Litli Bergþór - 01.03.2008, Side 3
-----------------------------------------------------------------------------------
Ritstj ómargrein
Nú á tímum gerir fólk miklar kröfur til aðstöðu og þjónustu hvar sem það býr á svæðum þar sem
búseta allt árið er heimil. í mörgum atriðum er ætlast til að sveitarstjórn sjái til þess að þörfum
þess sé fullnægt.
Samgöngur eru áberandi þáttur í þessu. Frá því að farið var að aka börnum í skyldunámi
daglega til og frá skóla hefur verið ætlast til að færð hamlaði ekki för skólabíla nema í mjög
vondu veðri. Löngum hefur þótt sjálfsagt að mjólkurbílar kæmust ferða sinna, og var stundum
sagt að fólk nyti ekki fullra mannréttinda nema þar sem það byggi væru annað hvort skólabörn
eða mjólkurframleiðsla. Á síðustu tímum hefur mjög færst í vöxt að fólk í dreifbýli sé í vinnu
fjarri heimili sínu, og hlýtur það þá að ætlast til að akfært sé alltaf þegar ferðaveður er. Nú
þekkist varla lengur að burðarlag vega í byggð sé svo veikt að þeir verði ófærir vegna aurbleytu
þegar klaki er að fara úr jörð á vorin, því er það einkum snjórinn, sem getur heft för fólks.
Einnig þykir flestum illt við að una að þurfa að aka nema stuttan spöl á malarvegi.
Sjálfsagt þykir að talsímasamband sé til staðar á öllum byggðum bólum. Nú er þetta
mögulegt án símalína, en ný þörf varð til þegar internetið varð algengt. Nauðsynlegt þykir að
geta sent og fengið allskonar bréf, myndir og teikningar á augabragði.
Fræðsla barna er veigamikill þáttur í lífi fólks, ekki aðeins skyldunámsárin tíu heldur vilja
margir eiga kost á að börn sín fari í leikskóla strax á mjög ungum aldri. Til þess að sinna því
þarf að vera til hentugt húsnæði, þar sem vel fer um börnin og öryggi þeirra er tryggt. Miklu
máli skiptir einnig að þar sé hæft starfsfólk, sem sinnir ekki aðeins líkamlegum þörfum barn-
anna, heldur líka andlegum þroska þeirra. Þessi þáttur er væntanlega enn veigameiri þegar
börnin eru komin í grunnskólann og farin að búa sig skipulega undir lífsstarfið. Þar er hæfni
þeirra prófuð á skipulegan hátt og eftir árangri þeirra. Þar metur ekki aðeins samfélagið til hvers
þau eru hæf, heldur einnig þau sjálf. Því er eðlilegt að forráðamenn barna og allir aðrir, sem
láta sig velferð þeirra skipta, leggi mikið upp úr því að skólastarfið sé markvisst og árangursrfkt.
Mikilvægt er einnig að börn og unglingar hafi góða aðstöðu til tómstundastarfs.
Allir þurfa að eiga kost á hreinu vatni, helst bæði heitu og köldu. Góð og örugg vatnsveita
er mikils virði og hitaveita eykur mjög þægindi og í ýmsum tilvikum möguleika á fjölbreyttri
starfsemi. Frárennsli og sorplosun verður að vera þannig að það spilli ekki umhverfinu.
Jafnan þurfa að vera til góðar byggingalóðir á viðunandi kjörum bæði fyrir íbúðarhús og
æskilega atvinnustarfsemi og kostur þarf að vera á þriggja fasa rafmagni
allsstaðar þar sem veruleg umsvif eru.
Ýmis fleiri atriði mætti nefna, sem hænir fólk að, svo sem fjölbreytt atvinnu-
tækifæri, sem hæfir mismunandi hæfileikum, áhugamálum og menntun fólks.
Sum áðurnefndra atriða eru þess eðlis að íbúar verða að stuðla að því sjálfir
að þau séu í lagi, önnur eru á forræði ríkisins og enn önnur að mestu eða öllu
leyti á vegum sveitarfélagsins. Margir gera kröfu til að forráðamenn þess leysi
allra vanda og hafi áhrif á að yfirvöld sinni sínum skyldum og verði við sann-
gjörnum kröfum fólksins. Eðlilegt er að fólk leiti fyrst og fremst til sveitarstjórn-
ar með beiðnir um úrbætur hvort sem hún getur leyst það sjálf eða þarf að bera
kröfurnar áfram á efra stjórnsýslustig. Sveitarstjórn er kjörin af sveitungunum á
fjögurra ára fresti til þess að búa þeim gott umhverfi og sinna óskum þeirra.
Því betur sem þessu er sinnt þeim mun meiri líkur eru á að hér vilji fólk
búa.
3 Litli Bergþór