Litli Bergþór - 01.12.1993, Blaðsíða 12

Litli Bergþór - 01.12.1993, Blaðsíða 12
Hverasvæðið í Laugarási Samantekt Pétur Skarphéðinsson. Við lestur greinar Bjarna Harðarsonar í síðasta hefti Árnesings, rits Sögufélags Árnesinga um Laugarásjörðina vöknuðu spurningar um hvar þessir hverir voru. En það má hafa til marks um hve svæðinu er mikið umbylt að ekki er hægt að átta sig á hvar þeir voru án leiðsagnar kunnugs manns. Það varð svo úr að Guðmundur Indriðason dró upp mynd af svæðinu þar sem hann hefur merkt inn á staðsetningu kennileita. Nokkuð hefur verið sagt frá hverunum áður og er það birt hér á eftir en Ijóst er að nokkur eftirsjá er að þessum minjum og sennilega hefði verið hægt að hlífa svo sem einum hvernum frá steinsteypu án þess að hitaveitan biði skaða af og í þess stað hlaða hann upp með grjóti með aðstöðu til þvotta og suðu. Hefði vel farið á að hafa þar tjaldstæði fyrir ferðalanga. Eins og nafn jarðarinnar ber með sér hafa laugarnar verið notaðar frá landnámi og er fyrsta heimild um þá notkun úr Hungurvöku en þar segir frá því er Ketill Þorsteinsson biskup á Hólum var í heimsókn hjá Magnúsi Einarssyni Skálholtsbiskup árið 1145. Var þá haldin brúðkaupsveisla: „Sú veisla var svo mjög vönduð að slík eru síst dæmi á íslandi; þar var mikill mjöður blandinn og öll atföng önnur sem best mátti verða. En föstudags- aftan fara biskupar báðir til laugar í Laugarás eftir náttverð. En þar urðu þau tíðindi að þar andaðist Ketill biskup. Mikill hryggleiki var þar á mörgum mönnum í því heimboði þar til biskup var grafinn og um hann búið. En með fortölum Magnúsar biskups og drykk þeim hinum ágæta er þar var veittur þá urðu menn skjótara afhuga hörmum sínum“. í Jarðabók Árna frá 1708 segir um Laugarás: „Eldivið spara hér hverarnir, en þar á mót drepst þar í peningur þess á milli“. í ferðabók Eggerts og Bjarna frá 1750 segir svo: „í kringum Skálholt eru laugar á nokkrum stöðum, en einkum eru tvær þeirra nærri staðnum, önnur fyrir austan hann en hin fyrir vestan. Aðalbaðlaugin var fyrir vestan staðinn, skammt frá Brúará. Hún var hlaðin upp af múrsteini, en var rifin í tíð Jóns biskups Árnasonar, eftir að hún hafði breyst og flutst úr stað við jarðskjálfta. Laug sú er nú er notuð liggur fjórðung mílu frá Skálholti þar sem heitir í Laugarási. Er hún hlaðin úr torfi og grjóti á sléttri klöpp, nokkrum skrefum fyrir neðan sjóðandi hver. Rennur vatnið úr honum í stokk niður í baðþróna, en þegar hún er full, fellur lækurinn fram hjá henni niður í vík úr Hvítá. Botn víkurinnar er sléttur leirbotn. Vatnið er einungis 2-3 fet á dýpt, og verður það volgt af laugarvatninu. Þar baða menn sig á sumrin, þegar gott er veður. Heitur lækur frá öðrum hver fellur einnig þangað niður. í þeim hver er soðinn matur, einkum ket og mjólk. Þar er einnig bleyttur viður, bæði gyrði og annað sem beygja þarf. Þar er einnig þvætt og þvegið o. s. frv. Sauða- og nautgripabein sem liggja á botninum á hvernum eru sviðin. Vatn þessarra hvera er tært, létt og bragðgott og hefur reynst heilnæmt að baða sig í því. Ekkert hrúður setst kringum hverina og vatnið skapar ekki steingerfinga. Samt er lyktin af gufunni óþægileg." í ferðabók Þorvaldar Thoroddsen frá 1889 segir svo um hverasvæðið: „Hverirnir eru þar vestan við ásinn í smásíkjum og grafingum. Sameinast vatnið úr þeim og mýrlendinu í kring og verður að dálitlum ósi. Hveragötin eru full af sjóðandi og bullandi vatni en ekki gjósa þau. Mesta hitann fann ég í holu beint niður undan bænum. Þar voru 97° C, í Draugahver 95°, í Hildarhver 94°, í Potti 94,5°. Kringum hverasíkin vaxa hinar vanalegu hveraplöntur, t.d. mura, græðisúrur, vatnsnafli og oddvarartegund (Polygonum pericaria). Austan og norðan við ásinn eru líka dálitlir jarðhitar." í Suðra 1970 skrifaði Kristján Sæmundsson svo um jarðhita í Laugarási: „í Laugarási var jarðhiti nýttur til upphitunar einna fyrst í Árnessýslu. Læknishéraðið hafði keypt jörðina um 1920 og síðan byggt þar læknisbústað (1923) úr viðum konungshússins frá Geysi. Erlendur á Sturlureykjum í Borgarfirði, sem fyrstur leiddi jarðhita heim í hús til upphitunar og eldunar hér á landi, var fenginn til að sjá um hitalögn í húsið. Læknishúsið var byggt uppi á hæðinni ofan við Hverhólmann, þar sem það stendur ennþá, endurbyggt að vísu. Var leidd gufa þangað upp neðan frá hvernum í gegnum blikkofna, sem smíðaðir voru sérstaklega, og einnig var þró heima við húsvegg, þar sem sjóða mátti mat. Ekki gafst vel að leiða gufuna í gegnum ofnana og var því fjótlega hætt og þá tekin upp hringrásarhitun. Byrjað var með gróðurhús 1940, og næsta áratuginn bættust þrjú garðyrkjubýli við. Rauði kross íslands stofnaði þar barnaheimili 1944 og ný íbúðarhús voru reist. í Laugarási voru í byrjun allar byggingar hitaðar upp með hringrás út í ýmsa hveri, einnig gróðurhúsin. Laust fyrir 1960 sameinuðust þrír gróðurhúsabændur um hitaveitu úr Hildarhver, og settu þar upp dælustöð. 1965 var gerð hitaveita fyrir Litli - Bergþór 12

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.