Litli Bergþór - 01.03.2008, Page 14

Litli Bergþór - 01.03.2008, Page 14
Frá þorrablóti Minni kvenna Góðir gestir Þar sem minni mitt er mjög lélegt man ég ekki hvernig formúlan fyrir hefðbundnum pistli um minni kvenna er. Hef ég því ákveðið að varpa fram hugleiðingum um efni sem stendur mér nærri en það er samanburður á mjaltatækni. Sem kúabóndi í dag kemur oft fyrir að meta þurfi hvort nýjasta tækni eigi upp á pallborðið hverju sinni. Hef ég því ákveðið að gera samanburðarlista á annars vegar mjaltaþjónum (róbótum) og hinsvegar hinni gamalreyndu og þrautseigu mjaltakonu. Ef við byrjum á útlitinu þá er það gjörólíkt. Mjaltaþjónninn er annað hvort rauður kassalaga eða blár kassalaga. En mjaltakonan getur verið í öllum litum og fer liturinn eftir ýmsu t.d. hugarástandi, tísku, tunglstöðu og fleiri umhverfisþáttum sem erfitt getur verið að átta sig á. Jafnvel getur hún skipt litum en þá má maður oft sjálfum sér um kenna. Lúkkið er mjög ólíkt, hjá mjaltakonunni eru mjúku, hlýju línurnar ráðandi en á mjaltaþjóninum eru skörp horn og kalt málmkennt yfirborð sem ekkert gaman er að reka sig óvart utaní. En úr þessum þungu þönkum reikaði nú hugurinn að notagildinu, jú mjaltaþjónninn er eingöngu ætlaður til þess eins að þjóna einni dýrategund, en blessuð mjaltakonan, hún er margfalt fjölhæfari og treysti ég mér engan veginn til að telja upp allt það sem hún er fær um að framkvæma. Að eignast mjaltaþjón er tiltölulega lítið mál, einungis þarf að geta skrifað nafnið sitt skammlaust, því að sölumenn berjast um á hæl og hnakka við að telja manni trú um að þetta sé hinn eini sanni vandamálaleysir. Þegar að bóndi festir sér mjaltaþjón fær hann notendahandbók og gerður er nákvæmur þjónustusamningur um eftirlit og viðhald og allt að 10 ára ábyrgð. Öðru máli gegnir um mjaltakonuna, engin notendahandbók, ekkert þjónustutékk og engir ábyrgðarskilmálar, aðeins klapp á bakið frá tengdó og svo verð ég að spjara mig upp á eigin spýtur. En að eignast góða mjaltakonu er talsvert flóknara mál. Þar þarf maður að leggja sig fram af lífi og sál og beita öllum mögulegum og ómögulegum persónutöfrum sem maður hefur uppá að bjóða. Snúum okkur að húsplássinu en svo virðist sem að hægt sé að bolta mjaltaþjóninn niður nánast hvar sem er, hvort heldur sem er úti í horni í skítakulda eða bara miðsvæðis eins og hverju öðru jólatré og þar er hægt að ganga að honum vísum, hvað sem tautar og raular. Allt öðru máli gegnir um mjalta- konuna, beita þarf ýtrustu lagni og samningalipurð Frá þorrablóti aldraðra. til þess að geta gengið að henni á vísum stað. Til þess að hún virki rétt þarf helst ákveðið hitastig, mjúkt gólf, góða birtu, næga loftræstingu og rétta vinnuhæð. Að maður tali nú ekki um stærð og tísku- strauma í gerð húsnæðisins, þar eru kröfurnar margfaldar. Berum nú saman mjaltatæknina. Samkvæmt auglýsingu fylgir mjaltaþjónum fimm ára ábyrgð á spenaleitara með lacerljósi. Varð mér þá hugsað til mjaltakonunnar sem aldrei hefur klikkað á spenaleitinni. Mjaltaþjónninn hefur þung- lamalegan rafstýrðan arm sem þvær og strýkur spenann eftir fyrirfram ákveðnu forriti í tölvunni sem er uppfært reglulega af sérþjálfuðum starfs- mönnum Windows hugbúnaðar. Leituðu nú hlýjar hugsanir aftur til mjaltakonunn- ar sem handleikur spenann af einstakri alúð og lagni sama hver spenastaðan er. Speninn má vísa til hægri eða vinstri, fram eða aftur eða hreinlega lafa slappur niður og mjaltakonan nær ávalt réttum tökum á spenanum og örvar hann til góðra verka. Þess má einnig geta að ekki er mikil hætta á tölvutengdum eða öðrum álíka vandamálum í miðjum mjöltum, nema ef vera skildi að karlinn væri að skipta sér af. Þá er voðinn vís. Nú hefur verið farið vandlega yfir tæknilegu hliðarnar á þessum tveimur lausnum og er þá tímabært að skoða rekstrarhliðina. Byrjum á mjaltaþjóninum. Hann kostar X margar krónur í innkaupum, hann kostar X margar krónur í viðhaldi og rekstri og síðan er hann afskrifaður á 10 árum. Um rekstrarkostnað og afskriftir mjaltakonunnar hef ég ákveðið að tjá mig ekki, því að mig langar til að komast heim eftir blótið og fá hjálp við mjaltirnar í þynnkunni í fyrramálið. I lokin legg ég nú til að við karlmenn lyftum glösum til heiðurs konum og ég óska ykkur öllum góðra „mjalta“ í framtíðinni. SKÁL. Jón Halldór Gunnarsson. Litli Bergþór 14

x

Litli Bergþór

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.