrir mér, og sagði ég Böðvari hana á segulband, eins og ég þóttist kunna hana. Eftir að þátturinn var sendur út var mér sagt að ég hefði fært söguna í stílinn, svona slétt og felld hefði hún ekki verið í rauninni. Þá var móðir mín dáin, og ég get ekki munað hvort það var faðir minn eða eldri systkini sem vildu leiðrétta söguna, nema hvort tveggja væri. Liðu nú mörg ár, og sagan hvarf mér úr huga. Svo gerðist það í fyrra að Helga systir mín á Gýgjarhóli lét útvega sér útvarpsþætti Böðvars til að hlusta á þá aftur. Þá komst sagan af jarðarför Egils á Kjóa- stöðum til tals á ný, og ég fór að reyna að rifja hana upp, eins og eldra fólk og minnugra hafði leiðrétt hana eftir mér. Þá brá svo við að ég mundi söguna á engan hátt öðruvísi en ég hafði haft hana í upphafi og fann engan sem mundi hana með vissu öðruvísi. Þannig vill sagan því vera, hvort sem það er af völdum Egils eða einhvers annars. Kannski gerðist hún í rauninni svona. Þannig ætla ég að minnsta kosti að halda áfram að segja söguna og bæta framvegis við hana ályktunarorðum á þá leið að það sé kynfylgja fólks í þeirri ætt að orðum þess fylgi nokkuð drjúgur áhrifamáttur. Greinai höfundw ásamt Jónasi Gíslasyni, vígslubiskup, við kirkjudyr í Haukadal. Litli - Bergþór 10

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.